Þingmenn beggja deilda í Washington hafa nú staðfest kjör Joe Bidens og Kamölu Harris í embætti 46. forseta og varaforseta Bandaríkjanna. Það gerðist rúmum 15 klukkustundum eftir að umræður um þessi formlegheit, staðfestingu kjörmannafjöldans frá ríkjunum 50, hófust.
Í millitíðinni náðu, eins og allir eflaust vita, hundruð stuðningsmanna Donalds Trump forseta að koma sér framhjá lögreglu og öryggisvörðum og inn í þinghúsið, með þeim afleiðingum að stöðva þurfti þetta formlega ferli í valdaskiptunum.
Þegar þinghaldið var rofið og þingmenn fluttir á brott með hraði vegna óeirðanna í gær stóðu yfir umræður um mótbárur þingmanna Repúblikanaflokksins í báðum deildum við staðfestingu úrslitanna í Arizona.
Þær umræður héldu áfram þegar þingið settist aftur til starfa kl. 1 í nótt að íslenskum tíma.
Í kjölfarið var einnig rætt um mótbárur þingmanna Repúblikanaflokksins vegna úrslitanna í Pennsylvaníu, en umræður þessar þurfa að eiga sér stað ef einhverjir þingmenn beggja deilda neita að viðurkenna úrslitin.
Báðum tillögum var hafnað með afgerandi hætti.
Repúblikanar drógu í land
Um niðurstöðurnar í öðrum ríkjum var ekki rætt, en þingmenn Repúblikanaflokksins í öldungadeildinni ákváðu að draga í land með mótmæli sín sem boðuð höfðu verið um úrslitin í Georgíu og fleiri ríkjum.
Það lá við handalögmálum í fulltrúadeildinni þegar umræðan um niðurstöðurnar í Pennsylvaníuríki stóð yfir, samkvæmt frétt Washington Post. Þingmaður demókrata, Conor Lamb, varpaði hluta ábyrgðarinnar á árásinni á þingið í gær á kollega sína úr röðum repúblikana.
„Við vitum að árásin í dag kom varð ekki til úr engu, hún var innblásin af lygum – sömu lygum og við heyrum í þessum sal í kvöld,“ sagði Lamb og bætti við því þeir fulltrúar sem væru að endurtaka þessar lygar ættu að „skammast sín“ og kjósendur í umdæmum þeirra ættu sömuleiðis að skammast sín fyrir þá.
Eftir þetta kom til harðra orðaskipta á milli tveggja annarra þingmanna úr sitt hvorum flokknum, en engin hnefahögg flugu, samkvæmt frásögn Washington Post.