Donald Trump Bandaríkjaforseti birti ávarp á Twitter-síðu sinni, sem hann hefur nú aftur fengið aðgang að, þegar klukkan var að ganga eitt um nótt að íslenskum tíma.
Ávarpið var gjörólíkt því sem hann birti að kvöldi miðvikudags, eftir að stuðningsmenn hans höfðu ruðst inn í húsakynni Bandaríkjaþings. Þá sagði hann: „Við elskum ykkur.“
„Eins og allir Bandaríkjamenn er ég æfur yfir ofbeldinu, lögleysunni og glundroðanum,“ sagði Trump í kvöld og hélt því síðan fram, þvert á það sem rétt og satt er, að hann hefði samstundis sent þjóðvarðliða og alríkislögreglumenn til að koma böndum yfir ástandið.
Fjölmiðlar vestanhafs hafa greint frá því að hann hafi beitt sér gegn því að þjóðvarðliðið yrði kallað út til þess að yfirbuga múginn sem hafði brotið sér leið í gegnum veikar varnir lögregluliðsins á Kapitóluhæð.
Viðurkenndi ósigur
Í ávarpinu viðurkenndi Trump að ný stjórn myndi taka við í Bandaríkjunum 20. janúar næstkomandi, en þá mun Joe Biden sverja embættiseið sinn.
Hann kallaði eftir því að ró myndi færast yfir bandarískt þjóðlíf og sagðist ætla að beita sér fyrir því að valdaskiptin myndu ganga vel fyrir sig – þó að hann teldi úrslit kosninganna ekki réttlát.
Trump sagði að það væri búið að vera mesti heiður lífs hans að þjóna Bandaríkjunum sem forseti.
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) January 8, 2021
Wall Street Journal – og fleiri – kalla eftir afsögn Trump
Teymið sem Donald Trump hefur haft í kringum sig undanfarin ár splundraðist í sundur eftir atburði miðvikudagins og fjölmargir háttsettir ráðamenn í stjórn hans hafa sagt af sér.
Fregnir hafa borist af því að rætt sé um það í fúlustu alvöru á meðal ráðherraliðsins að beita 25. grein stjórnarskrár Bandaríkjanna til þess að leysa hann frá störfum – og kallað hefur verið eftir afsögn forsetans úr ýmsum áttum.
Til dæmis kallar ritnefnd Wall Street Journal eftir afsögn forsetans, í grein sem birtist á fimmtudagskvöld. „Það er best fyrir alla, hann sjálfan meðtalinn, ef hann lætur sig hverfa hljóðlega,“ segir ritnefndin í greininni.
Leiðtogar Demókrataflokksins á Bandaríkjaþingi hafa lýst því yfir að þeir hyggist ákæra Trump til embættismissis, ef ráðherrar hans víki honum ekki úr embætti.
Ritnefnd Wall Street Journal vonast til þess bandarísku þjóðinni verði hlíft við slíkum æfingum, á síðustu 13 dögum stormasamrar forsetatíðar Donalds Trump.