Þórunn Egilsdóttir, oddviti Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi og þingflokksformaður, mun ekki gefa kost á sér í næstu alþingiskosningum. Frá þessu greinir hún í færslu á Facebook í dag.
Þórunn sagði frá því á sama vettvangi í kringum jólahátíðina að hún hefði að nýju greinst með krabbamein, en fyrst greindist Þórunn með brjóstakrabbamein í upphafi árs 2019 og hélt það henni frá störfum síðasta vetur og fram til vors 2020.
Í lok ársins 2020 kom svo bakslag, Þórunn fór að finna fyrir óþægindum og í ljós kom að ekki var allt með felldu.
„Meinið hefur tekið sig upp að nýju en brýnt er að vera bjartsýn. Maður verður alltaf að horfa fram á við. Og maður má aldrei missa vonina. Aldrei. Framboð til Alþingis verður hins vegar að bíða betri tíma. Ég mun því ekki gefa kost á mér til að leiða lista Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi í komandi alþingiskosningum,“ ritar Þórunn, sem hefur setið á þingi frá því árið 2013.
Hún hafði áður boðað að hún myndi gefa kost á sér til þess að leiða lista Framsóknar í Norðausturkjördæmi á ný í kosningunum sem eiga að fara fram í september og segist hafa verið full bjartsýni og trúað því að meinið væri farið.
Þórunn segir að Framsóknarflokkurinn hafi komið miklu til leiðar með samvinnu og áræðni. „Samvinnuhugsjónin, félagsleg gildi og mikilvægi landbúnaðar og byggðar í landinu öllu eiga fullt erindi í stjórnmálin, nú sem aldrei fyrr. Þar er Framsóknarflokkurinn í lykilhlutverki,“ skrifar Þórunn og segir félagshyggju- og samvinnufólk eiga gott fólk með mikla reynslu sem sé tilbúið í verkefnið.
„Ég vona og veit að okkur ber gæfa til að starfa saman enda er það lykillinn að árangri,“ skrifar Þórunn.
Þórarinn Ingi Pétursson varaþingmaður hefur tekið sæti Þórunnar á þingi, en hann gegndi einnig þingstörfum fyrir Framsóknarflokkinn í fjarveru Þórunnar síðasta vetur.