„Það er margt í gangi núna og mál málanna þessa stundina er kannski fyrirhuguð sala ríkisstjórnarinnar á hlut í Íslandsbanka af ótilgreindri stærð og þetta hefur skiljanlega valdið töluverðum áhyggjum í samfélaginu enda virðist engin eftirspurn vera eftir þessari aðgerð – nema mögulega hjá þeim sem að munu kannski mest græða á henni.“
Þetta sagði Smári McCarthy, þingmaður Pírata, í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag en hann spurði Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra hvaða forsendur lægju að baki fyrirætlaðri sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Hann spurði jafnframt hvort einhver skilyrði væru sett fyrir henni og hvenær ríkisstjórnin hefði hugsað sér að gera skilyrðin og forsendurnar opinberar.
„Það er margt óljós með þessar fyrirætlanir og margir spyrja sig hvers vegna liggi svona mikið á. Hinn naumi tímarammi sem ætlaður er þinginu til að fara yfir þetta er enn eitt dæmið um heimatilbúna tímapressu. Eðlilegt verklag við að framkvæma svona stóra óafturkræfa aðgerð er að byrja á því að setja sér forsendur fyrir því hvaða skilyrði þarf að uppfylla til þess að aðgerðin teljist líkleg til þess að heppnast og skilgreina hvað nákvæmlega felst í því að árangur hafi náðst og fara síðan ekki af stað fyrr en þær forsendur séu uppfylltar,“ sagði hann.
Smári sagði enn fremur að einu forsendurnar sem ríkisstjórnin virtist hafa lagt fram væru að þetta væri í stjórnarsáttmála og því lægi nú á að gera þetta fyrir kosningar. „Engin skilyrði hafa komið fram um ásættanlegan kostnað og ávinning, efnahagsforsendur, stöðugleikaskilyrði, skilyrði um kaupendur, skilyrði um verð og svo framvegis, en ef slík skilyrði hefðu komið fram þá gæti þingið að minnsta kosti lagt mat á það hvort að þau skilyrði séu góð og hvort að þau séu uppfyllt.
En séu engin önnur skilyrði til staðar er það til marks um að allar áhyggjur fólks af enn einu einkavæðingaferlinu séu réttmætar. Hvorki ég né Píratar almennt erum í grunninn á móti því að þessi hluti Íslandsbanka sé seldur en fyrir okkur er lykilatriði að það sé gert á réttum og faglegum forsendum og í gegnsæju ferli. Það er ekki nóg að kalla ferlið gegnsætt til þess að það sé það, það verður raunverulega að birta gögnin. Þetta lítur út fyrir að vera eins ógegnsætt og ófaglegt og hægt er að ímynda sér,“ sagði Smári.
Einmitt verið töluverð umræða um fjármálakerfið
Katrín svaraði og sagði að þetta tiltekna mál hefði verið til umræðu snemma árs 2020. „Þegar þetta var til umræðu á vettvangi ráðherranefndar um efnahagsmál; að ráðast í sölu á hlut í Íslandsbanka. Og þá kom nákvæmlega sami málflutningur fram, það er að segja að þetta væri bara akkúrat röng tímasetning en þó enginn á móti því að selja hlut í bankanum, eða kannski ekki enginn. Flestir meðmæltir því að selja hlut í bankanum en að það væri bara ekki rétta tímasetningin.“
Hún sagði jafnframt að henni fyndist hún heyra þetta enduróma aftur að enginn eða fæstir væru á móti því að selja hlut í bankanum, eða bara ekki á þessum tíma. „Ég get ekki fallist á það sem háttvirtur þingmaður segir að þetta komi í kjölfar þessarar einu línu í stjórnarsáttmála. Ég ætla að leyfa mér að rifja hér upp að hér var unnin hvítbók um fjármálakerfið. Hún fékk töluverða umræðu í þingsal. Í henni voru margir mjög mikilvægir punktar, aðrir umdeildir og gagnrýndir en engu að síður er ekki hægt að segja að hér hafi ekki farið fram töluverð umræða um framtíð fjármálakerfisins. Við erum búin að sjá, og það þekkir háttvirtur þingmaður jafnvel og ég hafandi setið í efnahag- og viðskiptanefnd allavega á einhverjum tímapunktum þá erum við auðvitað á undanförnum árum búin að ráðast í gagngerar breytingar á umgjörð fjármálakerfisins á Íslandi. Breytingar sem koma fram í mjög ítarlegri skýrslu sem ég skilaði í kjölfar beiðni háttvirts þingmanns Björns Levís Gunnarssonar sem hafa gert það að verkum að þetta kerfi er allt annað kerfi en það var til að mynda þegar þessi mál voru hér til umræðu snemma á þessari öld.“
Eitt af því sem þarna skipti máli væri það frumvarp sem væri til umræðu á þinginu um varnarlínu um fjárfestingar en gat Katrín ekki fallist á það að þær forsendur sem háttvirtur þingmaður gæfi sér í fyrirspurninni að þetta væri tillaga sem dytti af himnum ofan og að í þinginu hefði engin umræða farið fram.
„Hér hefur einmitt verið töluverð umræða um fjármálakerfið, eigendastefna ríkisins hefur verið endurskoðuð, eins og háttvirtur þingmaður þekkir líka og þar liggja þessi áform öll fyrir. Þannig að ég kannast bara hreinlega ekki við þetta ógagnsæi sem háttvirtur þingmaður vitnar hér til,“ sagði Katrín.
Ríkisstjórnin láti eins og hvítbókin sé hlutlaust fræðirit sem feli í sér svör við öllum leyndardómum alheimsins
Smári kom aftur í pontu og sagði að hann hefði ekki nefnt tímasetningu. „Ég nefndi forsendur og skilyrði. Þær forsendur og þau skilyrði liggja ekki fyrir, ég skil ekki hvernig stendur á því. Ríkisstjórnin lætur eins og hvítbókin sé hlutlaust fræðirit sem feli í sér svör við öllum leyndardómum alheimsins frekar en að vera niðurstaða ákveðins pólitísks stefnumótunarferlis þar sem niðurstaðan var að vissu leyti og að miklu leyti gefin sem frumforsenda vinnunnar.
En ég spyr bara aftur: Hvers vegna er ekki hægt að búa til einfaldan tékklista fyrir svona aðgerðum og ráðast svo í framkvæmdina þá og því aðeins ef skilyrðin eru uppfyllt? Hvers vegna ekki? Hvers vegna þarf líka þennan asa að klára fyrir kosningar frekar en að sammælast um þverpólitískan tímaramma yfir lengri tíma eins og hefur verið gert til dæmis í Noregi? Hvers vegna vill ríkisstjórnin koma þessum eignarhlut á markað, í verð, korteri fyrir kosningar og það í miðri mestu efnahagslægð síðari tíma?“ spurði hann.
Mjög gagnsætt ferli
Katrín svaraði í annað sinn og sagði að henni heyrðist þingmaðurinn „einmitt vera að tala um tímasetningar og ég hef heyrt hann nefna þær áður, þó ekki nákvæmlega hér í fyrri fyrirspurn sinni. Um þessi mál gilda algjörlega skýr lög. Mjög gagnsæ og skýr lög sem ég tók þátt í að setja í ríkisstjórn Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs og Samfylkingarinnar sem gilda um sölu, meðferð eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum og frumvarp til þeirra laga var lagt fram hér af háttvirtum þingmanni Oddnýju Harðardóttur sem þá var fjármála- og efnahagsráðherra.
Og þar með var stofnuð Bankasýsla ríkisins sem fer með þennan eignarhlut ríkisins og þarf enginn neitt að velkjast í vafa um hvernig þetta fer því hún hefur lagt fram mjög skýra tillögu um það hvernig hún sér fyrir sér að þetta söluferli fari. Núna, eins og ég kom að hér áðan, er eingöngu verið að taka ákvörðun um að hefja söluferli. Það er ekki ákvörðun um endanlega sölu. Það ferli snýst um að kanna virði bankans á markaði og hvort að tíminn sé þá heppilegur núna til að selja þennan hlut sem hefur verið miðast við fjórðungshlut.
Það sem kemur fram í gögnum Bankasýslunnar er það að það eru mjög margir þættir sem hafa áhrif á það hver endanleg niðurstaða verður og hvort að aðstæður eru metnar hagfelldar til að selja þennan hlut. Þættir sem við getum ekki sagt fyrirfram hverjir verða nákvæmlega og um það snýst sú vinna sem nú stendur yfir í þinginu. Ég hefði talað um að þetta væri algjörlega ljóst fyrir og væri raunar mjög gagnsætt og hvernig það er skilgreint í lögunum frá 2012,“ sagði hún.