Tekjur íslenskra fjölmiðla drógust saman um 7 prósent á milli áranna 2018 og 2019 og námu samanlagðar tekjur þeirra tæplega 25 milljörðum. Rúmur fjórðungur allra tekna fjölmiðla á Íslandi árið 2019 rann til Ríkisútvarpsins og um 85 prósent af samanlögðum tekjum fjölmiðla runnu til fimm stærstu aðilanna á fjölmiðlamarkaði.
Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Hagstofu Íslands, sem birti samantekt um þróun á tekjum fjölmiðla og þróun íslenska auglýsingamarkaðarins á vef sínum í morgun. Athygli vekur að Hagstofunni reiknast til að rúmlega fjórar af hverjum tíu krónum sem varið var í auglýsingar runnu til erlendra aðila, eða 41 prósent. Þetta hlutfall hefur aukist hratt á undanförnum árum og aldrei verið hærra í tölum Hagstofunnar.
Í umfjöllun Hagstofunnar segir að það sé margvíslegum erfiðleikum bundið að henda reiður á þetta, þar sem erlendir auglýsingamiðlar skuldi íslenskum yfirvöldum upplýsingar um greiðslur sem til þeirra renna vegna birtingar. Hagstofan áætlar þó að um 7,8 milljarðar króna vegna kaupa á auglýsingum hafi runnið úr landi á síðasta ári, en 11,5 milljarðar farið til innlendra fjölmiðla og kvikmyndahúsa.
Talsverður hluti til Facebook og Google
Hagstofan segir að án efa megi rekja samdrátt í auglýsingatekjum íslenskra fjölmiðla til auglýsingabirtinga á erlendum vefsíðum og miðlum. Þó verði einnig að hafa hugfast að talsverður hluti þess fjár sem greiddur var til erlendra aðila sé vegna auglýsinga sem beint var að erlendum neytendum, ekki síst í tengslum við ferðamennsku.
Því geti þær krónur sem fari úr landi ekki reiknast alfarið sem tekjutap innlendra fjölmiðla. Hagstofan segir þó einnig að engar upplýsingar séu tiltækar um slíka skiptingu.
Þó megi gera ráð fyrir að umtalsverður hluti af þeim auglýsingakrónum sem fari úr landi renni til bandarísku stórfyrirtækjanna Facebook og Google, en upplýsingar um rúmlega fjögurra milljarða króna greiðslukortaviðskipti sýni að um 90 prósent hafi runnið til þessara tveggja aðila.
Hlutdeild RÚV í auglýsingatekjum 17 prósent
Fram kemur í tölum Hagstofunnar að hlutdeild Ríkisútvarpsins í auglýsingatekjum hafi hækkað úr 16 prósentum og upp í 17 prósent á milli áranna 2018 og 2019. Hlutur RÚV í samanlögðum auglýsingatekjum ljósvakamiðla hækkaði úr 40 upp í 44 prósent, en árið 2019 tók RÚV til sín 38 prósent af auglýsingatekjum í útvarpi og 49 prósent af auglýsingatekjum í sjónvarpi. RÚV auglýsir ekki á vefmiðli sínum.
Hlutur Ríkisútvarpsins í auglýsingatekjum hefur farið lítillega lækkandi frá árinu 1997, þegar hlutdeildin var 20 prósent, en á árunum fyrir efnahagshrunið 2008 var hlutdeild RÚV í heildarauglýsingakökunni mun lægri.
Hlutdeild RÚV af öllum tekjum fjölmiðla á Íslandi var samkvæmt Hagstofunni 26 prósent árið 2019, á meðan að einkareknir fjölmiðlar taka til sín 74 prósent af tekjunum á fjölmiðlamarkaði.
Vefmiðlar með um 7 prósent af tekjunum
Samkvæmt tölum Hagstofunnar voru íslenskir vefmiðlar með um sjö prósent af öllum tekjum íslenskra fjölmiðla árið 2019. Tekjur sjónvarpsmiðla eru sem fyrr stærsti hluti samanlagðra tekna fjölmiðla, eða rúmir 12,6 milljarðar af þeim tæpu 25 milljörðum sem féllu til íslenskra fjölmiðla árið 2019.
Tæpur fjórðungur rann til dagblaða og vikublaða, um fjórtán prósent til útvarps og tæp sjö prósent til tímarita og annarra blaða.