Jón Ásgeir Jóhannesson, athafnamaður og sem var einn fyrirferðamesti fjárfestir Íslands fyrir bankahrun, þvertekur fyrir að peningamarkaðssjóðir föllnu bankanna hafi verið einhverskonar svikamylla. Um hafi verið að ræða form af skammtímafjármögnun fyrir fyrirtæki. „Var það svikamylla? Menn voru að kaupa skuldabréf af fyrirtækjum og þeir sem áttu í sjóðunum fengu fína ávöxtun. Þegar við komum að þessum endapunkti að eignabólan springur þá verður ákveðið tjón. Það er ekki bara hérna heldur gleymum því ekki að í Bandaríkjunum gekk alríkisstjórnin í ábyrgð fyrir öllum peningamarkaðssjóðum.“ Þetta kom fram í viðtali við Jón Ásgeir í fréttaskýringaþættinum Kveik á RÚV í kvöld, en bók um Jón Ásgeir, Málsvörn, er væntanleg í verslanir bráðlega.
Í viðtalinu segir Jón Ásgeir það rangt að peningamarkaðssjóðir bankanna sem féllu haustið 2008 hafi verið notaðir til að fá koma peningum til fjárfestingafélaga sem hann stýrði, Baugs og FL Group (síðar Stoðir), þegar þau gátu ekki fengið lán annarsstaðar. „Peningamarkaðssjóðir voru að fjárfesta mjög víða[...]Þetta var ekki leið til að redda okkur.“
Sjálfstæð kerfisleg áhætta
Á árunum fyrir hrun ráku allir stóru bankarnir, og mörg minni fjármálafyrirtæki, peningamarkaðssjóði. Þeir fjárfestu í verðbréfum, að mestum hluta íslenskum skuldabréfum, og hart var lagt að almenningi í landinu að geyma sparnað sinn í þessum sjóðum, oft með ræðum um að þeir væri jafn öruggir og innlán. Eini munurinn væri sá að ávöxtun peningamarkaðssjóða væri mun meiri en á innlánsreikningum. Jón Ásgeir var á þessum árum afar fyrirferðamikill í íslensku viðskiptalífi. Þegar umsvifin voru sem mest átti hann í 84 fyrirtækjum og samstæða hans skuldaði íslensku bönkunum svo mikið fé að hún var talin sjálfstæð kerfisleg áhætta fyrir íslenska fjármálakerfið.
Yfir helmingur eigna sjóða voru bréf frá FL Group og Baugi
Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna, sem kom út í apríl 2010, kom fram að tveir sjóðir í eigu rekstarfélags Glitnis, Sjóður 1 og Sjóður 9, voru að jafnaði með yfir 50 prósent af heildareign sjóðanna í bréfum frá tveimur útgefendum, Stoðum/FL Group og Baugi. Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar segir að þessir tveir sjóðir hafi verið látnir kaupa upp heilu skuldabréfaflokkanna frá þessum tveimur aðilum. Þegar Glitnir féll nam virði bréfa frá Baugi í Sjóði 9 til dæmis 12,9 prósent af heildarsamsetningu hans, eða 12,5 milljarða króna. Um 22 milljarðar voru þar í bréfum frá Stoðum/FL Group.
Þá voru dæmi um að sjóðir innan Glitnis sjóða hafi átt viðskipti sín á milli með „óskráð og illseljanleg bréf“. Eitt slíkt dæmi voru viðskipti með Baugsbréf þann 28. desember 2007, þegar Sjóður 9 var látinn selja bréf frá Baugi á nokkra milljarða króna til fagfjárfestasjóðs í eigu Glitnis. Strax eftir áramótin keypti Sjóður 9 síðan bréfin til baka. Ástæðan var sú að sjóðirnir birtu eignasafn sitt opinberlega líkt og það var í árslok. Til að risaeign Sjóðs 9 í Baugsbréfum myndi ekki sjást á yfirlitinu voru þau geymd í nokkra daga í öðrum sjóði en síðan færð til baka.
Sjóður 9 var því stútfullur af skuldabréfum útgefnum af félögum sem annað hvort tengdust helstu eigendum Glitnis eða stærstu skuldurum bankans. Hann hefur verið kallaður ruslakista sem var síðan seld almenningi sem sparnaðarleið með mikilli ávöxtun.
Bréf keypt út fyrir 130 milljarða
Það var þó ekki bara Sjóður 9 og Glitnir sem voru á gráu svæði með starfsemi sína. Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar segir að peningamarkaðssjóðum rekstrarfélaga gömlu bankanna hafi öllum verið stýrt af stjórnendum bankanna sjálfra, þeir keypt heilu útgáfur verðbréfa af félögum tengdum bönkunum, beitt blekkingum í markaðssetningu og endurfjármagnað nánast alltaf skuldabréfaflokka þannig að „starfsemi peningamarkaðssjóða virðist fremur hafa svipað til hefðbundinnar útlánastarfsemi banka.“
Því töpuðu þeir einstaklingar sem fjárfestu í sjóðunum allt að 40 prósent af eign sinni, þrátt fyrir að ríkisbankar hafi sett 130 milljarða króna inn í þá til að hækka endurgreiðsluhlutfallið.
Fjármálaeftirlitið harðlega gagnrýnt
Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis fær Fjármálaeftirlitið harðar ákúrur vegna eftirlitsleysis með peningamarkaðssjóðum. Þar var meðal annars bent á að eitt til tvö stöðugildi hafi átt að fylgjast með alls 94 sjóðum bankanna, eftirlitið hafi ekki beitt þeim valdheimildum sem það gat og hefði ekki brugðist við brotum á lögum og reglum um starfsemi sjóðanna. Einn starfsmaður Fjármálaeftirlitsins sagði fyrir nefndinni það ekki „hafa tíðkast“ að beita viðurlögum og að „forstjóri Fjármálaeftirlitsins [Jónas Fr. Jónsson] hafi verið mjög áhugalaus um allt sem við kom eftirliti með sjóðum.“
Þá segir í skýrslunni að eini starfsmaður Fjármálaeftirlitsins „í eftirliti með sjóðum fór í langt leyfi í nóvember 2006 [...]og fram í maí 2007. Enginn var ráðinn í hans stað í heilt ár og voru sjóðirnir því í raun sem næst án eftirlits á því tímabili. Slíkt verður að teljast alvarleg vanræksla af hálfu Fjármálaeftirlitsins.“ Í ljós þess hversu atkvæðalítið Fjármálaeftirlitsins var „gagnvart sjóðunum má spyrja hvort að starfsmenn stofnunarinnar hafi gert sér grein fyrir þeirri áhættu sem fólst í starfsemi þeirra.“