Þegar ljóst varð 6. janúar að tveir demókratar hefðu verið kjörnir sem fulltrúar Georgíuríkis í öldungadeild Bandaríkjaþings beindist athygli strax að manni sem heitir Joe Manchin og situr fyrir sama flokk í öldungadeildinni, sem fulltrúi Vestur-Virginíu.
Þegar úrslit lágu fyrir byrjaði nafn þingmannsins að „trenda“ á Twitter og honum lýst í fjölmiðlum sem einum sigurvegara aukakosninganna í Georgíu, þrátt fyrir að þar hefði hann ekki tekið neinn þátt. Ástæðan er sú að hann er almennt talinn íhaldssamasti öldungadeildarþingmaður Demókrataflokksins, sem hefur nú nauma stjórn í öldungadeildinni.
Í fréttaskýringu Vox frá 6. janúar segir að núna á næstu dögum, þegar Joe Biden tekur við lyklunum að Hvíta húsinu og atkvæðavægið í öldungadeildinni færist demókrötum í vil, muni fyrsta nafnið á vörum fréttamanna verða Joe Manchin, þegar umdeild mál koma fyrir þingið.
„Hvað finnst Joe Manchin um þetta?“ munu fréttamenn hugsa, enda ljóst að áherslur Manchin og frjálslyndari arms Demókrataflokksins ganga ekki alltaf hönd í hönd og hann hefur starfað töluvert „yfir ganginn“ með kollegum sínum úr röðum repúblikana síðan hann settist í öldungadeildina árið 2010.
Frá því að úrslitin í Georgíuríki urðu ljós hefur brandari gengið um á Twitter um að Vestur-Virginía muni njóta góðs af því vogarafli sem þingmaðurinn mun hafa í öldungadeildinni. Taki í raun stakkaskiptum og verði mjög framtíðarleg í hvívetna, eins og sjá má:
West Virginia after we're done bribing Joe Manchin pic.twitter.com/91PAyNheZG
— James Medlock (@jdcmedlock) January 6, 2021
Demókrati sem er fulltrúi stuðningsmanna Trumps
Að öllu gamni slepptu er Joe Manchin er gott dæmi um margbreytileikann sem finna má í því tveggja flokka kerfi sem Bandaríkjamenn búa við. Að vera frambjóðandi demókrata í Vestur-Virginíu, þar sem 68,2 prósent atkvæða féllu Donald Trump í vil í byrjun nóvember, er hreinlega ekki alveg það sama og að vera demókrati í ríkjunum sem kusu Biden. Einungis í Wyoming-ríki hlaut Trump hærra hlutfall atkvæða en í Vestur-Virginíu.
Þrátt fyrir að Repúblikanaflokkurinn hafi átt góðu gengi að fagna í Vestur-Virgínu undanfarin ár og áratugi hefur Manchin náð að halda embætti sínu allt frá 2010, en áður en hann varð þingmaður hafði hann verið ríkisstjóri frá árinu 2005, sem fulltrúi Demókrataflokksins.
Byssur, þungunarrof og kol
Manchin er ósammála ýmsu sem Demókrataflokkurinn hefur gert að áhersluatriðum á landsvísu í forsetatíð Trumps. Til dæmis hefur hann stutt hann byggingu veggsins á landamærunum við Mexíkó og lagst alfarið gegn ákalli sumra demókrata um að draga úr fjárframlögum til lögreglunnar.
Nýlega lýsti hann því yfir að honum þætti algjör þvæla að greiða út 2.000 dollara til allra Bandaríkjamanna í stuðnings- og örvunargreiðslur vegna áhrifa heimsfaraldursins.
„Ég veit ekki hvaðan í fjáranum þessir 2.000 dollarar munu koma. Ég sver til Guðs að ég veit það ekki. Það eru 400 milljarðar dollara til viðbótar,“ hafði Washington Post eftir Manchin um daginn.
Kolavinnsla og -nýting er honum líka mikið hjartans mál enda mikilvægur atvinnuvegur í heimaríkinu Vestur-Virginíu. Það stemmir illa við þær grænu áherslur sem Biden boðaði í kosningabaráttunni og hyggst hrinda í framkvæmd.
Í félagslegum málefnum er hann líka langan veg frá áherslum frjálslyndari demókrata; hann er á móti hjónaböndum hinsegin fólks, hefur beitt sér gegn réttindum kvenna til þungunarrofs og vill verja stjórnarskrárbundinn rétt Bandaríkjamanna til þess að ganga með skotvopn. Andstöðu við þessi mál setur hann á oddinn, þegar hann sækir umboð kjósenda í Vestur-Virgínu.
Talið er öruggt að Manchin muni sjá til þess að Biden komi dómara- og embættismannaskipunum sínum og fjárhagsáætlunum í gegn með 48 atkvæðum demókrata og þeirra tveggja óháðu þingmanna sem kjósa með demókrötum í öldungadeildinni. Hvað einhverjar róttækar kerfisbreytingar varðar er hins vegar ólíklegt að Biden fái stuðning Manchin.
Vestur-Virginíumaðurinn hefur til dæmis lýst þeirri afstöðu sinni að hann komi ekki til með að styðja lagasetningu sem miðar að því að einfaldur meirihluti dugi til þess að koma flestri almennri lagasetningu í gegnum öldungadeildina. Í dag þarf almennt 60 atkvæði til þess að mál hljóti þar brautargengi, sem tryggir minnihlutanum mikið vægi, ólíkt því sem er í fulltrúadeildinni.
Manchin gæti því orðið Biden-stjórninni eilítið erfiður og eflaust mun þurfa að leita verulegra málamiðlana við hann og aðra íhaldssamari þingmenn Demókrataflokksins í öldungadeildinni, til þess að koma málum í gegn.