„Hver sá sem opinberlega afneitar, gróflega gerir lítið úr, eða reynir að réttlæta eða samþykkja þjóðarmorð sem framin voru á vegum þýska nasistaflokksins í síðari heimsstyrjöldinni skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum,“ segir í nýju frumvarpi til breytinga á almennum hegningarlögum, sem lagt hefur verið fram á Alþingi.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir þingmaður Samfylkingar er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins. Allir aðrir þingmenn Samfylkingar og Andrésar Ingi Jónsson þingmaður utan flokka og Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir þingmaður Viðreisnar eru meðflutningsmenn.
Í greinargerð segir að frumvarpið eins og það er lagt fram fari ekki í bága við tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrár, þar sem takmörkunin sé bundin við það eitt að afneita helförinni. Einnig sé þessi takmörkun tjáningarfrelsis nauðsynleg og samræmist lýðræðishefðum. Refsiramminn sem lagður er til er sá sami og í ákvæðum almennra hegningarlaga um haturorðsræðu.
„Takmörkunin felur í sér bann við því að afneita opinberlega einna verstu glæpum sem framdir hafa verið gegn mannkyni. Glæpir sem bæði í sögulegu samhengi sem og landfræðilegu standa nærri Íslandi. Nauðsynlegt er að standa vörð um sögu þessara hörmunga sem áttu sér stað á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar og koma í veg fyrir að unnt verði að grafa undan henni, gera lítið úr, rangfæra eða falsa svo að slíkir atburðir endurtaki sig aldrei. Þótt ekki hafi svo einhverju nemi reynt á tjáningu af því tagi sem frumvarpinu er stefnt gegn er mikilvægt að vera á varðbergi og fyrirbyggja hana eftir því sem unnt er. Þá er haft í huga að í mörgum nágrannalöndum hafa glæpir byggðir á gyðingaandúð aukist og samtökum sem ala á kynþáttahatri vaxið fiskur um hrygg,“ segir í greinargerðinni.
Víða bannað að afneita helförinni
Vísað er til þess að Mannréttindadómstóll Evrópu hafi komist að þeirri niðurstöðu að bann við tjáningu gegn helförinni samræmdist mannréttindasáttmála Evrópu.
„Fjölmörg Evrópuríki hafa gert það refsivert að afneita eða réttlæta helförina, þjóðarmorð eða stríðsglæpi. Finna má slíkt í lögum Austurríkis, Belgíu, Frakklands, Grikklands, Hollands, Ítalíu, Ísraels, Liechtenstein, Litáens, Lúxemborgar, Póllands, Portúgals, Rúmeníu, Rússlands, Slóvakíu, Spánar, Sviss, Tékklands, Ungverjalands, Úkraínu og Þýskalands,“ segir í greinargerð frumvarpsins.
Samfélagsmiðlatjáning gæti talist refsiverð
Í umfjöllun um 1. gr. frumvarpsins segir að form tjáningar sem talist gæti refsiverð geti verið með ýmsu móti, t.d. prentuð eða munnleg eða á öðru formi, eins og í listum eða athöfnum.
Einnig er gert ráð fyrir að tjáningin sem yrði refsiverð fari fram opinberlega og falli því ekki undir einkasamtöl. Tjáning á samfélagsmiðlum gæti í þessum skilningi talist opinber. „Það verður þó að meta í hverju tilviki fyrir sig,“ segja flutningsmenn frumvarpsins.
Svo er afmarkað hvaða opinbera tjáning gæti orðið refsiverð. „Fyrst er það afneitun en þá er átt við tjáningu þar sem tekið er fram að atburðirnir eða hluti af þeim hafi ekki átt sér stað. Einnig að gera lítið úr þeim en það er þó háð því að það sé gert gróflega. Loks ef atburðir eru réttlættir eða samþykktir en það felur í sér stuðning eða jákvætt viðhorf til þeirra. Í fjórða lagi er andlag tjáningarinnar þjóðarmorð sem nasistar frömdu á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar en um var að ræða kerfislega útrýmingu á gyðingum,“ segir í skýringum frumvarpsins.
Bókatíðindi og umsögn til Alþingis
Örfá dæmi um afneitun helfararinnar hafa verið til umfjöllunar á Íslandi undanfarna mánuði. Núna fyrir jól varð töluvert fjaðrafok vegna útgáfu Bókatíðinda, en þar var að finna kynningu á bókinni Tröllasaga 20. aldarinnar, íslensk þýðing bókarinnar The Hoax of the Twentieth Century: The Case Against the Presumed Extermination of European Jewry eftir Arthur R. Butz. Bókin kom út árið 1976, en þar er dregið í efa að helför nasista hafi átt sér stað.
Einnig var sagt frá því í byrjun desember að umsögn um þingmál, n.t.t. þingsályktunartillögu um að halda minningardag um fórnarlömb helfararinnar 27. janúar ár hver, var fjarlægð af vef Alþingis vegna efasemda sem þar voru settar fram um helförina gegn gyðingum.