„Það er orðin dálítið sérkennileg staða þegar Samfylkingin er komin til vinstri við VG og virðist einnig vera búin að missa umboðið fyrir ESB á Íslandi til Viðreisnar,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins, er hann og Logi Einarsson formaður Samfylkingar ræddu saman í dag, sem gestir í þjóðmálaþættinum Sprengisandi á Bylgjunni.
Þangað voru þeir fengnir til þess að ræða mögulegar ríkisstjórnarmyndanir eftir kosningarnar sem eiga að fara fram í lok september. Sem kunnugt er hefur formaður Samfylkingar útilokað samstarf við bæði Miðflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn að loknum kosningum. „Minn valkostur er græn félagshyggjustjórn,“ sagði Logi í þættinum.
Sigmundur Davíð tók í kjölfarið undir það með Kristjáni Kristjánssyni þáttarstjórnanda að rétt væri að íslenskir kjósendur hefðu lengi kallað eftir því að fá skýrari sýn á það hvaða flokkar gætu hugsað sér að vinna saman eftir kosningar.
Miðflokkur ekki „útilokunarflokkur“
Hann vildi þó sjálfur ekki útiloka samstarf með neinum flokki, né segja hvaða flokkum Miðflokkur hans vildi helst starfa með í ríkisstjórn eftir kosningar, þrátt fyrir að vera þráspurður.
„Ef fólk styður okkur, Miðflokkinn, þá getur það treyst því að við víkjum ekki frá þeim grundvallarloforðum sem við gefum í kosningum,“ sagði Sigmundur Davíð og nefndi meðal annars að flokkurinn myndi hvergi hvika frá áherslum sínum á fullveldismál.
Þeir Logi tókust á um hvort það væri æskilegt að flokkar gæfu upp fyrir kosningar með hverjum þeir hefðu hug á að starfa í mögulegum ríkisstjórnum.
„Við erum ekki útilokunarflokkur,“ sagði Sigmundur Davíð. Þegar þeir Logi höfðu rætt málin um nokkra stund og tekist á um mismunandi áherslur flokkanna í hinum ýmsu stefnumálum samsinnti Sigmundur Davíð formanni Samfylkingar þó þegar sá síðarnefndi sagði að það væri „býsna langsótt hugmynd“ að þeir tveir myndu sitja saman við ríkisstjórnarborð.
Logi sagðist bera fulla virðingu fyrir því að aðrir flokkar vildu fyrir fram ekki útiloka möguleikann á samstarfi með öðrum flokkum, en hann sagðist á sama tíma telja það heiðarlegt að segja við kjósendur að þeir sem settu X við Samfylkinguna væru ekki að setja X við hægristjórn.
Hugnast ekki að kosningablokkir teiknist upp eins og á Norðurlöndunum
Fram kom í máli Sigmundar Davíðs að ef farið yrði í einhverskonar „blokkamyndun“ eins og við hefðum séð á Norðurlöndum, þar sem flokkarnir til hægri og vinstri mynda rauðar og bláar blokkir sem í reynd eru sem kosningabandalög, værum við „farin í tveggja flokka kerfi,“ sem hann teldi ekki æskilegt.
Logi neitaði því alfarið að þetta væri einhver spurning um að tveggja flokka kerfi myndi teiknast upp og benti á að flokkarnir á Alþingi væru alls átta talsins. Hann sagðist hins vegar telja að á þessum tímapunkti þyrfti samhenta ríkisstjórn sem væri í grundvallaratriðum sammála um helstu málefni og þyrfti ekki að gera miklar málamiðlanir, sem síðan leiddu til kyrrstöðu.
Sigmundur Davíð tók að nokkru leyti undir þetta, en hann lagði þó frekar áherslu á að ríkisstjórninni væri í reynd stjórnað af „kerfinu.“ Áður hefur hann sagt að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hafi verið stofnuð um ráðherrastóla og útdeilingu gæða, en síðan fari embættismenn með völdin.
Spurði um „Reykjavíkurstjórn í landsmálunum“ sem utanríkisráðherra óttast
Sigmundur Davíð spurði Loga að því hvort hann vildi mynda „Reykjavíkurstjórn í landsmálunum.“ Logi sagði á móti að hann vildi koma að myndun ríkisstjórnar frá miðju og til vinstri, en þar væri nóg af flokkum sem starfað gætu saman. Sigmundur Davíð mætti kalla það hvað sem hann vildi.
Reykjavíkurstjórn í landsmálunum hefur verið verið til umræðu víðar í fjölmiðlum þessa helgina.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra sagði í ítarlegu viðtali við Sunnudagsblað Morgunblaðsins að „hættan“ væri sú að eftir kosningar kæmi ríkisstjórn „svipað samsett og borgarstjórnarmeirihlutinn í Reykjavík“ og talaði um það í samhengi við fjárhagsstöðu Reykjavíkurborgar.
„Það væri skelfilegt ef sömu sömu sjónarmið fengju að ráða í landsstjórninni,“ er haft eftir utanríkisráðherra í Morgunblaðinu.