Drög að nýrri loftslagsáætlun Reykjavíkurborgar, sem gilda á frá 2021 til 2025, hafa verið lögð fram til kynningar. Í áætluninni eru þau markmið sem borgin setti sér í fyrri loftslagsáætlun sem gilti frá 2016 til 2020 endurskoðuð og aðgerðaáætlun, sem hefur það að markmiði að Reykjavíkurborg verði orðin kolefnishlutlaus árið 2040, uppfærð.
„Aðgerðaáætlunin 2021–2025 endurspeglar þá víðtæku nálgun og breidd verkefna sem þarf til að umbreyting eigi sér stað í átt að kolefnislausu samfélagi,“ segir í drögum að þessu stefnumótunarplaggi borgarinnar, sem umhverfis- og heilbrigðisráð tók fyrir á fundi 8. janúar.
Þrír borgarfulltrúar voru í stýrihópi um endurskoðun loftslagsstefnunnar, þær Líf Magneudóttir frá Vinstri grænum, Sigurborg Ósk Haraldsdóttir frá Pírötum og Vigdís Hauksdóttir frá Miðflokknum. Vigdís sat hjá við afgreiðslu draganna út úr stýrihópnum, samkvæmt því sem fram kemur í fundargerð.
Hugmyndir frá almenningi og grasrótarsamtökum
Fram kemur í skýrsludrögunum að í lok árs 2019 hafi verið óskað eftir hugmyndum frá almenningi og fagsamtökum um aðgerðir í loftslagsmálum og að yfir 200 hugmyndir hafi borist. Farið var yfir þessar hugmyndir og hægt var að draga átta áhersluatriði út úr þeim. Þau má sjá hér að neðan:
- Draga úr bílaumferð – hvatningakerfi / rafbíla deilihagkerfi.
- Betra skipulag á strætókerfinu, fleiri leiðir og vagna, frítt í strætó.
- Gera uppgræðslu að virku skólastarfi.
- Auka matarframboð í mötuneytum sem er laust við dýraafurðir.
- Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn gerður að nútímalegu og snjöllu fræðslu og vísindasetri.
- Setja skýrari reglur og samræma flokkunarkerfið á höfuðborgarsvæðinu.
- Hugmyndir hringrásarhagkerfis verði hluti af öllum útboðum í framkvæmdir borgarinnar.
- Tengja afslátt við gjöld nýbygginga ef vistvænar aðferðir eru notaðar, afsláttur veittur eftir lokaúttekt.
Samgöngur vega langþyngst í losun Reykjavíkurborgar
Eins og sést af listanum hér að ofan eru samgöngumál efst á blaði. Minni og vistvænari bílaumferð og betri almenningssamgöngur. Losun frá samgöngum er líka langstærsta hlutfallið af landfræðilegri losun gróðurhúsalofttegunda í Reykjavíkurborg, óhað því hvaða opinberu reiknireglum og aðferðafræði er beitt eins og fram kemur í skýrsludrögunum:
„Ef eingöngu er horft til einfalds kolefnisspors eru samgöngur 82% allrar losunar. Þegar fleiri þáttum er bætt í svæðisbundið kolefnisspor auk virðiskeðju er hlutfallið 64%. Þegar önnur áhrif eru tekin inn (Svæðisbundið kolefnisspor auk virðiskeðju og áhrif annarrar starfsemi innan borgarmarka) er hlutfallið 54% af allri losun,“ segir í drögunum.
Það eru því samgöngumálin sem eru lykillinn að því að borginni takist að minnka losun í takt við markmið sín um að vera orðin kolefnishlutlaus árið 2040 og helminga losun miðað við árið 2019 árið 2030.
„Til þess að draga úr losun frá vegasamgöngum þarf að fækka eknum kílómetrum og draga úr losun á hvern ekin kílómetra. Markmið Reykjavíkurborgar er að árið 2030 hafi hlutfall ferða sem farnar eru á bíl lækkað í 58% úr 73% sem það var samkvæmt ferðavenjukönnun árið 2017,“ segir í skýrsludrögunum.
Fækka bílastæðum og fletta upp malbiki
Þegar litið er yfir lista um þær aðgerðir sem að ráðast til að ná fram breytingum hvað varðar losun frá samgöngum kennir ýmissa grasa. Til þess að skapa gönguvæna borg er meðal annars lagt til að haldið verði áfram að þétta byggð, þannig að árið 2025 búi 90 prósent íbúa borgarinnar í grennd við þjónustu.
Einnig er lagt til að ráðist verði í að auka pláss fyrir gangandi. Til þess að gera það, segir í stefnudrögunum, er meðal annars lagt til að bílastæðum í borgarlandinu verði fækkað um 2 prósent á ári. Önnur aðgerð með sama markmið er sú að „fletta upp malbiki og draga úr umfangi akvega“ í Reykjavíkurborg, þannig að umfang akvega verði orðið 35 prósent af landnotkun árið 2025.
Í plaggi borgarinnar sem gefið var út í fyrir um það bil áratug í tengslum við aðalskipulagsvinnu AR2010-2030 kom fram að allt að 48 prósent af þéttbýli borgarinnar, að undanskildum stærri útivistarsvæðunum, færi undir samgöngumannvirki og helgunarsvæði þeirra, eða nærri helmingur alls borgarlandsins.
Áratugur aðgerða
Í skýrsludrögunum sem eru til kynningar núna í upphafi árs segir að komandi áratugur verði „mikilvægur prófsteinn á það hvernig okkur tekst til við að takast á við lofslagsvána“ og þurfi að vera áratugur aðgerða.
Drögin eru nú til kynningar og reikna má með að þau taki breytingum í ljósi athugasemda sem kunna að berast. Hægt er að koma umsögnum og ábendingum um drögin á framfæri við umhverfis- og skipulagssvið borgarinnar til 22. janúar.
Gagnrýni á drögin að þessari loftslagsáætlun hefur þegar komið fram, en í sameiginlegri bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokks og Miðflokks á fundi umhverfis- og heilbrigðisráðs sagði að „margt ágætt“ væri að finna í drögunum.
„Hins vegar er áhyggjuefni að fyrstu drög ganga gegn samgöngusáttmála sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu en þar er markmiðið skýrt: „Að stuðla að greiðum, skilvirkum, hagkvæmum og öruggum samgöngum á höfuðborgarsvæðinu með jafnri uppbyggingu innviða allra samgöngumáta“,“ sagði í bókun þeirra.