Magn reiðufjár í umferð jókst mikið hér á landi í fyrra, miðað við árin á undan, þótt ekki sé víst að viðskipti með reiðufé hafi aukist. Vísbendingar eru um að þessi aukning hafi verið tilkomin vegna þess að fólk hafi ákveðið að færa eignir sínar á öruggara form vegna óvissu í efnahagsmálum.
Þetta kemur fram í grein Stefáns Arnarsonar, aðalféhirðis Seðlabanka Íslands, sem birtist í nýjasta tímariti Vísbendingar síðastliðinn föstudag. Samkvæmt Stefáni er ásókn fólks í öruggar eignir, líkt og gull og reiðufé, þekkt á óvissutímum, en aukning 10 þúsund króna seðla í umferð í mars og apríl gæti hafa verið birtingarmynd slíkrar hegðunar.
50 seðlar á mann
73 milljarðar króna af reiðufé eru í umferð hérlendis í dag. Það gerir að meðaltali 50 seðla á hvern landsmann, að verðmæti 209 þúsund krónur, og 12 þúsund krónur í klinki sem vega 4 kg. Hins vegar, þegar landsmenn eru spurðir í könnunum hversu mikið reiðufé þeir hafi á sér, segjast þeir ganga með um 10 þúsund krónur. Stefán segir það þýða að einhverjir Íslendingar geymi háar fjárhæðir í reiðufé á góðum stöðum.
Hins vegar segir Stefán að ýmsir þættir hamli greiningu á notkun reiðufjár, þar sem upplýsingar um hvernig hún skiptist milli viðskipta og geymslu liggi ekki fyrir.
Meira reiðufé en ekki endilega í viðskiptum
Hver sem notkunin var má þó sjá frá tölum Seðlabankans að árin 2017 til 2019 hægði á vexti reiðufjár í umferð, en í byrjun síðasta árs nam vöxturinn á ársgrundvelli fjórum prósentum. Viðsnúningur var á þessari þróun í kjölfar heimsfaraldursins og efnahagskreppunni sem henni fylgdi, en á seinni hluta ársins nam tólf mánaða vöxtur reiðufjár í umferð rúmlega tíu prósentum.
Þrátt fyrir mikinn vöxt reiðufjár í umferð nefnir Stefán að ýmsir þættir bendi til þess að notkun reiðufjár í viðskiptum á síðustu mánuðum hafi minnkað, til að mynda hafi netverslun aukist, auk þess sem yfirvöld og bankar hafi hvatt fólk til að nota snertilausar greiðslulausnir. Einnig hafi ferðamönnum á landinu fækkað, en þeir eru alla jafna gjarnir á að nota reiðufé.
Önnur vísbending um að geymsla reiðufjár hafi aukist fæst þegar skoðaðar eru tegundir reiðufjár sem aukist hefur í umferð á síðasta ári. Nær öll aukning reiðufjár árið 2020 var vegna aukins fjölda 10 þúsund króna seðla, en þeim fjölgaði um 17,2 prósent á meðan aukningin var mun minni hjá smærri seðlum og myntum.
Öruggar eignir á óvissutímum
Svo virðist sem mikið af aukningu 10 þúsund króna seðla í umferð hafi átt sér stað á fyrstu vikum faraldursins í mars og apríl. Daginn sem fyrsta samkomubannið var auglýst streymdu til dæmis út 350 milljónir króna af 10 þúsund króna seðlum.
Samkvæmt Stefáni er möguleg skýring á þessari fjölgun sú að fólk hafi brugðist við óvissu í efnahagsmálum með því að færa eignir sínar inn á öruggara form, þ.e. íslenskt reiðufé. Hann segir að þessi hegðun, sem kölluð er „flight to quality“ á ensku, birtist til dæmis sem ásókn í gull á óvissutímum.
Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu með því að smella hér.