„Nú stefnir í að fleiri hundruð falli af bótum á þessu ári. Það fólk verður þá að segja sig til sveitar, leita í framfærslu sveitarfélaga. Bara í Reykjanesbæ munu það að öllu óbreyttu verða um 200 manns á árinu sem nú er að hefjast. Þetta eru hrikalegar tölur og bak við þær standa manneskjur, 1.000 borgarar í þessu landi. Áhyggjur af afkomu og fátækt, fólk sér fram á að stefna í fátæktargildru með börnin sín. Við í Flokki fólksins viljum að öllum tiltækum ráðum verði beitt til að bjarga þessu fólki meðan við erum að komast út úr COVID-19 kófinu.“
Þetta sagði Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag en hann spurði Ásmund Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra hvort ríkisstjórnin og ráðuneyti hans hygðist skoða þann möguleika að lengja tímabil atvinnuleysisbóta úr 30 mánuðum þannig að einhver von væri fyrir þetta fólk að lenda ekki í sárafátækt.
„Nú á föstudaginn birti Vinnumálastofnun tölur um atvinnuleysi í desembermánuði síðastliðnum. Þær tölur eru því miður dapurlegar. Almennt atvinnuleysi jókst lítillega á landsvísu, er 10,7 prósent en var 10,6 prósent í nóvember. Þannig var 21.000 manns án atvinnu í lok ársins. Rúmlega 5.000 einstaklingar voru svo á hlutabótum. Ef við tökum þennan hóp með er heildaratvinnuleysi 12,1 prósent. Samtals eru þannig yfir 26.400 manns alveg án atvinnu eða að hluta. Ríflega 4.000 manns hafa verið án vinnu í meira en eitt ár og 6.600 án vinnu í 6 til 12 mánuði. Samtals hafa því tæplega 11.000 verið án vinnu lengur en hálft ár. Sambærileg tala í desember 2019 var 3.800. Þannig glíma nærri þrisvar sinnum fleiri við langtímaatvinnuleysi nú en 2019. Atvinnuleysi er mest á Suðurnesjum, yfir 26 prósent meðal kvenna og rúmlega 21 prósent meðal karla. Það er næstmest á höfuðborgarsvæðinu, karlar í meiri hluta, 12 prósent, og konur 11,5 prósent,“ sagði þingmaðurinn.
Ekki liggur fyrir ákvörðun um framlengingu að svo stöddu
Ásmundur Einar svaraði og sagði að ríkisstjórnin hefði ráðist í margvíslegar aðgerðir. „Nú fyrir jólin var meðal annars ráðist í hækkun bóta og við framlengdum líka hækkun greiðslna sem fylgja börnum atvinnulausra. Við höfum lengt tekjutengda tímabilið og hlutabótaleiðin, eins og háttvirtur þingmaður fór yfir, hefur verið mjög mikilvæg í þessari stöðu. Við erum auðvitað að fylgjast með því dag frá degi hvernig faraldrinum vindur áfram. Það liggur ljóst fyrir að þegar við erum með eina atvinnugrein algjörlega í frosti, sem er ferðaþjónustan, sem hefur verið ein stærsta atvinnugreinin á undanförnum árum, þá eru menn að bíða eftir því að hún komist í gang á nýjan leik og öll sú starfsemi sem legið hefur niðri í verslun, þjónustu og fleira vegna faraldursins.
Þegar kemur að lengingu bótatímabils þá erum við að skoða þetta á hverjum einasta tíma. Niðurstaðan fyrir áramót var sú að stíga ekki það skref þá. Engu að síður höfum við verið í mjög þéttu samtali og samstarfi við félagsþjónustu sveitarfélaga. Ráðuneytið fundar mjög reglulega með félagsþjónustu sveitarfélaga og fær allar upplýsingar þaðan. Við erum með alla nýjustu tölfræði frá Vinnumálastofnun um hversu margir eru að klára sinn bótarétt en að svo stöddu hefur ekki verið tekin ákvörðun um framlengingu á þeim réttindum,“ sagði ráðherrann.
Hann sagði jafnframt að eftir því sem faraldurinn drægist á langinn þá myndi ríkisstjórnin áfram þurfa að koma með aðgerðir. „Það hef ég sagt um allar þær aðgerðir sem við höfum komið með að þær útiloki ekki frekari aðgerðir á síðari stigum. Þannig að: Höfum við skoðað þetta? Já, við höfum skoðað þetta en það liggur ekki fyrir ákvörðun um framlengingu að svo stöddu.“
Heldur „rýr svör“
Guðmundur Ingi beindi fyrirspurn að Ásmundi Einari í annað sinn. „Ég þakka hæstvirtum félags- og barnamálaráðherra fyrir svörin. Þau voru heldur rýr. Skoða þetta? Það er bara eins og að segja við fólk: Étið það sem úti frýs. En þar er ekkert að hafa lengur. Það er ekkert að hafa fyrir þetta fólk. Það er stór hópur fólks sem bíður í röðum eftir mat og þessi hópur mun bætast við. Þeir sem eru að fara á félagslegar bætur hjá sveitarfélögum eru í mjög slæmum málum vegna þess að það er allt tekið á móti til þess að skerða þær bætur. Þannig að þetta er bara fátæktargildra.
Það þýðir ekkert að segja að maður ætli að skoða málið vegna þess að það er ekki talað um að skoða málin þegar verið að bjarga fyrirtækjum. Þá er eitthvað gert, það er búið til. Nú er kominn tími til að hætta að skoða málin og gera eitthvað og sjá til þess að fólk þurfi ekki að standa í röð eftir mat. Það er lágmark að við sjáum til þess að það þurfi enginn að svelta á Íslandi,“ sagði þingmaðurinn.
Ætla sér að halda utan um fólk í þessum faraldri
Ásmundur Einar steig aftur í pontu og sagði að stjórnvöld hefðu gripið til margvíslegra aðgerða til að tryggja félagslega þáttinn. „Það lýtur að þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til vegna COVID-19, margvíslegar aðgerðir á vinnumarkaði og ég rakti hluta af þeim áðan. Við höfum líka gripið til margvíslegra félagslegra aðgerða sem hafa fæðst í samstarfi og samtali á milli ráðuneytisins og félagsþjónustu sveitarfélaganna sem hefur með höndum þjónustu við alla viðkvæmustu hópa landsins.
Þegar við vinnum að þeim þætti sem háttvirtur þingmaður vitnar hér til, sem er framlenging bótatímabils, er hann auðvitað líka skoðaður í samtali og samvinnu á milli þeirra aðila sem þjónusta þessa viðkvæmu hópa. Þegar ráðherra segir að eitthvað sé í skoðun hefur það sýnt sig að sumt af því sem við skoðum raungerist í framkvæmdum og annað ekki. Við erum einfaldlega áfram að vakta þetta. Við ætlum okkur að halda utan um fólk í þessum faraldri og eftir því sem hann dregst á langinn munum við grípa til frekari aðgerða. Það höfum við sýnt á síðasta ári og það munum við líka gera á því ári sem nú er að hefjast,“ sagði hann.