Það hefði verið „mjög djörf ákvörðun“ að vera ekki í samfloti við Evrópusambandið við kaup á bóluefnum, sagði Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra í svari við fyrirspurn Bergþórs Ólasonar þingmanns Miðflokksins á Alþingi í morgun.
Bergþór spurði Bjarna sérstaklega út í orð Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis sem vitnað var til í fréttum Stöðvar 2 í vikunni, um að með því að semja um að taka þátt í samstarfi Evrópusambandsins hefði Ísland skuldbundið sig til þess að kaupa ekki bóluefni utan þess samstarfs.
Í svari við því sérstaklega sagði Bjarni að hans skilningur væri að Íslendingar væru einungis skuldbundnir til þess að reyna ekki að kaupa meira bóluefni af þeim sex framleiðendum sem Evrópusambandið hefði samið við.
Hann sagði að þessi skilyrði samkomulagsins við ESB hefðu verið rædd í ríkisstjórn, en hann mundi ekki til þess að þau hefði legið skýr fyrir í fyrstu.
Bjarni sagði einnig upplýsingar hafa borist sér bæði beint og óbeint um þreifingar um að koma Íslendingum í samband við aðra aðila, en fór ekki djúpt í þá sálma í svari sínu.
Mikil óvissa er samningar voru gerðir
Varðandi þátttöku Íslands í bóluefnasamstarfi Evrópusambandsins almennt sagði Bjarni að það þyrfti að hafa í huga að snemma á síðasta ári og fram á mitt ár, þegar verið var að undirbúa það samstarf, hafi verið mikil óvissa um þróun bóluefna.
Nauðsynlegt væri að setja sig í þau spor sem staðið var í á þeim tíma. Óvissa hefði þá verið uppi um hvaða framleiðandi yrði fyrstur að koma bóluefni á markað og einnig hefði verið óvíst hvort hægt yrði að horfa til þess að bóluefni yrði „stóra lausnin“ fyrir okkur.
Ekki hefði verið gott ef Ísland hefði, í stað þess að taka þátt í samstarfinu, ef til vill einungis náð samningum við einn framleiðanda, sem hefði síðan ekki verið á meðal þeirra sem fyrstur var að koma bóluefni á markað.
Gríðarleg óvissa hvenær bóluefni yrði til, hverjum tækist að framleiða það, hvort við gætum horft til þess að það yrði stóra lausnin fyrir okkur.
Allt of snemmt að tala um einhver mistök
Bjarni nefndi líka í svari sínu að ekki væri útilokað að hugmyndir sem viðraðar hefðu verið á fundum með fulltrúum Pfizer um rannsókn á virkni bóluefnisins á Íslandi yrðu að veruleika.
„Ég held að það sé allt of snemmt að komast að þeirri niðurstöðu að það hafi verið mistök að fara í samflot með Evrópusambandinu, jafnvel þó að ég ætli ekki hér að fara að fella einhverja gæðaeinkunn á nákvæmlega frammistöðu Evrópusambandsins samkvæmt þeim skuldbindingum sem sambandið tók á sig gagnvart okkur í þessu máli,“ sagði Bjarni.