Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, segist telja það skynsamlegt skref að kanna virði fjórðungshlutar í Íslandsbanka og selja hann ef rétt verð fáist. Það rökstyður hún meðal annars með því að ríkissjóður verði afar skuldsettur eftir kórónuveirufaraldurinn og að þær skuldir verði að greiða niður, til dæmis með sölu eigna.
Þorgerður Katrín segist þó skilja að sporin hræði þegar kemur að sölu á eignarhlut ríkisins í bankakerfinu, segir að söluferlið verði að vera gegnsætt og leikreglur skýrar.
Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu á Facebook sem Þorgerður Katrín birti í dag. Hún er fyrsti leiðtogi stjórnarandstöðuflokks sem lýsir yfir jákvæðni gagnvart þeim áformum ríkisstjórnarinnar að hefja á ný söluferli á hlut ríkisins í Íslandsbanka.
Í stöðuuppfærslunni segir Þorgerður Katrín að mikilvægt sé að leita allra leiða til að fjármagna halla ríkissjóðs með öðrum leiðum en lántöku. „Í því liggja almannahagsmunir, framtíðarhagsmunir. Því ef að líkum lætur munu alþjóðlegir vextir hækka fyrr en síðar með auknum byrðum á ríkissjóð og skattgreiðendur.
Áhættan sem fylgir íslensku krónunni er mikil sem ekki er hægt að líta framhjá. Vert er að hafa í huga að á árinu 2020 jukust skuldir ríkissjóðs um 45 milljarða bara vegna gengisbreytinga. Svipuð fjárhæð og við ræddum misserum saman vegna Icesave. Þessi skuldaaukning ríkissjóðs á síðasta ári vegna krónunnar einnar og áhættunni sem henni fylgir var hins vegar neðanmáls í litlu letri í fjárauka.“
Ekki nýtt að vilja gefa banka
Þorgerður Katrín fjallar líka um hugmyndir sem fram hafa verið settar af þingmönnum Sjálfstæðisflokks, sérstaklega Sigríði Á. Andersen og Óla Birni Kárasyni, um að gefa almenningi hlut í ríkisbönkum. Gjöf á hlutabréfum í banka var líka hluti af kosningaloforðum Miðflokksins í aðdraganda síðustu kosninga.
Bankasala endurvakin skömmu fyrir jól
Ríkisstjórn Íslands, sem á bæði Íslandsbanka og Landsbankann, hefur haft sölu á hlut sínum í Íslandsbanka á dagskrá allt þetta kjörtímabil. Ferlið var komið á rekspöl í byrjun síðasta árs og stefnt var að sölu innan þess. Kórónuveirufaraldurinn og efnahagslegar afleiðingar hans settu strik í reikninginn og í mars voru áformin lögð á hilluna.
Þann 17. desember síðastliðinn, egi áður en þingi var slitið, birti svo Bankasýsla ríkisins minnisblað sem innihélt tillögu til Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, um sölu á hluta ríkisins í Íslandsbanka.
Lagt var til að söluferli bankans hefjist í janúar og gert er ráð fyrir því að því gæti lokið í maí.
Bjarni, og Guðmundur Árnason, ráðuneytisstjóri í fjármála- og efnahagsmálaráðuneytinu, sendu bréf til baka á Bankasýsluna 21. desember þar sem tillaga hennar um að hefja sölumeðferð á Íslandsbanka var samþykkt.
Bjarni sagði við Morgunblaðið í síðasta mánuð að gera mætti ráð fyrir að virði eignarhlutar ríkisins í Íslandsbanka væri 130 til 140 milljarðar króna.