Í væntanlegri bók Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, sem Einar Kárason skrifar og ber heitið „Málsvörn“, er fjallað um hið svokallaða styrkjamál. Í því fólst að FL Group, þá umsvifamikið fjárfestingafélag, og Landsbanki Íslands, greiddu upp skuldir Sjálfstæðisflokksins með tveimur framlögum upp á 56 milljónir króna, þar af komu 30 milljónir króna frá FL Group. Umræddir styrkir voru veittir síðla árs 2006, nánar tiltekið 29. desember það ár. Þremur dögum eftir að styrkirnir voru veittir, 1. janúar 2007, tóku gildi ný lög um fjármál stjórnmálaflokka sem gerðu það að verkum að flokkum var meinað að taka við styrkjum yfir 300 þúsund krónum frá einstökum lögaðilum.
Í fréttum RÚV, þar sem fjallað var um bók Jóns Ásgeirs og viðtal hans við Kveik sem sýnt verður í kvöld, sagðist Jón Ásgeir hafa orðið „fokvondur“ þegar hann heyrði af því eftirá að félagið hefði ásamt Landsbanka Íslands greitt upp skuldir Sjálfstæðisflokksins með þessum hætti. Hann hafi fyrst frétt af málinu þegar endurskoðendur spurðust fyrir um það hjá stjórn FL Group mörgum mánuðum eftir að styrkirnir voru veittir.
Jón Ásgeir segir við RÚV að hann hafi ekki tekið ákvörðun um að veita styrkinn frá FL Group. Aðspurður hvort það hafi verið Hannes Smárason, þáverandi forstjóri FL Group og einn stærsti hluthafi félagsins á þeim tíma, svaraði Jón Ásgeir því til að það hafi væntanlega verið stjórnendur félagsins sem hafi tekið hafi ákvörðunina.
Í frétt RÚV kom fram að í bókinni um Jón Ásgeir segi að Hannes hafi ekki fengið kvittanir fyrir greiðslunni til Sjálfstæðisflokksins þegar hún var framkvæmd. Slíkri hafi verið skotið inn í bókhald FL Group eftir á að næturlagi, og með því hafi verið að brjóta bókhaldslög.
„Samið við Geir frekar en Gulla“
Styrkjamálið vakti mikla hneykslun þegar það komst upp í apríl 2009 og Geir H. Haarde, sem þá hafði látið af störfum sem formaður Sjálfstæðisflokksins, sagðist í tilkynningu bera fulla ábyrgð á viðtöku styrkjanna. Bjarni Benediktsson, sem þá var nýtekinn við sem formaður flokksins, sagði viðtöku styrkjanna „stangast gróflega á við þau gildi sem ég vil að Sjálfstæðisflokkurinn starfi eftir.“
Andri Óttarsson, þáverandi framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, hætti störfum nokkrum dögum eftir að málið kom upp. Í yfirlýsingu frá Andra vegna þessa kom fram að hann hafi ekki átt frumkvæði að því að haft var samband við FL Group eða Landsbankann um styrkveitingu og að hann hafi ekki tekið ákvörðun um að veita styrkjunum viðtöku. „Þrátt fyrir þetta og þær skýringar sem komu fram í yfirlýsingu fyrrverandi formanns flokksins er það mitt mat að við núverandi aðstæður þjóni það best hagsmunum Sjálfstæðisflokksins að ég láti af störfum sem framkvæmdastjóri hans þar sem mikilvægt er að leita allra leiða til að skapa traust og frið um flokksstarfið. Af þeim sökum hef ég boðist til að víkja úr stöðu minni.“.
Í frétt RÚV er greint frá því að í bókinni um Jón Ásgeir komi fram að hann telji sig vita til þess að Geir H. Haarde hafi staðið á bakvið beiðnina um styrkina en að Guðlaugur Þór hafi verið látinn taka á sig sök í málinu. „Það var það sem ég heyrði, að þetta hefði verið samið við Geir frekar en Gulla[...]Ég var þarna í stjórn og mér gefin sú skýring.“
Ekkert fyrirliggjandi um endurgreiðslu
Kjarninn hefur ítrekað spurt Þórð Þórarinsson, framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins, um hvort verið sé að greiða styrkina til baka. Í síðasta svari hans, sem barst í nóvemberlok í fyrra, sagði að flokkurinn hefði endurgreitt styrkina af rekstrarfé sínu. „Áform voru uppi um að ljúka endurgreiðslum fyrir árið 2018. Það gekk því miður ekki eftir. Ástæðan fyrir því er m.a. að kosningar hafa verið tíðari en ráð var fyrir gert, en þær eru langsamlega fjárfrekustu útgjaldaliðir stjórnmálaflokka. Endurskoðuð áætlun gerir ráð fyrir að endurgreiðslum ljúki á næstu misserum.“
Þegar Kjarninn hafði samband við Júlíus Þorfinnsson, framkvæmdastjóra Stoða sem áður hétu FL Group, vorið 2015 og spurði hann hvort og hversu mikið Sjálfstæðisflokkurinn hafi greitt til baka sagði hann félagið hafa ákveðið að tjá sig hvorki af eða á um málið. Þáverandi upplýsingafulltrúi slitabús Landsbankans sagðist sömuleiðis ekki geta upplýst um greiðslur einstakra viðskiptavina.