Minni takmarkanir á komu ferðamanna hingað til lands, með ásættanlegri áhættu með tilliti til sóttvarna, er forsenda þess að umtalsverður efnahagsbati geti hafist á þessu ári. Slíkar aðgerðir gætu falið í sér að tvöfaldri skimun fyrir COVID-19 verði hliðrað fyrir ferðamenn þannig að fyrri skimun eigi sér stað í heimalandi þeirra, en sú aðgerð gæti aukið hagvöxt um sex prósentustig og minnkað atvinnuleysi um 1,5 prósentustig.
Þetta eru meðal niðurstaðna úr lokaskýrslu starfshóps fjármálaráðuneytisins um efnahagsleg áhrif sóttvarnaraðgerða hérlendis. Skýrslan var birt í dag, en samkvæmt henni hafa áhrif faraldursins á innlend efnahagsumsvif verið minni hér á landi en víða annarsstaðar, þökk sé árangursríkum og vel tímasettum sóttvarnaraðgerðum.
Hins vegar telur starfshópurinn að mikilvægt sé að auðvelda ferðamönnum að koma hingað til lands eins mikið og unnt er á meðan á faraldrinum stendur. Í viðauka skýrslunnar stendur að slíkar breytingar séu forsenda þess að umtalsverður efnahagsbati geti hafist á þessu ári, að því gefnu að víðtækt ónæmi gegn veirunni byrji ekki að myndast á fyrstu mánuðum ársins.
Í skýrslunni er vikið að þremur tillögum um breytt fyrirkomulag á landamærunum. Tvær þeirra komu frá Icelandair og Samtökum atvinnulífsins, en ein þeirra var unnin í samtali starfshópsins við Thor Aspelund prófessor í líftölfræði við Háskóla Íslands.
Tillögurnar eru eftirfarandi:
- Að tvöfaldri skimun verði hliðrað fyrir ferðamenn þannig að fyrri skimun eigi sér stað í heimalandi ferðamannsins en seinni skimun eigi sér stað við komu á landamærum Íslands.
- Að ferðamenn fái að fara í svokallaða ferðamannasmitgát í stað sóttkvíar á milli fyrri og seinni skimunar. Þar verði ferðamenn frjálsir ferða sinna um landið en þurfi þó að fara sérstaklega varlega, rétt eins og heimkomusmitgát var í sumar.
- Að báðar ofangreindar tillögur taki gildi, svo að landamæraskimun væri tæknilega séð þreföld, en að ferðamenn sæti smitgát milli annarrar og þriðju skimunar.
Samkvæmt starfshópnum myndi fyrsta tillagan leiða til þess að 700 þúsund fleiri erlendir ferðamenn kæmu til landsins á árinu og að vöxtur útflutnings væri nær fimmtungi meiri en annars. Hagvöxtur myndi þá einnig aukast um sex prósentustig og atvinnuleysi yrði 1,5 prósentustigum minna. Væntur fjöldi ferðamanna er minni í hinum tillögunum og eru jákvæð áhrif þeirra á þjóðhagsstærðir því minni, en enn umtalsverð.
Í lokaorðum viðaukans segir starfshópurinn að það sé mikilvægt að freista þess að finna lausn varðandi fyrirkomulag aðgerða við landamæri Íslands sem gagnast ferðaþjónustunni betur en núverandi fyrirkomulag og getur varað þar til farsóttin er ekki lengur ógn við lýðheilsu. Talsverðir efnahagslegir hagsmunir séu í húfi en mikilvægt sé að vanda til verka varðandi áhættumat og útfærslu.