„Land okkar hefur þurft að þola nóg. Við munum ekki sætta okkur við þetta lengur og um það snýst þetta allt saman. Svo ég vitni í eftirlætis orðin sem þið í raun funduð upp: Við ætlum að stöðva þjófnaðinn.“
Þessi orð Donalds Trump fráfarandi Bandaríkjaforseta, sem hann lét falla á útifundi með þúsundum stuðningsmanna sinna í garði við Hvíta húsið í gær, útifundi undir yfirskriftinni „Björgum Bandaríkjunum“, voru það veganesti sem hersingin tók með sér er hún gekk fylktu liði að þinghúsinu í Washington. Í kjölfarið hófst fordæmalaus atburðarás sem endaði með dauða fjögurra manna.
Hér að neðan er atburðarásin í hnotskurn.
Klukkan 6 í gærmorgun
Þúsundir stuðningsmanna Trumps undirbúa sig fyrir útifund með forsetanum í nágrenni Ellipse, 20 hektara garðs sunnan við Hvíta húsið. Margir höfðu þegar safnast saman um nóttina. Trump hafði sjálfur hvatt til mótmæla á Twitter þann 19. Desember þegar hann skrifaði: Stór mótmæli í D.C. 6. Janúar. Mætið! Þetta verður villt!“
Klukkan 10
Útifundurinn, undir slagorðinu „Björgum Bandaríkjunum“ hefst formlega með því að synir Trumps, Eric og Donald Jr., ávarpa mannfjöldann. Rudy Guiliani, lögmaður forsetans fráfarandi, ávarpaði einnig hópinn. Rétt fyrir hádegi var komið að Trump sjálfum að halda ræðu. „Að þessu loknu munum við ganga þarna niður eftir, ég verð þarna með ykkur, við ætlum að ganga þarna niður að þinghúsinu og við ætlum að hvetja okkar kjarkmiklu þingmenn.“
Ræða Trump stóð yfir í rúmlega klukkustund. Að henni lokinni hófst fjöldaganga að þinghúsinu.
Klukkan 13 í gærdag
Þingfundur beggja deilda bandaríkjaþings hófst í þingsal fulltrúadeildarinnar. Efni fundarins var staðfesting á úrslitum forsetakosninganna í nóvember og þar með staðfesting á því að Joe Biden var rétt kjörinn forseti.
Klukkan 13.10
Aðeins fáum mínútum eftir að þingfundurinn hófst hóf lögreglan að glíma við æsta stuðningsmenn Trumps fyrir framan þinghúsið. Trump, sem hafði skömmu áður lofað að slást í hóp mótmælenda gerði það ekki heldur fór beint inn í Hvíta húsið og fylgdist með atburðarásinni í sjónvarpinu.
Klukkan 13.26
Lögreglumenn úr sérstakri sveit þinghússins rýma nokkrar byggingar sem því tilheyra, m.a. skrifstofubyggingar.
Klukkan 13.33
Tilkynning berst um að óeirðarseggir hafi komist inn í þann hluta þinghússins sem aðskilur þingsali fulltrúadeildar og öldungadeildar.
Klukkan 13.40
Muriel Bowser, borgarstjóri Washington, fyrirskipar útgöngubann sem taka átti gildi fjórum klukkustundum síðar. Lögreglan óskar eftir auknum mannafla á vettvang.
Klukkan 13.46
Elaine Luria, þingmaður Repúblikana, skrifar á Twitter að þingsalurinn hafi verið rýmdur eftir að tilkynning barst um sprengju utan við þinghúsið. „Stuðningsmenn forsetans eru að reyna að brjótast inn í þinghúsið og ég heyri eitthvað sem líkist byssuskotum.“
Klukkan 14.11
Árásarmenn ná að brjóta sér leið í gegnum varnarlínur lögreglunnar vestan við þinghúsið. Um svipað leyti fara margir þeirra að klifra yfir veggi umhverfis húsið.
Klukkan 14.22
Fréttir berast af því að Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, sé meðal þeirra sem lögreglan hafi fylgt út úr þingsalnum. Tveimur mínútum eftir að sú frétt berst skrifar Trump á Twitter:
„Mike Pence skorti hugrekkið til að gera það sem hefði átt að gera til að verja land okkar og stjórnarskrá, að gefa ríkjunum tækifæri til að votta leiðréttingu [á kosningaúrslitunum], ekki þessi fölsuðu og ónákvæmu sem þeir hafa áður beðið um vottun á. Bandaríkin krefjast sannleikans!“
Klukkan 14.38
Trump tístir á ný og skrifar: „Vinsamlega virðið lögregluna okkar. Hún er sannarlega með okkur á bandi í landinu okkar. Haldið friðinn!“
Klukkan 14.39
Myndir eru birtar af því þegar uppreisnarseggirnir brjóta rúður í gluggum sjálfs þinghússins. Fimm mínútum seinna er tilkynnt um að byssuskotum hafi verið hleypt af í sal fulltrúadeildarinnar. Greint er frá því í fréttum að hópur manna hafi komist inn í salinn.
Margt gerist á næstu mínútum. Hver þingmaðurinn á fætur öðrum upplýsir um stöðuna á samfélagsmiðlum. Að þeir hafi þurft að setja upp sérstaka hlífðarskildi fyrir andlit, sem í er gasgríma, áður en þingsalir voru rýmdir og þeim komið í öruggt skjól. Rétt fyrir kl. 15 fara að berast myndir af uppreisnarmönnunum sitjandi í pontu í þingsal öldungadeildarinnar. „Ég hef aldrei komið hingað inn,“ hrópar kona til mannfjöldans utan við þinghúsið, eftir að hún hafði náð að brjóta sér leið inn í húsið. „Við eigum þinghúsið. Við eigum ykkur!“
Nokkrir úr innrásarliðinu fóru inn á skrifstofur þingmanna og einn þeirra kom sér fyrir á skrifstofu Nancy Pelosi, forseta fulltrúadeildarinnar. „Við munum ekki hætta!“ stóð á miða sem hann lagði á skrifborð hennar.
Klukkan 15.13
Trump skrifar enn einu sinni á Twitter: „Ég bið alla í bandaríska þinghúsinu að halda friðinn. Ekkert ofbeldi! Munið, VIÐ erum flokkur laga og reglna – virðið lögin og okkar frábæra fólk í bláu. Takk fyrir!“
Dóttir hans, Ivanka, deilir tísti föður síns og ávarpar óeirðarseggina sem „föðurlandsvini“. Hún eyðir tístinu seinna.
Klukkan 15.21
CBS-sjónvarpsstöðin greinir fyrst fjölmiðla frá því að kona hafi orðið fyrir skoti í þinghúsinu og að ástand hennar sé alvarlegt. Lögreglan tilkynnti síðar að hún hefði látist.
Klukkan 15.25
Meira en klukkutíma eftir að fólkið ruddist fyrst inn í þinghúsið tekst lögreglu að koma því út úr húsakynnum öldungadeildarinnar.
Klukkan 15.36
Þjóðvarðlið 1.100 manna er loks hvatt á vettvang til að aðstoða lögregluna. Trump beið í margar klukkustundir frá upphafi ólátanna að kalla það út. Heimildir CNN herma að hann hafi í fyrstu neitað að gera það, jafnvel eftir að ljóst var að vopnaðir menn hefðu brotið sér leið inn í þinghúsið sjálft. Í sumar hikaði hann ekki við að kalla slík lið til aðstoðar lögreglu í að minnsta kosti 23 ríkjum, alls um 17 þúsund manna aukalið. Það var í tengslum við mótmæli Black lives matter.
Um svipað leyti eru fréttir að berast af því að lögreglumenn hafi særst í átökum við uppreisnarmennina.
Klukkan 16.15
Joe Biden ávarpar þjóðina í sjónvarpi og segir atburðina „fordæmalausa árás“ og hvetur Trump til þess að bregðast við.
Klukkan 16.17
Trump birtir einnar mínútu langt myndband á Twitter þar sem hann segir m.a.: „Ég veit að þið finnið sársauka. Ég veit að þið eruð sár. Kosningunum var stolið af okkur. Við unnum með yfirburðum og allir vita það, aðallega andstæðingarnir. En þið verðið að fara heim núna. Við verðum að halda friðinn. Við verðum að hafa lög og reglu. Svo farið heim. Við elskum ykkur, þið eruð mjög sérstök í okkar huga. Ég veit hvernig ykkur líður. En farið heim og farið heim í friði.“
Einhverjum tístum forsetans um óeirðirnar hefur verið eytt af reikningi hans. Þá ákvað Twitter í nótt að loka fyrir nýjar færslur frá Trump.
Klukkan 20 í gærkvöldi
Þingmenn halda fundi sínum áfram eftir að árásarmennirnir höfðu verið fjarlægðir úr þinghúsinu.
Þeir staðfesta nokkru síðar niðurstöðu kosninganna: Joe Biden er réttkjörinn forseti Bandaríkjanna.
Fjórir létust í átökunum í nótt. Tugir voru handteknir.