Einungis um þrjú prósent Íslendinga eru hlynnt núverandi stefnu íslenskra stjórnvalda um að skrifa ekki undir samning Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum, sem tekur gildi í dag í kjölfar þess að 50 ríki heims hafa fullgilt samninginn.
Um 86 prósent landsmanna vilja að Ísland gerist aðili að samningum og um 75 prósent landsmanna telja að Ísland ætti að verða eitt fyrsta ríki Atlantshafsbandalagsins til þess að taka það skref, þrátt fyrir að Bandaríkjamenn myndu beita þrýstingi gegn því.
Svipuð niðurstaða í fleiri ríkjum Atlantshafsbandalagsins
Þessar niðurstöður eru úr nýrri könnun sem YouGov framkvæmdi fyrir ICAN, þrýstihóp um útrýmingu kjarnorkuvopna, í sex ríkjum Atlantshafsbandalagsins; Íslandi, Belgíu, Danmörku, Ítalíu, Hollandi og Spáni.
Niðurstöður í hinum ríkjunum fimm hvað áðurnefnd atriði varðar eru keimlíkar. Vilji er hjá almenningi til þess að þessi NATÓ-ríki undirriti og fullgildi samninginn og yfirgnæfandi meirihluti í öllum ríkjunum telur rétt að taka það skref þrátt fyrir vænta andstöðu Bandaríkjanna.
NATÓ, með Bandaríkin í fararbroddi, hefur gagnrýnt samninginn á undanförnum árum, en hann var fyrst kynntur til sögunnar árið 2017.
Þann 24. október 2020 fullgilti Hondúras samninginn og varð 50. ríkið til þess að gera það. Því er samningurinn að öðlast formlega viðurkenningu nú. Í dag skora 22 íslensk félagasamtök á stjórnvöld að fullgilda samninginn.
Í áskoruninni eru stjórnvöld hvött til þess að veita vilja almennings vægi. „Aðild Íslands að samningnum er nauðsynleg til að stuðla að vernd almennra borgara, lífríkis og náttúru til framtíðar og styrkja enn fremur stöðu þeirra alþjóðlegu samninga um kjarnorkuvopn sem Ísland á nú þegar aðild að. Með undirritun og fullgildingu samningsins er fyllt upp í mikilvægar eyður sem fyrri samningar hafa ekki kveðið á um,“ segir í áskoruninni.
ICAN-hreyfingin fékk árið 2017 friðarverðlaun Nóbels fyrir baráttu sína gegn kjarnorkuvopnalausum heimi.
Íslensku samtökin 22 sem skora á stjórnvöld í dag eru eftirfarandi:
Alda félag um sjálfbærni og lýðræði, Alþýðusamband Íslands, Íslandsdeild Amnesty International, Barnaheill, Biskupsstofa, Hjálparstarf kirkjunnar, Húmanistahreyfingin, Kvenréttindafélag Íslands, Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, Landssamtökin þroskahjálp, Læknafélag Íslands, Mannréttindaskrifstofa Íslands, Menningar- og friðarsamtök íslenskra kvenna, Náttúruverndarsamtök Íslands, Rauði krossinn á Íslandi, Samtök hernaðarandstæðinga, Samtökin 78, Siðmennt, Soka Gakkai International á Íslandi, UNICEF á Íslandi, UN Women á Íslandi og Öryrkjabandalag Íslands.