Nagladekkjabann. Bann við akstri þungra ökutækja. Bann við umferð ökutækja með tilteknum endatölum eða endabókstöfum í skráningarmerki. Breyting á hámarkshraða. Takmörkun á umferð ökutækja sem knúin eru tilteknum mengandi orkugjöfum.
Þetta eru þau tímabundnu úrræði sem sveitarfélögum eða Vegagerðinni verður heimilt að beita á ákveðnum svæðum ef útlit er fyrir að loftmengun vegna bílaumferðar nái í heilsuspillandi hæðum og vægari úrræði eins og gatnahreinsun eða rykbinding dugi ekki, ef drög að reglugerð frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu sem nú er að finna í samráðsgátt stjórnvalda verða að veruleika.
Lengi hefur verið von á þessari reglugerð, en með nýju umferðarlögunum sem tóku gildi í ársbyrjun 2020 er kveðið á um heimild til íþyngjandi aðgerða til þess að mæta mikilli loftmengun.
Fram kemur í reglugerðardrögunum að til grundvallar banni eða takmörkunum skuli liggja fyrir mat viðkomandi heilbrigðisnefndar og rökstuðningur fyrir takmörkun umferðar vegna mengunar, sem á að vera studdur mæliniðurstöðum eða mengunarspám Umhverfisstofnunar eða heilbrigðiseftirlits viðkomandi sveitarfélags.
Mengun yfir skilgreindum mörkum þónokkra daga á ári
Loftmengun frá bílaumferð er sú mengun á Íslandi sem helst hefur áhrif á heilsu fólks, þrátt fyrir að dregið hafi úr henni undanfarna áratugi með breyttri samsetningu bílaflotans og aukinni úrkomu, samkvæmt yfirlitsgrein um loftmengun á Íslandi sem birtist í Læknablaðinu árið 2019. Helstu mengunarefni frá umferð eru svifryk og nituroxíð. Stór hluti svifryks kemur frá vegyfirborðinu og þar eru nagladekkin stór áhrifaþáttur.
Niðurstöður nýlegrar rannsóknar sem framkvæmd var hér á landi benda til þess að draga þurfi verulega úr notkun nagladekkja, ætli stjórnvöld sér að ná því markmiði að árið 2029 verði enginn dagur þar sem svifryk af völdum bílaumferðar fari yfir skilgreind heilsuverndarmörk á höfuðborgarsvæðinu.
Einnig væri hægt, samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar, sem Kjarninn fjallaði um í lok nóvember, að beita róttækum skammtímaaðgerðum eins og að banna notkun um það helmings bílaflotans (t.d. þeirra sem eru með númer sem endar á oddatölu) á þeim dögum þar sem loftgæði verða fyrirsjáanlega slæm, eða bleyta götur og lækka umferðarhraða. Einmitt svipuðum aðgerðum og opnað verður á með fyrirhugaðri reglugerð.
Samkvæmt reglugerðardrögunum skulu eftirfarandi mæligildi eða spágildi höfð til viðmiðunar við mat á því hvort loftmengun sé yfir heilsuverndarmörkum eða líkur á því að svo verði:
- a) 50 µg/m3 að því er varðar sólarhringsmeðaltal á grófu svifryki (PM10)
- b) 25 µg/m3 að því er varðar sólarhringsmeðaltal á fínu svifryki (PM2.5)
- c) 200 µg/m3 að því er varðar klukkustundarmeðaltal niturdoxíðs (NO2)
Samkvæmt skýrslu Umhverfisstofnunar um loftgæði á Íslandi árið 2019 voru í heildina 36 dagar þar sem sólarhringsmeðaltal PM10, grófa svifryksins, fór yfir heilsuverndarmörkin. Mælistöðvar á höfuðborgarsvæðinu fóru sextán sinnum yfir sólarhringsmeðaltalið það ár og Umhverfisstofnun segir að í sex skipti hafi mátt rekja upprunann til umferðar, en þetta grófa svifryk getur átt sér ýmsan uppruna, jafnvel má rekja það sandstorma í Sahara-eyðimörkinni.
Á mælistöð við Strandgötu á Akureyri fór sólarhringsmengunin rúmlega tuttugu sinnum yfir heilsuverndarmörkin hvað gróft svifryk varðar, en uppruni svifryksins á Akureyri hefur þó ekki verið skráður.
Helstu mögulegu uppsprettur eru þó taldar vegslit vegna nagladekkjanotkunar, hálkuvarnir með jarðefnum og mögulega sandfok frá opnum svæðum ofan af Glerárdal.
Fína svifrykið, PM2.5, fór einnig þónokkra daga yfir heilsuverndarmörkin sem skilgreind eru í reglugerðardrögunum, bæði við Grensásveg og einnig á mælistöð sem er við Húsdýragarðinn í Reykjavík, í hjarta Laugardalsins.
Köfnunarefnisdíoxíð, eða niturdíóxíð, fór níu sinnum yfir þau heilsuverndarmörk, sem skilgreind eru í reglugerðardrögunum, árið 2019. Í öll skiptin var það við Grensásveg.