Áfrýjunarnefnd samkeppnismála hefur staðfest að Síminn hafi brotið gegn sátt sem félagið gerði við Samkeppniseftirlitið árið 2015 um að tvinna ekki saman fjarskiptaþjónustu og línulegri sjónvarpsþjónustu. Það hafi Síminn gert með því að bjóða ólík viðskiptakjör við sölu á Enska boltanum á Símanum Sport, eftir því hvort hann var boðinn innan Heimilispakka Símans eða einn og sér í stakri áskrift.
Sekt Símans var þó lækkuð úr 500 milljónum króna í 200 milljónir króna.
Í úrskurði áfrýjunarnefndar er tekið fram að brot Símans sé alvarlegt og að háttsemi fyrirtækisins hafi verið í andstöðu við ákvæði sáttarinnar sem það hafi undirgengist að hafa í heiðri í starfsemi sinni.
Í úrskurði áfrýjunarnefndar var aftur á móti talið að Samkeppniseftirlitið þyrfti að rannsaka nánar stöðu Símans á markaði að því er snerti þá háttsemi sem í ákvörðun eftirlitsins var talin brjóta gegn sáttinni frá 23. janúar 2015. Af þeim sökum var þeim þætti málsins vísað til nýrrar meðferðar hjá Samkeppniseftirlitinu.
Í tilkynningu sem Síminn sendi til Kauphallar Íslands í kvöld er niðurstaðan túlkuð á annan hátt. Þar segir að áfrýjunarnefndin hafi fellt ákvörðun Samkeppniseftirlitsins að hluta úr gildi. „Síminn fagnar því að stjórnvaldssekt sú er Símanum var gert að greiða sé lækkuð umtalsvert. Það sýnir að hið meinta brot á skilyrðum sem Símanum voru sett á fyrri árum var ekki með þeim hætti er Samkeppniseftirlitið úrskurðaði um.“
Bæði Síminn og Samkeppniseftirlitið segjast nú munu fara betur yfir forsendur úrskurðarins og meta næstu skref, en hægt er að bera úrskurðinn undir dómstóla.
Úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála mun hafa áhrif á afkomu Símans árið 2020 þar sem lækkun sektar verður færð á síðasta fjórðung ársins. Áður birt EBITDA spá Símans fyrir árið 2020 var 9,9 – 10,3 milljarðar. Vinnu við ársuppgjör er ekki lokið, en samkvæmt fyrstu drögum er útlit fyrir að EBITDA ársins verði í kringum 10,4 – 10,5 milljarða króna að teknu tilliti til úrskurðar áfrýjunarnefndar. Sá fyrirvari er gerður að endurskoðun ársuppgjörs er í gangi og stjórn félagsins hefur ekki fjallað um niðurstöðu ársins.
Tekjur Símans af sjónvarpsþjónustu jukust um 13,8 prósent á fyrstu níu mánuðum ársins 2020 miðað við sama tímabil árið áður. Alls voru tekjurnar vegna sjónvarpsþjónustu 4,6 milljarðar króna á tímabilinu eða 560 milljónum krónum hærri en á fyrstu þremur ársfjórðungum ársins á undan. Vert er að taka fram að Síminn tók við sýningarétti á enska boltanum frá upphafi tímabilsins 2019/2020 og því eru tekjur vegna hans að öllu leyti inni á árinu 2020, en að litlu leyti á árinu 2019.
Auglýsingatekjur Símans vaxið um 22 prósent milli ára, sem verður að teljast ágætt í ljósi þess að kórónuveirufaraldurinn hefur valdið umtalsverðum tekjusamdrætti í auglýsingasölu flestra fjölmiðlafyrirtækja það sem af er árinu 2020.
Þá hafa tekjur af Premium-þjónustu Símans aukist um 18 prósent frá því sem þær voru á þriðja ársfjórðungi í árið 2019.
Alls jukust tekjur Símans um 572 milljónir króna á fyrstu níu mánuðum ársins 2020 miðað við sama tímabil árið áður. Það þýðir að nær öll tekjuaukningin er tilkomin vegna sjónvarpsþjónustunnar.