Mikil áhætta gæti skapast í rekstri kerfislega mikilvægra banka ef þeir eru í einkaeigu, sökum takmarkaðrar ábyrgð eigenda þeirra og tryggingar um að ríkið komi þeim til bjargar þegar illa gengur. Einnig er mikilvægt að traust sé til bankakerfisins og sem minnst óvissa sé um mat á eignum bankans þegar á að selja hann.
Þetta eru meðal þess sem Gylfi Zoega, hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands, og Ásgeir Brynjar Torfason, doktor í fjármálum, minnast á í nýjasta tölublaði Vísbendingar, sem kom út á föstudaginn. Í blaðinu fara Gylfi og Ásgeir Brynjar yfir eignarhald og rekstur viðskiptabanka, auk þess sem ýmsir áhættuþætti fyrirhugaðrar sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka eru nefndir.
Breytt regluverk hjálpi til
Samkvæmt Gylfa er ekki nema von að margir hrökkvi við nú þegar minnst er á einkavæðingu banka, miðað við reynsluna af bönkum í einkaeigu á tímabilinu 2003-2008 og umrótinu sem þeir ollu. Þeir hafi lánað tengdum aðilum, keypt hlutabréf í fyrirtækjum sem einnig áttu hlutabréf í þeim sjálfum, fölsuðu eigið fé með sölu á hlutabréfum til starfsfólks og tóku gríðarleg lán erlendis til þess meðal annars að fjármagna erlendar fjárfestingar tengdra aðila.
Þó segir hann að regluverkið sem komið hefur verið á síðustu árin girði fyrir mikið af því sem gerðist árin fyrir hrun. Nú sé takmörk á lánveitingum í erlendum gjaldmiðlum, auknar eiginfjárkröfur og hömlur á fjárfestingum erlendra aðila í skráðum skuldabréfum, en allt þetta hefur gert fjármálakerfið stöðugra.
Of mikil áhætta í einkavæddum bönkum
Þrátt fyrir þetta nefnir Gylfi að einkavæðing kerfislegra mikilvægra banka sé viðkvæmt ferli, og að vissan um að ríkið komi þeim til bjargar með lausafé þegar illa gengur geti skapað freistnivanda. Einnig bendir hann á nýja rannsókn sem sýnir fram á að takmörkuð ábyrgð stjórnenda og ráðandi eigenda sé stærsta orsök þess að bankar taki of mikla áhættu í rekstri sínum.
Gylfi bætir þó við að ríkisrekstur bankanna gæti einnig aukið hættu á spillingu innan fjármálakerfisins, þar sem stjórnmálamenn gætu hlutast til í ákvörðunum um lánveitingar. Aftur á móti hafi rekstur ríkisbankanna tveggja gengið vel síðustu ár og ekki hafi komið neinar ábendingar um að viðskiptavinum sé mismunað.
Mikilvægt að verðmeta rétt
Ásgeir Brynjar fer yfir mikilvægi þess að verðmeta eignir banka, það er að segja lánasöfn þeirra, rétt ef selja á þá fyrir rétt verð. Í yfirstandandi heimsfaraldri sé hins vegar erfitt að meta raunverulegt virði ýmissa lána, þar sem óvíst sé hverjar af eignum bankanna tapast og hverjum af lánþegum þeirra verða veittir frekari greiðslufrestir og hve lengi.
Einnig segir Ásgeir Brynjar að traust til kerfisins sé algjört lykilatriði, og minnist á að mikill meirihluti landsmanna virðist andvígur sölu bankanna. Því til stuðnings bendir hann á skoðanakönnun frá því í febrúar á síðasta ári þar sem 19 prósent aðspurðra voru fylgjandi því að ríkið seldi eignarhlut sinn í bönkunum.
Þá minnist Ásgeir einnig á að vegna lágra vaxta liggi fyrir á markaði að fjármögnunarkostnaður ríkisins fari lækkandi. Í slíku umhverfi sé fórnarkostnaðurinn af því að skulda mun minni en áður og því sé sjálfbærni opinberra skulda ekki áhyggjuefni.