Hefur ekki áhyggjur af sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka

Forseti Alþingis neitar því að sporin hræði – og að sala Íslandsbanka sé sambærileg einkavæðingunni fyrir hrun. Lagaumhverfið sé gjörbreytt og aðstæður allt aðrar. Þó sé ekki óeðlilegt að velta upp spurningum og það eigi fólk einmitt að gera.

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis.
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis.
Auglýsing

„Ég geri engar athugasemdir við sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Í fyrsta lagi er það nú þannig að þessi banki kom óvænt í hendur ríkisins sem greiðsla í formi stöðugleikaframlags. Það var engin sérstök stefna að ríkið ætti að eignast Íslandsbanka og þar af leiðandi á það ekki að vera einhver sérstök stefna að ríkið eigi að eiga hann áfram.“

Þetta segir Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis og þingmaður Vinstri grænna, í samtali við Kjarnann þegar hann er spurður út í sölu ótilgreinds hluta í Íslandsbanka sem til stendur að selja í maí næstkomandi.

Segir hann að út frá sjónarhóli Vinstri grænna sé salan í anda stefnu flokksins. „Við höfum ályktað að ríkið eigi að eiga Landsbankann og er það stefna núverandi ríkisstjórnar. Það verður ekki hróflað við eignarhaldinu á Landsbankanum og það er eigendastefna ríkisins. Hún gerir ráð fyrir að Landsbankinn sé í eigu þjóðarinnar en að Íslandsbanki geti verið seldur,“ segir hann.

Auglýsing

Í öðru lagi sé „náttúrulega svo gjörbreytt lagaumhverfi frá því sem var á árunum fyrir hrun. Og þegar fyrsta einkavæðingin – með stórum staf – átti sér stað. Þá var einkavætt með hræðilegum aðferðum í mjög frumstæðu lagaumhverfi. Það dró nú heldur betur dilk á eftir sér,“ segir hann.

Hverfandi áhætta fyrir almenning í landinu

Steingrímur segir að nú sé búið að vinna mjög mikið umbótastarf á fjármálalöggjöfinni og að hverfandi áhætta sé í því í sjálfu sér fyrir almenning í landinu og fyrir viðskiptamenn bankana þó eignarhald sé einhvers staðar annars staðar en hjá ríkinu.

„Það er í fyrsta lagi búið að skilgreina mjög vel skyldur þeirra aðila sem eiga ráðandi hlut eða meira en 10 prósent. Þeir verða að undirgangast miklar skyldur sem slíkir. Það er í öðru lagi til staðar löggjöf um raunverulega eigendur fyrirtækja. Það er ekki lengur hægt að fela það í gegnum einhverja strámenn. Nú verður að vera hægt að rekja það til enda hver sé hinn eiginlegi og raunverulegi eigandi einhvers. Það kemur annars staðar inn í lög, eða í gegnum peningaþvættislöggjöfina.“

Þá vonast Steingrímur til þess að Alþingi setji lög á næstu mánuðum um aðskilnað viðskiptabanka og fjárfestingabankastarfsemi, það er að segja að þak verði sett á það hversu stór hluti umsvifanna í viðskiptabanka, banka sem tekur við innlánum frá almenningi, megi vera fjárfestingabankastarfsemi.

„Það kemur í veg fyrir að það geti gerst, sem var hér í gamla daga, að banki sem er skráður viðskiptabanki og tekur við innlánum verði að uppistöðu einhver áhættusækin fjárfestingastafsemi. Það er enn í lögum á Íslandi að innstæður eru forgangskröfur í banka. Ákvæði neyðarlaganna, að því leyti til, er ennþá í lögum á Íslandi. Ef banki fer niður þá eru innistæðurnar ekki bara tryggðar með einhverjum innistæðutryggingasjóði heldur eru þær forgangskröfur í búið. Þannig að það má segja að hagsmunir innistæðueigenda séu eins vel tryggðir og nokkur kostur er. Síðan erum við með háar eiginfjárkröfur á banka, sem ég tel vera gott, og er það lærdómur frá bankahruninu. Það er haft ríkulegt borð fyrir báru hvað varðar það að eigið fé verður að vera mikið miðað við hans umsvif.

Að síðustu þá segi ég nú bara að það kemur sér ágætlega fyrir ríkissjóð á þessum dögum ef við fáum 40, 50 til 60 milljarða í lausu fé til að ganga upp í hallarekstur ríkissjóðs og þurfum við þá ekki að taka þá peninga að láni innanlands eða erlendis. Þannig að ég tel að það sé ekki nein áhætta í því fólgin og ég sé ekki sterk rök fyrir þessu mikla eignarhaldi þar af leiðandi. Ég held að það sé enginn flokkur sérstaklega með það á stefnuskrá sinni að ríkið á Íslandi eigi að eiga eiginlega allt bankakerfið eða fjármálakerfið – það held ég ekki,“ segir hann.

Kemur í ljós hvort þetta sé rétti tíminn

Steingrímur segir jafnframt að málið snúist um það hvort þetta sé rétti tíminn til að selja eða ekki. „Ég segi að það muni koma í ljós. Það er væntanlega þannig að ef ekki fæst ásættanlegt verð þá verði ekki að sölunni. Menn hafa að sjálfsögðu ákveðnar viðmiðanir í þeim efnum; að ríkið fái gott verð ef það selur bankann eða í honum hlut á annað borð.

Nú held ég að það sé ekki slæmt ef slíkur banki er þá skráður hér og verði í Kauphöll. Þá sætir hann því aðhaldi og því eftirliti og þeirri upplýsingaskyldu sem í því er fólgin og svo framvegis. Þannig að ég sé ýmsa kosti við þetta líka: Að ríkið leysir til sín heilmikið laust fé sem þarna er bundið og mun þetta ekki hafa áhrif á afkomu ríkissjóðs af því að búið er að eignfæra hlutinn.“

Hann segir að því sé ekki að neita að ríkið þurfi að fjármagna gríðarlegan hallarekstur á næstunni og að í því felist ákveðið sjónarmið að það gæti verið ágætt að nota eign sem þessa í slíka fjármögnun.

„Það er svo margt líka að breytast í bankarekstri að ég er ekki viss um að það sé ekki endilega forsjálni af hálfu ríkisins að eiga allt of mikið þar. Að leyfa einkaaðilunum frekar í meira mæli en minna að kljást við það. En ég held að það sé gríðarlega mikilvægt í þessu sambandi að það liggi fyrir að ríkið muni áfram tryggja þá kjölfestu sem fólgin er í því að eiga stærsta bankann,“ segir hann.

„Svolítið rómantísk og góð hugmynd“

Steingrímur bendir á að sumir séu með ákveðnar hugmyndir er varða Landsbankann um að setja á einhvers konar samfélagsbankaform eða sjálfseignastofnunarform.

„Mér finnst það svolítið skemmtilegt, því á mannamáli þýðir það að menn ætla að breyta Landsbankanum í sparisjóð – sem er svolítið rómantísk og góð hugmynd. Ég var náttúrulega mjög mikill stuðningsmaður sparisjóðanna og ég sæi ekkert að því. Í raun er beint eignarhald þjóðarinnar í gegnum ríkið að mörgu leyti bara gott.

Það þarf bara að finna út úr því hvaða skyldur ríkið getur þá líka lagt á slíkan banka. Það getur alveg gert það í gegnum eignarhaldið upp að vissu marki en vissulega sem banki í samkeppnisumhverfi þá eru því takmörk sett. En segjum bara að ríkið sem eigandi hafi það skýrt að það vilji að þessi banki tryggi þjónustu og sé til staðar, til dæmis á landsbyggðinni sem er náttúrulega liggur næst Landsbankanum. Hann er með langútbreiddasta þjónustunetið og inn í hann gekk mikið af sparisjóðakerfinu. Þannig að ég lít nú svona á hann sem ákveðinn þjóðarbanka í þeim skilningi,“ segir hann.

Gjörólíku saman að jafna

Þegar Steingrímur er spurður út í það hvort sporin hræði vegna fyrri reynslu af bankasölu segir hann ákveðið að svo sé ekki. „Nei, það er bara misskilningur ef menn leggja þetta á nokkurn hátt að jöfnu við einkavæðinguna á sínum tíma. Það eru ósambærilegir hlutir. Hér er verið að selja hlut í banka í allt öðru, gjörbreyttu og miklu miklu betra og öruggara lagaumhverfi.

Síðan erum við með mjög öflugt sameinað Fjármálaeftirlit og Seðlabanka sem ég hef fulla trú á að geti sinnt sínu hlutverki vel í þeim efnum. Það vorum við ekki með á þeim tíma. Þá vorum við með eiginlega bara ónýtt fjármálaeftirlit, það var ekki neitt neitt og hafði ekki roð í bankana eftir að þeir fóru að stækka. Þetta er algjörlega gjörólíku saman að jafna.“

Steingrímur segist þannig ekki vera í þeim hópnum sem hefur áhyggjur. „Mér finnst allt í lagi að láta á þetta reyna hvort fáist ásættanlegt verð og á að sjálfsögðu ekki að selja neitt nema fáist gott verð. Ég útiloka alls ekki að það gerist.“

Væri ekki að tala með þessum hætti ef hann hefði áhyggjur

Varðandi tímasetningu sölunnar í COVID-19 faraldri þá telur Steingrímur að menn muni ekki að vera svo skammsýnir að láta það hafa áhrif. „Menn munu miklu frekar horfa á það hvort hagur hagkerfisins muni ekki fara að batna og landið fara að rísa, þannig að þetta sé kannski einmitt ágætur tími til að fjárfesta í slíku. Það vantar ef eitthvað er álitlega fjárfestingakosti á markaðinn.“

Hann minnist í þessu samhengi á útboð Icelandair í haust. „Þar fékkst gríðarlega góð þátttaka og af hverju skal það ekki verða aftur í Íslandsbankanum?“ spyr hann.

Steingrímur endurtekur það að hann hafi ekki áhyggjur af sölunni. „Ég get vonandi fullvissað menn um það að ég væri ekki að tala svona ef einhverjar áhyggjur væru til staðar. Ég ætla sko ekki að fara að leggja blessun mína yfir eitthvað þar sem ég hefði áhyggjur af að sagan gæti endurtekið sig.“

Telur hann jafnframt að þegar upp er staðið hafi einkavæðing bankanna á sínum tíma fengið rækilega rannsókn í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og í frekari rannsóknum á afmörkuðum þáttum. „Ég tel í aðalatriðum að þau kurl séu komin til grafar.“

Óeðlilegt ef menn veltu ekki upp spurningum

Steingrímur segist þó skilja mjög vel að sporin hræði. „Það væri mjög óeðlilegt ef menn veltu ekki upp spurningum og það eiga menn að gera. En þá þurfa menn að geta svarað þeim mjög vel með rökum sem ég tel að mjög auðvelt sé að gera ef menn kynna sér það hversu gjörbreytt umhverfi þetta er. Svo geta menn haft þá skoðun að þessi geiri eigi að uppistöðu til að vera í samfélagslegri eigu. Það er alveg sjónarmið sem ég ber virðingu fyrir en þá værum við auðvitað að skera okkur mjög úr hvað það varðar í löndunum í kringum okkur. Það er hvergi á byggðu bóli, allavega ekki hér í Evrópu, nein dæmi um svona umfangsmikið eignarhald ríkisins eins og hér er af tilteknum ástæðum.“

Steingrímur segist að lokum ekki leggja að jöfnu fjármálakerfið og mikilvægustu innviði landsins. „Þetta er ekki sambærilegt við hluti eins og Landsvirkjun eða Isavia – hvað þá heldur velferðarþjónustuna. Það þarf nú ekki einu sinni að ræða það að það á að halda gróðaöflunum þar utan veggjar. Menn eiga ekki að fá að sjúga arð út úr undirstöðustofnunum í velferðarsamfélaginu. Það er eitthvað sem særir í þeim efnum.“

Fréttin er hluti af stærra viðtali sem mun birtast síðar á Kjarnanum við Steingrím J. Sigfússon

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Steinar Frímannsson
Hver er stefna stjórnmálaflokkanna í umhverfismálum?
Kjarninn 16. september 2021
Halldóra Mogensen, þingflokksformaður Pírata, í forystusætinu á RÚV í gærkvöldi.
Boðuð útgjaldaaukning Pírata er ekki fullfjármögnuð
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Halldóru Mogensen um að kosningaloforð Pírata séu fullfjármögnuð með nýjum tekjuöflunarleiðum.
Kjarninn 16. september 2021
Jón Steindór Valdimarsson
Drifkraftur nýrra lausna í loftslagsmálum
Kjarninn 16. september 2021
Mikil skekkja er í útreikningum Pírata á helstu tekjuöflunarleiðinni sem flokkurinn sá fyrir að fjármagna kosningaloforð sín með.
Tugmilljarða skekkja í útreikningum Pírata á helstu tekjuöflunaraðgerð þeirra
Þingmaður Pírata segir að flokkurinn sé að endurskoða útreikninga sína á áhrifum 3,75 prósentustiga hækkunar efsta þreps tekjuskattskerfisins, eftir að bent var á að þar skeikaði tugmilljörðum.
Kjarninn 16. september 2021
Jóhann S. Bogason
Vesalings Færeyingarnir
Kjarninn 16. september 2021
Kolefnisgjald leggst meðal annars á bensín og dísil olíu.
Meirihluti stjórnmálaflokka vill hækka kolefnisgjald
Passa verður að kolefnisgjald leggist ekki þyngst á þau sem minnst hafa á milli handanna að mati þeirra flokka sem vilja hækka kolefnisgjald. Útblástur frá vegasamgöngum er helsta uppspretta losunar sem er á beinni ábyrgð Íslands.
Kjarninn 16. september 2021
Liðin tíð að Bandaríkin veiti Íslandi aðstoð „vegna góðvildar“
Íslendingar þurfa tromp á hendi til að vekja áhuga Bandaríkjanna til að styðja landið diplómatísk í alþjóðasamfélaginu og veita viðskiptalegar eða efnahagslegar ívilnanir, að því er fram kemur í þættinum Völundarhús utanríkismála Íslands.
Kjarninn 16. september 2021
Völunarhús utanríksmála Íslands
Völunarhús utanríksmála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands – Þáttur 3: Áhugi Bandaríkjanna á Íslandi
Kjarninn 16. september 2021
Meira úr sama flokkiInnlent