Áður en ráðist er í uppbyggingu á sorpbrennslustöð eða -stöðvum þá er nauðsynlegt að skoða nánar innihald blandaðs úrgangs á öllu landinu, greiða úr upprunaskráningu úrgangs og skoða tækifæri til þess að nýta aukaafurðir sorpbrennsluofna á Íslandi. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu um þörf fyrir sorpbrennslustöðvar á Íslandi sem birt var á vef Stjórnarráðsins í síðustu viku.
Skýrslan nefnist Greining á þörf sorpbrennslustöðva á Íslandi og var unnin af ráðgjafafyrirtækinu ReSource International fyrir Umhverfisstofnun að beiðni umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.
Talið er að óendurvinnanlegur úrgangur hér á landi verði á bilinu 40 til 100 þúsund tonn á ári fram til ársins 2045, að því er fram kemur hjá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Í skýrslunni er fjallað um þrjár mögulegar útfærslur varðandi sorpbrennslu. Eina stóra sorpbrennslustöð á Suðvesturlandi sem hefði 90 til 100 þúsund tonna brennslugetu á ári, fimm minni sorpbrennslustöðvar sem dreifðar væru um landið og svo útflutning á sorpi til brennslu.
Skilgreining á óendurvinnanlegum úrgangi í skýrslunni er úrgangur sem endar í förgun en ekki í endurvinnslu eða endurnýtingu. „Hver þróun þessa úrgangs verður í magni til framtíðar er háð þeim árangri er næst í endurvinnslu og endurnýtingu á næstu áratugum. Fyrirséð er að ákveðinn hluti úrgangs verði alltaf óendurvinnanlegur og því þarf að leita lausna til meðhöndlunar á honum. Hluta af óendurvinnanlegum úrgangi er t.d. hægt að brenna til orkunýtingar.“
„Jákvætt að við séum að horfa til þess að takast á við þetta hér heima“
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, segir í samtali við Kjarnann að hann hafi beðið um að þessi skýrsla yrði unnin vegna þess að upplýsingar vantaði um þörfina á sorpbrennslustöð við þær aðstæður sem gert er ráð fyrir að verði í framtíðinni þegar Íslendingar verða farnir að endurvinna miklu meira – sem markmiðið sé.
„Skýrslan leiðir í ljós að þörf sé á brennslum, það sé ekki skynsamleg til lengri tíma að flytja þetta út til brennslu og færðar fyrir því þær ástæður að það sé ekki gott að flytja sorp til útlanda út af sótspori heldur líka sé ýmislegt sem bendi til þess að gjöld væru lögð á þetta úti þegar kemur að því að taka á móti sorpi frá öðrum löndum.
Ég held að það sé mjög jákvætt að við séum að horfa til þess að takast á við þetta hér heima. Þá er spurningin hversu stóra brennslustöð við þurfum fyrir þann úrgang sem líklegt er að þurfi að brenna eftir 20 ár, þegar við verðum búin að ná betri árangri í úrgangsmálum,“ segir ráðherrann.
Álitlegasta staðsetning á brennslustöð í eða nálægt höfuðborgarsvæðinu
Guðmundur Ingi segir að verkefnið núna sé að finna út úr því hvað sé skynsamlegast að gera í þessum málum. „Eigum við að vera með eina brennslustöð og þá hvar eða eigum við að vera með fleiri dreifðar út um landið? Þetta er vinna sem þarf að fara í gang núna og í samstarfi ríkis, sveitarfélaga og einkaaðila. Eftir sem áður erum við tiltölulega fá þannig að ég held að það sé mikilvægt að við náum utan um þetta fljótt og vel og að það verði teknar ákvarðanir með hvaða hætti sé best að gera þetta.“
Í skýrslunni kemur fram að kostir þess að vera með eina brennslustöð á landinu sé að rekstrarkostnaður sé lágur samanborið við margar litlar. Álitlegasta staðsetning á slíkum ofni sé í eða nálægt höfuðborgarsvæðinu þar sem uppspretta brennanlegs úrgangs sé sirka 73 prósent af heildinni yfir landinu öllu.
„Ofninn þyrfti að geta brennt um 11 til 13 tonn/klst ef miðað er við 8000 klst. gangtíma á ári. Kostir þess að brennslustöðvum yrði dreift um landið er að dregið yrði úr flutningi á úrgangi á milli landshluta og hægt væri hugsanlega að bæta orkuöryggi á ákveðnum stöðum á landinu. Orkunýting væri meiri á köldum svæðum þar sem nýta mætti orkuna til húshitunar. Þörf er á skilvirkari og nákvæmari gagnaöflun í flestum sveitarfélögum til þess að geta áætlað nákvæmari orkunýtingarmöguleika og stærð sérhvers brennsluofns,“ segir í skýrslunni.
Kostir þess að sorpbrennsla fari fram erlendis er, samkvæmt skýrslunni, að nettó heildarlosun gróðurhúsalofttegunda frá brennslu samanborið við urðun úrgangs er minni erlendis en á Íslandi. Það sé þó alfarið byggt á samanburði við orkuframleiðslu með kolum erlendis, en mörg lönd hafi sett sér það markmið að hætta notkun á kolum við orkuframleiðslu fyrir 2037. Kostnaður við útflutning á úrgangi geti verið mjög breytilegur en hann fari eftir olíuverði, gengi gjaldmiðla og svo framvegis og geti einnig hækkað töluvert á komandi árum í formi skatta á innfluttan úrgang.
Tímaramminn enn ekki ljós
Guðmundur Ingi segir enn fremur að gott sé að vera kominn með þessa úttekt. Nú sé hægt að stíga næstu skref en enginn tímarammi sé þó enn kominn í ljós. „Við eigum eftir að átta okkur betur á því hvernig það verður.“
Samkvæmt skýrsluhöfundum væri í kjölfarið á þessari greiningu vert að skoða þörf á gas- og jarðgerðarstöðvum, skólphreinsistöðvum og endurvinnslustöðvum á Íslandi og hvernig það hefði frekari áhrif á þörf fyrir sorpbrennslu.
Uppbygging sorpbrennslustöðva fæli í sér aukið aðgengi að þess konar úrgangsmeðhöndlunarúrræði og í því samhengi væri ákjósanlegt að sama aðgengi næðist einnig fyrir endurvinnslu úrgangsefna. „Jafnframt hefur aukin skólphreinsun í för með sér aukningu á brennanlegum úrgangsefnum og fleiri gas- og jarðgerðarstöðvar geta dregið úr magni blandaðs heimilisúrgangs og annarra brennanlegra úrgangsefna. Í kafla 10.4 er rætt um brennslu úrgangs erlendis og því samhliða er nauðsynlegt að ræða hvort öruggt sé að endurvinnslustöðvar erlendis haldi áfram að taka á móti endurvinnsluefnum frá Íslandi.“