Skip eru orðin það stór og munu fara stækkandi í framtíðinni, að nauðsynlegt er að ráðast í dýpkun og að bæta aðstöðu í Sundahöfn. Þetta eru röksemdir Faxaflóahafna fyrir því að fara í frekari landfyllingar á athafnasvæðinu og dýpkun Viðeyjarsunds. Tillaga að matsáætlun vegna mats á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar hefur nú verið lögð fram til kynningar. Fyrirhuguðum framkvæmdum er hægt að skipta í þrennt; dýpkun Viðeyjarsunds, efnislosun við Engey og landfyllingar og hafnargerð á athafnasvæði Sundahafnar.
Faxaflóahafnir fyrirhuga að lengja Skarfabakka til suðurs, færa Kleppsbakka utar og lengja Sundabakka og Vogabakka svo að þeir nái saman. Við Klettagarða er stefnt að stækkun núverandi landfyllingar utan við skólphreinsistöð Veitna. Í heildina er áætlað að taka 3.150.000 rúmmetra (m3) af efni af hafsbotni við dýpkun Viðeyjarsunds en heildarefnisþörf allra landfyllinga er metin um tvær milljónir rúmmetra.
Með framkvæmdunum myndu hafnarbakkar aðeins lengjast um 190 metra samanlagt enda eru framkvæmdirnar aðallega ætlaðar til að auðvelda móttöku stærri skipa, einkum nýrra flutningaskipa, en einnig til að taka á móti stærri skemmtiferðaskipum. Ströndin á þessum kafla er öll manngerð landfylling og í tillögu að matsáætlun kemur fram að engri náttúrulegri strandlengju verði raskað.
Þar sem fyrirhuguð efnistaka og haugsetning nemur meira en 150 þúsund rúmmetrum á svæði sem er yfir fimm hektarar er framkvæmdin háð umhverfismati. Tillaga að matsáætlun er eitt skref í þeirri vinnu. Í framhaldinu verður unnin frummatsskýrsla og er stefnt að því að senda hana til meðferðar Skipulagsstofnunar í apríl og vonast er til þess að álit stofnunarinnar liggi fyrir næsta haust.
Botninum að mestu leyti þegar raskað
Á Viðeyjarsundi er fyrirhugað að dýpka botninn og fjarlægja alls 3.150.000 rúmmetra af efni á 113 hektara svæði. Fyrirhugað er að botninn verði á 10 og 12,5 metra dýpi að framkvæmdum loknum. Dýpkunarsvæðið er allt innan athafnasvæðis Sundahafnar og í tillögu að matsáætlun segir að náttúrulegum botni hafi að miklu leyti þegar verið raskað með fyrri dýpkunaraðgerðum.
Efni úr dýpkuninni er meira fyllingarefni en Faxaflóahafnir þurfa í sínar landfyllingar og verður leitast við að nýta efnið í aðrar landfyllingar, verði þess nokkur kostur, t.d. á vegum Reykjavíkurborgar eða nálægra sveitarfélaga.
Til stendur að umframefni úr dýpkunarframkvæmdum, sem ekki er hægt að nýta í landfyllingar, verði að hluta losað í sjóinn við Engey. Í tillögu að matsáætlun kemur fram að efni hafi verið losað við Engey frá árinu 2005 og þá aðallega í aflagða efnisnámu austan við hana. Þessar gömlu efnisnámur eru að fyllast, auk þess sem þær eru nálægt núverandi efnistökusvæði Björgunar. Því hyggjast Faxaflóahafnir losa efni í framtíðinni í gamlar efnisnámur norðvestan við Engey.
Engin náttúruleg strandlengja er eftir innan framkvæmdasvæðisins og engar þekktar náttúru- né menningarminjar eru innan þess. Í næsta nágrenni eru þó svæði á náttúruminjaskrá; Engey, Viðey, Gufuneshöfði og vesturhorn Laugarness. Framkvæmdir munu ekki hrófla við umræddum náttúruminjasvæðum, segir í tillögu Faxaflóahafna.
Mengun á hafsbotni
Beint og varanlegt rask yrði á því svæði sem fyrirhugað er að dýpka. Þá munu landfyllingar breyta ásýnd strandlengjunnar til frambúðar. Efnislosun við Engey mun jafnframt hylja sjávarbotninn staðbundið. Landfyllingarnar eru allar stækkanir á fyrri landfyllingum og því mun, að sögn framkvæmdaaðila, engin búsvæði fugla eða gróður á landi raskast.
Í umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur um dýpkun Sundahafnar sem gefin var í júní í fyrra er þó minnt á að í Engey og á hinum eyjunum í sundinu eru varpsvæði fugla sem sækja fæðu sína í sjóinn umhverfis þær. Einnig kemur fram í umsögninni að niðurstöður rannsókna á botnseti sýni að á sumum svæðum á þessum slóðum séu mengunarefni á borð við PCB og þungmálma. Kanna þurfi hvort mengun frá dýpkunarefni geti haft áhrif á fæðu fuglanna en í setinu eru m.a. þungmálmar sem safnast geta saman í lífkeðjunni. Í tillögu Faxaflóahafna kemur fram að efni í varúðar- og hættuflokki samkvæmt skilgreiningu Umhverfisstofnunar, verði lokað af í landfyllingum. Fyrirhugað er að stærsta landfyllingin við Vatnagarða eða landfylling norðan við Laugarnes verði notuð til þess.
Getur haft áhrif á laxfiska
Í tillögu Faxaflóahafna að matsáætlun þróunar Sundahafnar er fjallað um að framkvæmdin sem þar er lýst geti haft áhrif á laxgengd í Elliðaánum. Allir laxfiskar á leið í árnar fara um eða rétt fram hjá fyrirhuguðu framkvæmdasvæði. Sömuleiðis fara seiði á leið til sjávar um og fram hjá framkvæmdasvæðinu og því verða áhrif framkvæmdarinnar á laxfiska metin í frummatsskýrslu – næsta skrefi umhverfismatsins.
Í tillögunni er bent á að fyrirhugaðar landfyllingar muni ekki þrengja frekar að Viðeyjarsundi. „Gönguleiðir laxfiska verða því áfram óhindraðar, mögulega þá stækka þær með auknu dýpi á Viðeyjarsundi. Grugg og umsvif vinnuvéla á framkvæmdatíma gætu þó mögulega haft einhver áhrif á far laxfiska.“
Allir geta kynnt sér tillögu Faxaflóahafna að matsáætlun vegna mats á umhverfisáhrifum þróunar Sundahafnar og lagt fram athugasemdir. Athugasemdir skulu vera skriflegar og berast eigi síðar en 4. febrúar 2021 til Skipulagsstofnunar bréfleiðis eða með tölvupósti á skipulag@skipulag.is.