Gylfi Magnússon, fyrrverandi efnahags-og viðskiptaráðherra og prófessor við viðskiptafræðideild HÍ, leggur til að launþegum verði leyft að fjárfesta beint í verðbréfum fyrir viðbótarlífeyrissparnað sinn til að ná dreifðara eignarhaldi á hlutabréfamarkaðnum. Að hans mati er íslenski hlutabréfamarkaðurinn grunnur með þröngt og einsleitt eignarhald, en róttækar breytingar þyrftu til að ná almenningi aftur þangað.
Þetta kemur fram í grein Gylfa í nýjasta tölublaði Vísbendingar, sem birt var í morgun. Í greininni fer hann yfir eignarhald almennings á íslenskum hlutabréfamarkaði á síðustu áratugum, en samkvæmt honum var blómaskeið þess á tíunda áratugi síðustu aldar.
Þar segir Gylfi að Eyjólfur Konráð Jónsson, fyrrum alþingismaður og ritstjóri Morgunblaðsins, hafi átt mikinn þátt í að skapa öflug hlutafélög hér á landi með fjölmennan og dreifðan eignarhóp og virkan markað fyrir hlutabréf. Undir lok tíunda áratugarins hafi þátttaka almennings verið mikil, en þá voru nokkur hlutafélög hér á landi komin með tugi þúsunda hluthafa.
Kátir piltar á einkaþotum
Skömmu eftir aldamótin hafi hins vegar bæði skráðum hlutafélögum og hluthöfum fækkað nokkuð mikið: „Hugmyndin um almenningshlutafélög átti undir högg að sækja. Skuldsettar yfirtökur færðu eignarhaldið yfir til eignarhaldsfélaga undir stjórn kátra pilta sem ferðuðust um á einkaþotum,“ skrifaði Gylfi.
Hlutabréfamarkaðurinn hafi svo þurrkast út í kjölfar fjármálahrunsins árið 2008, en þótt að hann hafi risið upp að nýju með endurkomu margra félaga þá segir Gylfi að almenningur hafi ekki snúið aftur þangað. Að hans mati er ekki útlit fyrir að það gerist, nema að einhverjar róttækar breytingar eigi sér stað. Nú séu hluthafar flestra félaganna fáir, það er að segja um eða innan við eitt þúsund talsins, en ef frá eru talin Marel, Arion banki og Icelandair.
Almenningur hafi litla rödd í gegnum lífeyrissjóði
Gylfi bætir þó við að almenningur eigi töluvert í skráðum fyrirtækjum óbeint í gegnum lífeyrissjóði landsins. Aftur á móti segir hann almenning hafa litla rödd í stefnu fyrirtækjanna í gegnum slíkt eignarhald, þar sem lífeyrissjóðirnir vilja sjaldnast vera í leiðtogahlutverki hluthafahópsins.
Einnig séu hendur lífeyrissjóðanna oft bundnar þar sem þeir eiga oftar en ekki hlutdeild í tveimur eða fleiri fyrirtækjum sem starfa á sama markaði sem keppinautar. Þannig eiga lífeyrissjóðir samanlagt ríflega helming hlutafjár í bæði Símanum og Sýn, auk þess sem hlutfallið er svipað í öllum tryggingarfélögunum þremur og einnig i fasteignafélögunum. Gylfi segir slíkt sameiginlegt hafa verulega ókosti, m.a. frá sjónarhóli samkeppni.
Samkvæmt Gylfa eru engar töfralausnir til við þessu vandamáli, en hann leggur þó til að leyfa launþegum sem það vilja að fjárfesta sjálfir í hlutabréfum eða öðrum verðbréfum fyrir viðbótarlífeyrissparnað sinn og fara með atkvæðisréttinn. Einnig segir hann það vera hægt að beita skattkerfinu, t.d. veita skattívilnanir vegna fjárfestingar í hlutabréfum, líkt og gert var um nokkurra ára bil, en bætir þó við að því fylgi kostnaður sem e.t.v. væri erfitt að réttlæta.
Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu með því að smella hér.