Hámarksálag sem fjarskiptafyrirtæki mega leggja á umframnotkun reikisímtala í farsíma mun lækka úr 0,0079 í 0,0076 evrur fyrir hverja mínútu í ár, eða um tæp fjögur prósent, samkvæmt reglugerð framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins sem er dagsett 14. desember 2020.
Fyrirhugað er að taka reglugerðina upp í samningunum um Evrópska efnahagssvæðið (EES) sem Ísland er aðili að, og í kjölfarið verður hún leidd í landsrétt hérlendis.
Drög að reglugerðinni hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda og umsagnarfrestur rennur út um miðja næstu viku. Verði reglugerðin samþykkt mun hún samstundis öðlast gildi.
Reikisímtöl eru símtöl viðskiptavina erlendis. Sérstök reikigjöld, sem áður höfðu verið afar kostnaðarsöm fyrir neytendur, voru afnumin í Evrópu í júní 2017 en með ákveðnum takmörkunum. Mikil notkun á þekktum efnisveitum á borð við Spotify, Netflix og annarra slíkra sem nota mikið gagnamagn getur leitt til aukakostnaðar. Og það er sá aukakostnaður sem reglugerðin nær til.
Þegar ferðamönnum fækkaði úr tæpum tveimur milljónum árið 2019 í tæplega hálfa milljón í fyrra vegna COVID-19 drógust reikitekjur þeirra skarpt saman. Farsímatekjur Sýnar drógust til a mynda saman um 275 milljónir króna á fyrstu níu mánuðum síðasta árs og var sá samdráttur að mestu rakinn til þess að reikitekjur lækkuðu um 60 prósent.
Síminn, hitt fjarskiptafyrirtækið sem er skráð á markað, fór ekki varhluta af þessari þróun heldur. Tekjur hans vegna farsímanotkunar drógust saman um 198 milljónir króna á fyrstu níu mánuðum síðasta árs og var sá samdráttur að uppistöðu vegna þess að reikitekjur hafa dregist saman samhliða því að ferðatakmarkanir hafa gert það að verkum að ferðamenn koma ekki lengur til landsins svo nokkru nemi.