„Þann 5. janúar hríslaðist gleði um kynsegin samfélagið – og henni deildum við sem stöndum með þeim hópi – þegar uppskera áralangrar baráttu birtist á ofureinfaldan hátt: „kynsegin/annað“ varð valmöguleiki í fellivalmynd hjá Þjóðskrá. Á sama tíma kom flatt upp á fólk sem breytti skráningu að fyrir það þurfti að greiða 9.000 krónur í gjald til Þjóðskrár.“
Þetta kom fram í máli Andrésar Inga Jónssonar, þingmanns utan flokka, undir liðnum störf þingsins á Alþingi í dag.
Í ræðu sinni sagði hann að þetta gjald hefði einnig komið flatt upp á hann „en við nánari eftirgrennslan leyndist ástæðan nánast neðanmáls, í 4. tölulið 18. gr. laga um kynrænt sjálfræði var breyting á lögum um aukatekjur ríkissjóðs sem hafði þessar afleiðingar“.
Varpar skugga á þá „stórkostlegu réttarbót sem felst í lögum um kynrænt sjálfræði“
Andrés Ingi fullyrti að það hefði ekki verið ætlun þeirra á þingi að koma á sérstökum transskatti um leið og „við náðum fram þessari réttarbót“.
„Bæði er ekki sjálfsagt að trans fólk hafi efni á að borga slíkt gjald en þar að auki þá þjónar ekki almannahagsmunum að vera með fjárhagslegan þröskuld fyrir því að nafn og kyn séu rétt í þjóðskrá.
Sérstakur transskattur er ósanngjarn og óréttlátur. Hann varpar skugga á þá stórkostlegu réttarbót sem felst í lögum um kynrænt sjálfræði. Þingið þarf að viðurkenna að þarna varð okkur á í messunni, leiðrétta mistökin og afnema transskattinn strax,“ sagði þingmaðurinn.