Vikan sem er að klárast hefur verið viðburðarík í evrópskum stjórnmálum. Skandalar og stjórnarslit, dómsmál og valdaskipti. Kjarninn tók saman nokkra mola um það sem átti sér stað á stjórnmálasviðinu í álfunni – og ekki tengdist COVID – í þessari viku.
Áframhald „Merkelisma“ í Þýskalandi?
Í dag var Armin Laschet kjörinn nýr leiðtogi Kristilegra demókrata (CDU) í Þýskalandi í stað Annegret Kramp-Karrenbauer, sem tók við leiðtogahlutverki flokksins af Angelu Merkel Þýskalandskanslara fyrir röskum tveimur árum. Af 1.001 fulltrúa á flokksþinginu sem öllu ræður studdu 521 Laschet til forystu.
Ekki er þó öruggt að Laschet auðnist að verða útnefndur kanslaraefni flokksins áður er Þjóðverjar ganga til kosninga í haust, en sú ákvörðun verður tekin af flokknum á vordögum. Fleiri gætu blandað sér í þá baráttu, en CDU hefur yfirburðastöðu í skoðanakönnunum og teljast má líklegt að næsti kanslari komi úr röðum flokksins.
Laschet, sem er dyggur stuðningsmaður Merkel, sagði í kosningabaráttu sinni fyrir leiðtogakjörið að stefnubreyting í flokksforystunni myndi „senda alröng skilaboð“. Flestir telja að hann boði áframhald „Merkelisma“ innan Kristilegra demókrata og hann dró engan dul á það sjálfur í viðtali við Politico sem birtist í september.
Það styttist í brotthvarf Merkel af stjórnmálasviðinu, en hún hefur verið alltumlykjandi í evrópskum stjórnmálum frá því að hún varð kanslari fyrir 16 árum síðan. Ljóst er að hvort sem Laschet eða einhver annar verður kanslaraefni CDU verður skarðið sem þarf að fylla stórt.
Stjórnarkreppa á Ítalíu
Það er sjaldnast lognmolla yfir stjórnmálum á Ítalíu. Þar hafa heilar sextíu og sex ríkisstjórnir setið frá því að lýðveldið var stofnað árið 1948. Í vikunni varð enn á ný stjórnarkreppa þegar Matteo Renzi, fyrrverandi forsætisráðherra, sagði flokk sinn frá ríkisstjórnarsamstarfi undir forsæti Giuseppe Conte.
Flokkur Renzi, Italia Viva, hafði verið minnsti flokkurinn í samstarfi við Fimmstjörnuhreyfingu Matteos Salvini og Lýðræðisflokk Conte og hefur verið að mælast með 2-3 prósent atkvæða í skoðanakönnunum upp á síðkastið.
Ástæðan fyrir því að flokkurinn hætti í samstarfinu var óánægja með efnahagsáætlunina sem teiknuð hefur verið upp til þess að takast á við áhrif heimsfaraldursins. Óljóst er enn hvernig þeir flokkar sem eftir standa í ríkisstjórnarsamstarfinu ætla að leysa úr stöðunni.
Barnabótaskandall fellir hollensku stjórnina
Mark Rutte forsætisráðherra Hollands hjólaði á fund konungs á föstudag og baðst lausnar fyrir ríkisstjórn sína. Ástæðan er barnabótaskandall, en opinber skýrsla sem birt var í desember sýndi fram á að skattayfirvöld höfðu gengið rangt fram gagnvart tugþúsundum foreldra á 2013 til 2019, sakað þá um svik og krafist endurgreiðslna.
Málið er þó eilítið undarlegt, þar sem skandallinn er að mestu talinn á ábyrgð annarra en þeirra sem nú sitja í ríkisstjórn. Einn ráðherra sagði af sér þegar blaðamenn komu upp um málið árið 2019.
Afleiðingarnar af þessu máli hafa verið grafalvarlegar fyrir þúsundir fjölskyldna, sem jafnvel voru krafðar um að endurgreiða tugi þúsunda evra til skattsins. Líf þeirra voru lögð í rúst með ranglæti af hálfu yfirvalda.
Lodewijk Asscher, leiðtogi hollenska Verkamannaflokksins og félagsmálaráðherra í fyrri ríkisstjórn, sagði af sér flokksformennsku á fimmtudag þar sem hann vildi ekki að umræður um hans ábyrgð á þessu máli sköðuðu flokkinn í komandi kosningabaráttu.
Kosningar í Hollandi fara fram eftir tvo mánuði. Mark Rutte mun fara fram á ný sem leiðtogi flokks síns, sem spáð er sigri í kosningunum og fleiri þingmönnum en þegar síðast var kosið árið 2017. Fjögurra flokka ríkisstjórn hans mun sitja til bráðabirgða fram að kosningum.
Sænskir jafnaðarmenn ekki stærstir
Það heyrir nánast til tíðinda þegar Sósíaldemókrataflokkurinn í Svíþjóð er ekki sá flokkur sem mælist með mest fylgi í skoðanakönnunum.
Það gerðist í vikunni – en þá birti Aftonbladet könnun frá könnunarfyrirtækinu Demoskop sem leiddi í ljós að mið-hægri flokkurinn Moderatarna væri með mest fylgi kjósenda, eða 23,2 prósent á móti 23 prósentum Sósíaldemókrata.
Þó að allt sé þetta innan skekkjumarka þykir þetta ekki góð byrjun á árinu fyrir Stefan Löfven og aðra jafnaðarmenn, sem hafa átt í vök að verjast að undanförnu vegna viðbragða Svía vegna kórónuveirufaraldursins.
Kona fyrrverandi ráðherra dæmd fyrir að ógna lýðræðinu
Laila Anita Bertheussen, sambýliskona Tor Mikkel Wara fyrrverandi dómsmálaráðherra Noregs, var í gær dæmd í 20 mánaða fangelsi fyrir að ógna lýðræðinu með því að sviðsetja árásir á eigið heimili.
Norskir saksóknarar telja sig fullvissa um að Berthuessen hafi sjálf staðið að því að kveikja í eigin bíl og vinna skemmdarverk á húsi þeirra Wara. Meðal annars var hakakross spreyjaður á húsið. Dómari í Ósló tók undir þetta og dæmdi Berthuessen í fangelsi, sem áður segir.
Wara sagði af sér embætti dómsmálaráðherra þegar ljóst varð að lögregla væri að rannsaka þátt konu hans í skemmdarverkunum árið 2019. Hann bar vitni við réttarhöldin og sagðist telja konu sína saklausa. Það sama sagði hún sjálf og hefur þegar áfrýjað niðurstöðunni.
Áður en gefið var út að Berthuessen væri til rannsóknar hafði Wara sagt skemmdarverkin og bílbrunann árás gegn lýðræðinu. Hann hafði verið umdeildur fyrir störf sín, ekki síst hvað varðar málefni innflytjenda.
Saksóknarar töldu að Berthuessen hefði með framferði sínu reynt að skapa samúð í garð Wara, en Berthuessen hélt því fram að hún teldi hóp fólks sem berst gegn rasisma hafa framið skemmdarverkin.