Sjálfstæðisflokkurinn tapar 2,7 prósentustigum milli mánaða í fylgiskönnunum MMR og mælist nú með 24,4 prósent fylgi. Hinir tveir stjórnarflokkarnir, Vinstri græn og Framsóknarflokkur, bæta hins vegar við sig fylgi.
Vinstri græn fara úr 7,6 í 10,9 prósent fylgi milli mánaðar og Framsóknarflokkurinn úr 7,6 í 9,1 prósent. Því bæta stjórnarflokkarnir samanlagt við sig um 2,1 prósentustigi frá því í síðustu könnun MMR, sem var gerð í lok nóvember 2020.
Fylgi þeirra er samanlagt 44,3 prósent sem er 8,6 prósentustigum undir kjörfylgi. Allir þrír stjórnarflokkarnir mælast með minna fylgi nú en það sem þeir fengu upp úr kjörkössunum þegar síðast var kosið, haustið 2017.
Miðflokkurinn hressist milli mánaða og mælist nú með 8,6 prósent fylgi. Það er samt sem áður vel undir kjörfylgi.
Flokkur fólksins tapar fylgi milli mánaða og mælist nú með 4,9 prósent fylgi. Skammt undan er Sósíalistaflokkur Íslands, með 4,4 prósent fylgi, en hann er eini flokkurinn sem mælist í könnun MMR sem á ekki þegar fulltrúa á þingi. Sósíalistaflokkurinn mældist með fimm prósent fylgi í lok nóvember.
Könnunin var framkvæmd 30. desember 2020 - 11. janúar 2021 og var heildarfjöldi svarenda 2.002 einstaklingar, 18 ára og eldri.