Leiguverð hefur meira en tvöfaldast hér á landi á síðustu árum, sem er rúmlega fjórum sinnum meiri hækkun en á hinum Norðurlöndunum. Einnig eru Íslendingar mun óánægðari með húsnæðisverð í sínu nærumhverfi heldur en íbúar annars staðar á Norðurlöndum.
Þetta kemur fram í nýrri skýrslu og gögnum frá Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD), sem snýr að húsnæðismálum í yfirstandandi kreppu í löndunum sem tengjast samtökunum.
Íþyngjandi leiguverð hér á landi
Samkvæmt skýrslunni er leiguverð töluvert íþyngjandi fyrir lágtekjufólk á almenna leigumarkaðinum hér á landi, en árið 2019 fóru 43 prósent af tekjum þeirra í greiðslu á húsaleigu. Þetta er töluvert hærra en meðaltalið í OECD-ríkjum, þar sem lágtekjufólk á almennum leigumarkaði greiðir rúmlega þriðjung tekna sinna í leigu. Hlutfallið er einnig hærra en í Svíþjóð, Noregi og Danmörku, en aftur á móti nokkuð lægra en í Finnlandi.
Langtum meiri hækkun en á Norðurlöndunum
Þegar litið er á þróun leiguverðs síðustu árin eru þó fá lönd sem hafa upplifað jafnmikla verðhækkun og Ísland, en samkvæmt skýrslunni hefur verðið á leiguhúsnæði tvöfaldast á tímabilinu 2005 til 2019. Þetta er rúmlega fjórum sinnum meiri hækkun á öðrum Norðurlöndum, þar sem leiguverðið hefur hækkað um 20 til 30 prósent á sama tíma. Af öllum þeim 38 löndum sem OECD mældi í skýrslunni sinni mátti aðeins sjá viðlíka hækkun í Tyrklandi, Litháen og Eistlandi.
Með þeim óánægðustu
Einnig má gæta mikinn mun í ánægju með húsnæðisverð milli landa. Samkvæmt könnun sem OECD lét gera segjast yfir 70 prósent Dana og Finna vera ánægð með verðið á húsnæði í sínu nærumhverfi, á meðan um helmingur Norðmanna og Svía gera það. Hins vegar segjast aðeins 37 prósent Íslendinga vera sátt með húsnæðisverð í sínu nágrenni.
Muninn má sjá á mynd hér að ofan, en könnun OECD fór fram á milli 2017 og 2019. Meðaltal allra íbúa OECD-ríkjanna er mun hærra en á Íslandi, eða nálægt 50 prósentum. Á meðal Evrópuþjóða eru einungis Lettar, Litháar og Pólverjar óánægðari með húsnæðisverð í sínu nærumhverfi, en meiri óánægju má einnig gæta meðal Tyrkja, Ísraela, Argentínumanna og Chilebúa.Aðgerðir fyrir fyrstu kaupendur ekki eins markvissar
Í skýrslunni er einnig farið yfir mismunandi aðgerðir OECD-landa í húsnæðismálum í yfirstandandi kreppu, en samkvæmt henni hefur hið opinbera ráðist í aðgerðir til að auka húsnæðisöryggi tekjulágra í flestum þessara landa, annað hvort með útleigu á félagslegu húsnæði eða með greiðslu húsnæðisbóta.
Hins vegar segja samtökin að sum lönd kjósi frekar að beina sínum aðgerðum að fyrstu kaupendum eða þá sem hafa keypt húsnæði, en þær séu líklegri til að gagnast millitekjufólki og séu ekki best til þess fallnar að hjálpa þeim sem mest þurfa á hjálp að halda.
Aukin fjárfesting í félagslegu húsnæði
OECD kallar eftir aukinni fjárfestingu, bæði af hálfu hins opinbera og hjá einkageiranum, í félagslegu húsnæði. Í skýrslunni segja þau að þess háttar aðgerðir gætu gegnt meginhlutverki í að tryggja að viðspyrnan frá kreppunni muni gagnast sem flestum.
Til skamms tíma telja þau tímabundnar stuðningsaðgerðir vera mikilvægastar til að styðja við þá sem búa við mikið óöryggi á húsnæðismarkaðnum, en leggja þó til að hugað sé að langtímaþáttum, líkt og breyttri eftirspurn á húsnæði vegna aukinnar fjarvinnu.