Stjórnvöld hafa ákveðið að framlengja hlutabótaleiðina svokölluðu, sem felur í sér rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta samhliða minnkuðu starfshlutfalli vegna tímabundins samdráttar í starfsemi vinnuveitenda, til og með 31. maí. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem birtist á vef félagsmálaráðuneytisins fyrr í dag.
Ef kostnaður vegna almennra atvinnuleysisbóta er frá talinn er hlutabótaleiðin langdýrasta aðgerðin sem stjórnvöld hafa ráðist í til þess að bregðast við efnahagskreppunni sem fylgdi heimsfaraldri kórónuveirunnar. Samkvæmt upplýsingasíðu stjórnarráðsins var búist við að 34 milljörðum króna yrði varið í greiðslu hlutabóta í fyrra, en alls hefur rúmur 21 milljarður verið greiddur úr ríkissjóði vegna úrræðisins.
Fjöldi starfsmanna á hlutabótum náði hámarki í fyrstu bylgju faraldursins í vor, en í maí fengu tæp 33 þúsund manns greitt vegna skerts starfshlutfalls. Mánaðarlegur fjöldi minnkaði þó hratt í sumar og náði að meðaltali aðeins rúmum þremur þúsundum yfir júlí, ágúst og september.
Á síðustu þremur mánuðum hefur fólki á hlutabótum þó fjölgað aftur, en þá hefur að meðaltali fimm þúsund manns nýtt sér úrræðið. Þróunina má sjá hér að neðan, en í desember fengu 5.450 einstaklingar hlutabætur.
Samkvæmt tilkynningu frá félagsmálaráðuneytinu munu atvinnuleitendur fá greidd 6% af grunnatvinnuleysisbótum með hverju barni til og með 31. desember 2021 en áður gilti úrræðið til 31. desember 2020.
Áætlaður heildarkostnaður ríkissjóðs vegna breytinganna er 6,7 milljarðar kr. Þar af fara 6 milljarðar króna í framlengingu á hlutabótaleiðinni og 700 milljónir króna í framlengingu á hækkun á greiðslum til atvinnuleitenda vegna barna.