Vegagerðin áformar að færa hringveginn um Mýrdal þannig að hann liggi á bökkum Dyrhólaóss og í gegnum Reynisfjall í jarðgöngum í stað þess að hann liggi um Gatnabrún og þéttbýlið í Vík. Austan Reynisfjalls er fjaran óstöðug og því þyrfti að reisa varnargarð meðfram veginum í Víkurfjöru.
Ráðgert er að framkvæmdir hefjist síðla árs 2022 og taki um þrjú ár.
Í drögum að tillögu að matsáætlun framkvæmdarinnar, sem nú hefur verið auglýst, kemur fram að með færslunni yrði vegurinn greiðfær láglendisvegur. Eina fjallveginum á leiðinni frá Hellisheiði til Reyðarfjarðar yrði þar með útrýmt með tilheyrandi bótum á umferðaröryggi. Umferð á hringveginum um Mýrdal hefur meira en fimmfaldast frá árinu 2013 sem á sér skýringar í aukinni ferðamennsku.
Nýi vegurinn myndi liggja við og að hluta yfir svæði sem njóta verndar. Á þessum slóðum er að finna einstakar jarðminjar og sérlega fjölskrúðugt fuglalíf. Þá hefur sjaldgæft dýr í íslenskri náttúru, brekkubobbinn, búið þar um sig.
Hugmyndir um tilfærslu vegarins ofan af fjallinu og nær sjónum eru langt í frá nýjar af nálinni. Í tuttugu ára gamalli jarðgangaáætlun Vegagerðarinnar segir að á hringveginum á Suðurlandsundirlendi sé Reynisfjall „eina verulega misfellan“. Snjór sé þar „stundum til trafala“ og leiðin upp á fjallið að vestanverðu brött. „Oft hefur komið til tals að einfaldast sé að fara í gegnum fjallið í tiltölulega stuttum göngum. Eðlilegast væri þá að færa veginn í Mýrdalnum töluvert sunnar og fara í gegnum fjallið til móts við Vík og svo áfram með veginn sjávarmegin byggðarinnar.“
Samkvæmt skýrslu Vegagerðarinnar um hættulegar beygjur á þjóðvegi 1 frá árinu 2002 var beygjan í Gatnabrún, þar sem núverandi hringvegur liggur upp á Reynisfjall, ein af sex hættulegustu beygjum á hringveginum á þeim tíma og þar flokkuð sem „stórhættuleg“. Þar varð banaslys árið 2016.
Gert er ráð fyrir hinni nýju veglínu og jarðgöngum í Reynisfjalli á aðalskipulagi Mýrdalshrepps. Í Samgönguáætlun til ársins 2024 er gert ráð fyrir fjármagni í undirbúning vegagerðarinnar og í henni er tekið fram að leitað verði leiða til að fjármagna framkvæmdirnar í samstarfi við einkaaðila.
Umfang framkvæmdarinnar er slíkt að hún er háð lögum um mat á umhverfisáhrifum. Nýlega birt drög að tillögu að matsáætlun, sem hér eru til umfjöllunar, eru fyrsta skrefið í því ferli.
Fjórir valkostir kynntir
Í skýrslu Vegagerðarinnar, sem VSÓ ráðgjöf vinnur, er fjallað um fjóra valkosti, auk óbreytts vegar, þ.e. núllkosts. Í þremur þeirra er um flutning vegarins að ræða niður að sjó en einn felur í sér lagfæringar á núverandi veglínu.
Samkvæmt valkosti 1, sem framkvæmdalýsing tillögunnar miðast við, myndi nýr vegur liggja sunnan Geitafjalls að vestanverðu, meðfram Dyrhólaósi og í göngum sunnarlega um Reynisfjall. Austan Reynisfjalls færi hann með fram sjó og myndi sameinast núverandi vegi í Vík. Jarðgöngin yrðu 1,3-1,5 kílómetri að lengd og gert er ráð fyrir einni akrein í hvora átt.
Miklar öldur eru við Vík og fjaran ekki stöðug. Byggðir hafa verið tveir svokallaðir sandfangarar í Víkurfjöru til að hefta landbrot. Vegagerðin segir í skýrslu sinni að þörf verði á varnargarði með fram veginum austan Reynisfjalls þar sem hann myndi liggja í Víkurfjöru. Rannsókn er hafin á stöðugleika strandarinnar og er gert ráð fyrir að hún standi í þrjú ár.
Í flestum þeim valkostum sem Vegagerðin leggur fram liggur nýr vegur í Vík milli þéttbýlisins og Víkurfjöru og „mun mögulega skerða aðgengi íbúa og ferðamanna á svæðinu að fjörunni,“ segir í skýrslu Vegagerðarinnar. Í hönnun vegar er gert ráð fyrir undirgöngum og áningarstað við Víkurfjöru.
Vegurinn yrði almennt mjög sýnilegur
Landslag í Mýrdalnum er sérstætt og í matsskýrsludrögunum kemur fram að það hafi bæði gildi fyrir ferðaþjónustu sem og íbúa svæðisins. Þar segir einnig að búast megi við að nýji vegurinn verði almennt mjög sýnilegur þar sem hann mun liggja um opið landslag.
Í Dyrhólahverfi og Reynishverfi er landnotkun helst skilgreind sem landbúnaðarsvæði í aðalskipulagi Mýrdalshrepps. Þar fara valkostir nýs vegar að stórum hluta um bújarðir í einkaeigu og einnig að hluta um svæði á náttúruminjaskrá.
Allur Mýrdalshreppur, og þar með allt framkvæmdasvæðið, er innan Kötlu jarðvangs (Geopark). Hlutverk jarðvanga UNESCO er að stuðla að verndun mikilvægra jarðminja, náttúru og menningararfleifð og að íbúar jarðvanganna tileinki sér ábyrgð á ofantöldu auk þess sem áhersla er lögð á að efla innra hagkerfi viðkomandi svæða.
Á þessum slóðum eru þekkt náttúruundur sem mörg hver njóta verndar, m.a. vegna sérstæðra jarðmyndana. Loftsalahellir, Reynisdrangar og Reynisfjall eru innan sama svæðisins á náttúruminjaskrá. Í nágrenni fyrirhugaðrar framkvæmdar eru auk þess svæði sem njóta verndar vegna fuglalífs og annars lífríkis:
- Dyrhólaey er friðlýst sem friðland vegna fuglalífs og náttúrufegurðar. Umferð um svæðið er stjórnað til að draga úr áhrifum á varp.
- Dyrhólaós er á náttúruminjaskrá vegna sjávarleirna með sérstæðum lífsskilyrðum. Ósar eru mikilvægir fæðuöflunarstaðir vaðfugla en þar finnast gjarnan leirur sem eru orkuuppspretta fyrir fuglalíf.
- Austur af Vík eru Víkurhamrar. Þar er mikil fýlabyggð og telst svæðið vera alþjóðlega mikilvæg sjófuglabyggð.
- Í hlíðum Reynisfjalls, Víkurmegin, er hvannastóð sem er á náttúruverndaráætlun sem búsvæði brekkubobba, sjaldgæfrar sniglategundar hér á landi.
Í drögum Vegagerðarinnar að matsáætlun framkvæmdarinnar segir að hún kunni að hafa áhrif á búsvæði og fæðuöflunarsvæðum fugla auk óbeinna áhrifa á nærumhverfi. Unnin verður úttekt á fuglalífi og gerð grein fyrir niðurstöðum þeirrar rannsóknar á síðari stigum umhverfismatsferlisins, þ.e. í frummatsskýrslu.
Jóhann Óli Hilmarsson vann skýrslu um fuglalífið við Dyrhólaós árið 2013 og benti sú rannsókn til að vegstæði með bökkum Dyrhólaóss gæti haft varanleg og skaðleg áhrif á fuglalíf við ósinn. „Margir fuglar nota túnin og mýrarnar kringum ósinn til fæðuöflunar og sækja svo á ósinn til hvíldar eða flýja þangað, ef þeir verða fyrir styggð. Í frétt á heimasíðu Fuglaverndar er bent á að skýrslu Jóhanns Óla sé „því miður ekki getið“ í drögum Vegagerðarinnar.
Opnuð hefur verið vefsjá þar sem hægt er að nálgast ýmsar upplýsingar sem tengjast umhverfismatinu og koma á framfæri ábendingum og athugasemdum. Einnig má senda skriflegar athugasemdir eða ábendingar um drög að tillögu að matsáætlun á netfangið erla@vso.is. Frestur til að senda inn ábendingar er til og með 1. febrúar.
Landvernd í samvinnu við Náttúruverndarsamtök Suðurlands (NSS) og heimamenn í Mýrdalshreppi, efna til fræðslufundar um áformaðar vegaframkvæmdir hringvegar í Mýrdal í dag, föstudag. Fundurinn fer fram á netinu og hefst klukkan 11.45.
Meðal þeirra sem taka til máls eru Tryggvi Felixson formaður Landverndar og Þorbjörg Sævarsdóttir, verkfræðingur hjá Vegagerðinni.
Hér er hægt að skoða viðburðinn á Facebook.