Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, gagnrýndi undir liðnum störf þingsins á Alþingi í vikunni útfærslu á úrræði stjórnvalda í formi sérstaks styrks til íþrótta- og tómstundastarfs barna sem koma frá tekjulágum heimilum.
„Atvinnuleysi er í sögulegu hámarki og á ákveðnum svæðum er einn af hverjum fjórum einstaklingum án atvinnu. Inni á heimilum atvinnuleitenda búa börn og það er stjórnvalda að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að vernda þau og mögulega fjölskyldu þeirra vegna framfærslu. Ætlunin var að tryggja að öll börn óháð efnahag gætu stundað íþróttir og aðrar tómstundir síðastliðið sumar,“ sagði hún.
Benti Helga Vala á að þau í velferðarnefnd hefðu við upphaf haustþings fjallað um stöðu mála á Suðurnesjum og fengið þau svör að lítið væri um að umsóknir um þessa styrki væru að berast. Ástæðan hafi verið sögð ókunn.
Níu prósent hafa nýtt sér úrræðið
Stundin fjallaði um málið í vikunni en í frétt miðilsins kom fram að aðeins 430 umsóknir hefðu borist Reykjavíkurborg vegna þessara sérstöku styrkja til íþrótta- og tómstundastarfs barna frá tekjulágum heimilum. Tæplega 4.800 börn ættu hins vegar rétt á slíkum styrk.
Vísaði þingmaðurinn í frétt Stundarinnar og sagði að einungis 9 prósent þeirra barna sem búa á tekjulágum heimilum hefðu sótt um þennan styrk. „Ástæðan virðist vera alger forsendubrestur við útfærslu þessa úrræðis af hálfu stjórnvalda. Það er nefnilega þannig að hæstvirtur félags- og barnamálaráðherra virðist hafa tekist að gera flækjustigið svo hátt að þau börn sem búa við fátækt geta ekki nýtt sér þetta.
Sú aðferð ráðherra að gera fátæku fólki að greiða æfinga- og tómstundagjöld úr eigin vasa og þurfa svo að sækja um endurgreiðslu er einfaldlega ekki eitthvað sem fátækt fólk, sem þarf að velja hvernig það á að koma börnunum sínum í háttinn án þess að þau séu sársoltin, getur gert. Þetta, herra forseti, er birtingarmynd af eindæma skilningsleysi stjórnvalda á þeim aðstæðum sem fjöldi fjölskyldna býr við á Íslandi í dag,“ sagði hún.