Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna í Reykjavík, hefur ákveðið að sækjast eftir því að leiða lista flokksins í Suðurkjördæmi, þar sem fram mun fara forval líkt og hjá flokknum í öllum öðrum kjördæmum.
Í tilkynningu segir Kolbeinn að ættir sínar liggi í uppsveitum Árnessýslu og að hann hafi eytt ófáum stundum í Þjórsárdal þar sem ætt hans hafi búið í um eina og hálfa öld, fyrst hjá ömmu sinni og afa og svo í sumarbústað fjölskyldunnar. „Ekki skemmir heldur að vera barnabarnabarn Gests á Hæli þegar kíkt er í Skaftholtsréttir. Þess naut ég þegar ég leiddi lista VG í kjördæminu árið 2003, þó ekki hafi það skilað þingsæti þá.“
Ari Trausti Guðmundsson leiddi lista Vinstri grænna í kjördæminu 2017 en hann hefur ákveðið að láta gott heita og verður ekki í framboði í haust.
Lilja Rafney Magnúsdóttir, oddviti Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi, tilkynnti í gærkvöldi að hún hygðist sækjast áfram eftir því að leiða lista flokksins þar.
Talið er nær öruggt að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra muni áfram sækjast eftir því að leiða Vinstri græn í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur og líklegt er að Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra og varaformaður flokksins, muni sækjast eftir því að leiða Vinstri græn í Suðvesturkjördæmi. Þar var Rósa Björk Brynjólfsdóttir í oddvitasæti haustið 2017 en hún sagði sig úr Vinstri grænum á síðasta ári og gekk síðar til liðs við Samfylkinguna.
Í Norðausturkjördæmi verður barátta um oddvitasætið þar sem Steingrímur J. Sigfússon, einn stofnenda flokksins og formaður hans um margra ára skeið, mun ekki verða í framboði. Það verður í fyrsta sinn síðan að Vinstri græn voru stofnuð 1999 sem Steingrímur leiðir ekki í því kjördæmi. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna í kjördæminu, og Óli Halldórsson, sveitarstjórnarmaður í Norðurþingi og fyrrverandi varaformannsframbjóðandi, hafa bæði tilkynnt um að þau vilji taka við oddvitasæti Steingríms.