Alls er búist við því að Íslendingum muni fjölga um 32 þúsund manns á næstu fimm árum, aðallega vegna mikils fjölda fólks sem flytur til landsins. Alls gætu tæplega 19 þúsund manns flutt til landsins á tímabilinu 2021-2026, umfram þá sem flytja frá landinu.
Þetta kemur fram í miðspá Hagstofu um þróun mannfjölda, sem var uppfærð nýlega. Samkvæmt henni mun mannfjöldinn innanlands einnig vaxa með stöðugum hætti, en búist er við að um 2.500 fleiri fæðist hér heldur en látist á hverju ári. Meiri fjölgun er þó að vænta vegna aðflutnings umfram brottflutnings, sem búist er við að nemi um fjórum þúsundum á ári hverju fram til ársins 2026.
Mikill munur er þó á efri og neðri mörkum mannfjöldaspár Hagstofu til næstu ára. Í lágspánni er búist við að tæplega 5.800 fleiri flytji hingað til lands heldur en frá því á næstu fimm árum, á meðan háspáin gerir ráð fyrir innflutningi allt að 35 þúsund manna.
Á árunum 2026-2030 gerir Hagstofa svo ráð fyrir nokkrum fólksflótta, en þar er búist við því að 4.700 fleiri flytji frá landinu heldur en til þess.
Aldrei hafa aðfluttir umfram brottfluttra verið jafnmargir en síðasta áratug, en á tímabilinu 2010-2019 voru þeir rúmlega 24 þúsund talsins. Til samanburðar fluttu rúmlega 13 þúsund fleiri til landsins en frá því á tímabilinu 2000-2009.