Íslensk stjórnvöld verja um sjö prósentum af landsframleiðslu í beinum mótvægisaðgerðum gegn efnahagsáhrifum yfirstandandi heimsfaraldurs. Þetta er mest allra Norðurlanda, en undir meðaltali þróaðra ríkja, sem eru rúm níu prósent af landsframleiðslu.
Þetta kemur fram í annarri skýrslu starfshóps fjármála- og efnahagsráðherra um eftirfylgni efnahagsaðgerða vegna faraldursins. Í skýrslunni er horft til aðgerða stjórnvalda sem lúta beint að atvinnuástandinu, fólki í viðkvæmri stöðu og stuðningi við sveitarfélög.
Þar er umfang þessara aðgerða í ár og í fyrra borið saman á milli landa. Hér á landi nema þær ríflega 200 milljörðum króna, sem samsvarar um sjö prósentum af landsframleiðslu árið 2019. Til samanburðar nema sambærilegar aðgerðir 5-6 prósentum af landsframleiðslu í Danmörku, Noregi og Svíþjóð, og einungis 2,6 prósentum af landsframleiðslu í Finnlandi.
Hins vegar eru aðgerðirnar ekki miklar ef þær eru bornar saman við önnur þróuð lönd, sem að meðaltali eyða um 9,3 prósentum af landsframleiðslu í efnahagslegum björgunarpökkum.
Margt ótalið
Samkvæmt starfshópnum er stór hluti efnahagsaðgerða gegn kreppunni ekki talinn með í tölum Íslands, þar sem hann fylgir hagsveiflunni sjálfkrafa. Þessir þættir, sem eru til dæmis atvinnuleysistryggingar og skattgreiðslur, eru kallaðir sjálfvirkir sveiflujafnarar. Samkvæmt hópnum eru þessi sjálfvirku viðbrögð ekki jafnsterk í löndunum sem hafa varið meira í beinum efnahagsaðgerðum.
Einnig bætir hópurinn við að ýmsar aðgerðir sem hafa óbein áhrif á ríkissjóð, en styðja þó við hagkerfið, eru heldur ekki talin með hér. Þar má helst nefna ríkistryggð lán, greiðslufresti á skattgreiðslum og greiðsluskjól.
Aftur á móti eru beinar mótvægisaðgerðir ríkissjóðs af ýmsum toga, en í skýrslunni eru tugir þeirra sem ráðist var í á síðasta ári nefndir. Af rúmum 90 milljörðum króna ríkisstjórnin varði í þessar aðgerðir á síðasta ári fór langstærstur hluti þeirra, eða um 80 milljarðar, í tekjutengdar atvinnuleysisbætur, hlutabætur og aðrar hækkanir atvinnuleysisbóta.