Rósa Björk Brynjólfsdóttir þingmaður Samfylkingarinnar sækist eftir því að leiða lista flokksins í Suðvesturkjördæmi í komandi alþingiskosningum. Frá þessu greinir hún í tilkynningu.
Hún er núverandi þingmaður kjördæmisins og leiddi lista Vinstri grænna þar í kosningunum árið 2017. Rósa Björk sagði sig úr VG í september á síðasta ári og var utan flokka í nokkra mánuði áður en hún gekk til liðs við þingflokk Samfylkingarinnar um miðjan desember.
„Ég hef fulla trú á að stefna og sýn Samfylkingarinnar eigi mikinn hljómgrunn hjá kjósendum í Suðvesturkjördæmi, sem og annars staðar og mun ég leggja mig alla fram um að vinna vel í þágu þeirra, nú sem áður. Ég hlakka til að takast á við krefjandi en spennandi verkefni á næsta kjörtímabili,“ segir Rósa Björk í tilkynningu.
Fer ekki fram í Reykjavík
Þingmaðurinn tók þátt í umtalaðri leynilegri skoðanakönnun Samfylkingarinnar í Reykjavík nýlega. Samkvæmt niðurstöðum þeirrar könnunar, sem sagt var frá að hluta í Fréttablaðinu í síðustu viku, var hún á meðal þeirra fimm einstaklinga sem flestir þátttakendur vildu sjá skipa efstu sæti lista flokksins í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur.
Nú er hins vegar ljóst að hún mun ekki fara fram í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæmanna, heldur sækjast eftir efsta sætinu á lista flokksins í Suðvesturkjördæmi, fjölmennasta kjördæmi landsins.
Guðmundur Andri Thorsson þingmaður leiddi lista Samfylkingarinnar þar í síðustu alþingiskosningum. Samfylkingin fékk einungis einn þingmann kjörinn í kjördæminu og 12,15 prósent atkvæða.