Markaðsvirði veðsettra hlutabréfa í Kauphöll Íslands var 183,4 milljarðar króna um síðustu áramót. Það er 11,7 milljörðum króna minni veðsetning en var ári áður, í lok árs 2019. Markaðsvirði veðsettra bréfa náði eftirhrunshámarki þá, þegar það var 195,1 milljarðar króna.
Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Nasdaq Iceland, sem rekur íslensku Kauphöllina.
Framan af síðasta ári lækkaði markaðsvirði veðsettra hlutabréfa skarpt, og um mitt síðasta ár var heildarvirði þeirra orðið 157,2 milljarðar króna. Það hafði þá lækkað um næstum fimmtung á hálfu ári. Heildarmarkaðsvirði allra skráðra bréfa hafði þá jafnað sig eftir mikla dýfu í vor – úrvalsvísitalan lækkaði um 22,5 prósent frá 21. febrúar til 9. mars – og var nálægt því það sama og í lok árs 2019.
Markaðurinn braggaðist hins vegar hratt þegar leið á árið og þegar það var gert upp hafði markaðsvirði skráðra fyrirtækja aukist um 312 milljarða króna og var 1.562,8 milljarðar króna um síðustu áramót.
Lagabreytingar hafa girt fyrir markaðsmisnotkunina
Það að taka lán fyrir stórum hluta af hlutabréfakaupum er kallað að „gíra sig upp“. Gíruð hlutabréfakaup voru mjög algeng á árunum fyrir hrun, og bjó meðal annars til mikla kerfislega áhættu hérlendis. Stór fjárfestingarfélög, sem áttu meðal annars stóra hluti í bönkum, fengu þá lánaðar háar fjárhæðir með veði í bréfum, til að kaupa önnur hlutabréf. Þegar eitthvað súrnaði varð keðjuverkun vegna krosseignarhalds.
Auk þess lánuðu íslenskir bankar fyrir hlutabréfakaupum í sjálfum sér með veði í bréfunum sjálfum. Með því var öll áhættan hjá bönkunum sjálfum ef illa færi. Tilgangurinn var að skapa markað fyrir bréf sem engin eðlileg eftirspurn var eftir, og þar með til að hafa áhrif á eðlilega verðmyndun. Hæstiréttur Íslands hefur komist að þeirri niðurstöðu í málum gegn öllum gömlu stóru bönkunum þremur að þetta atferli hafi falið í sér markaðsmisnotkun.
Tekið hefur verið fyrir þessa hegðun með lagabreytingum á undanförnum árum.
Líklegt að veðköll hafi átt sér stað
Eftir að einkafjárfestar fóru að gera sig meira gildandi á íslenskum hlutabréfamarkaði á síðustu árum varð breyting á umfangi gíraðra hlutabréfakaupa. Frá því í lok september 2018 og fram til loka desember 2019 jókst markaðsvirði veðsettra hlutabréfa um 72 milljarð króna.
Á árinu 2019 einu saman jókst hún um 66 milljarða króna og ef síðasti ársfjórðungur ársins 2019 er skoðaður einn og sér þá jókst hún um 25 milljarða króna, eða um 15 prósent.
Líklegt er að eitthvað hafi verið um veðköll þegar hlutabréf, veðin fyrir gíruðu lánunum, féllu skarpt í verði í fyrravor. Þá ályktun má meðal annars draga út frá því að hlutfall af heildarmarkaðsvirði hlutabréfa sem voru veðsett dróst saman úr 15,6 prósent í lok árs 2019 í 12,87 prósent um mitt síðasta ár þrátt fyrir að heildarmarkaðsvirðið hafi verið nánast það sama.
Mikil hækkun á hlutabréfaverði síðustu mánuði ársins lækkaði þetta hlutfall svo enn frekar.