Mikið var um fasteignakaup í nóvember og hafa íbúðir ekki selst jafnhratt á síðustu árum, samkvæmt nýrri mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS). Verðhækkun fasteigna á höfuðborgarsvæðinu er einnig töluverð. Þó eru vísbendingar um að virknin á fasteignamarkaðnum sé að minnka, þar sem þinglýstum kaupsamningum hefur fækkað og útlán hafa minnkað milli mánaða.
Kaupsamningum fækkar og útlán minnka
Samkvæmt skýrslunni var þetta umsvifamesti nóvembermánuður á fasteignamarkaði frá upphafi mælinga, en aldrei hafa jafnmargir kaupsamningar verið þinglýstir á þessum tíma árs. Hins vegar er fjöldi kaupsamninga nokkuð minni en í október, sem gæti bent til þess að hægst hafi á markaðnum eftir mikið líf síðasta sumar. Þó bætir HMS við að það sé ekki alveg ljóst, þar sem fjöldi kaupsamninga geti aukist eftir því sem ný gögn berast.
Aðra vísbendingu um að toppnum hafi verið náð í virkni á fasteignamarkaðnum má sjá þegar tölur um ný útlán til heimila, að frádregnum uppgreiðslum, eru skoðaðar. Sú fjárhæð náði hámarki í október þegar hún slagaði í 30 milljarða króna, samkvæmt skýrslunni. Samsvarandi fjárhæð í nóvember nam aftur á móti 22 milljörðum króna. Hlutdeild óverðtryggðra lána hefur vaxið æ meira og fór hún yfir 40 prósent í nóvember, sem er í fyrsta skiptið sem það gerist.
Íbúðir dýrari og seljast hraðar
Þrátt fyrir þessa tvo mælikvarða benda aðrir þættir til mikils þrýstings á markaðnum, þar sem íbúðir seljast mun hraðar og oftar á yfirverði. Báðir þessir mælikvarðar voru hærri á haustmánuðum heldur en í fyrrasumar.
Meðalsölutími íbúða á höfuðborgarsvæðinu í október og nóvember var um 46 dagar og hefur minnkað úr 60 dögum í upphafi árs. Á landsbyggðinni er meðalsölutíminn komin niður í 66 daga eftir að hafa verið 81 dagur í upphafi árs. Aldrei hafa íbúðir verið jafnstutt á sölu á fasteignasíðum landsins.
Einnig seljast nú um 46 prósent íbúða á höfuðborgarsvæðinu nú annað hvort á eða yfir ásettu verði, samanborið við tæp 25 prósent í byrjun ársins. Líta þarf aftur til ársins 2007 til að að finna hærra hlutfall þar.
Meiri þrýstingur á höfuðborgarsvæðinu
Mikil ásókn í íbúðir og takmarkað framboð virðist hafa sett þrýsting á íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu, en 12 mánaða breyting á vísitölu söluverðs nam um 7,7% í nóvember samanborið við 6,7% í október. Í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins hefur heldur dregið úr hækkuninni og mældist 12 mánaða hækkun vísitölu söluverðs þar 4,1% í nóvember og annars staðar á landinu mældist árshækkun íbúðaverðs neikvæð.