Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur birt í samráðsgátt stjórnvalda drög að breytingum á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun (rammaáætlun) sem taka á meðferð vindorkukosta innan hennar. Lagt er til að sérstaklega verði kveðið á um vindorku í lögunum til að taka af allan vafa um að slíkir virkjunarkostir, sem eru 10 MW eða meira að uppsettu afli, heyri undir lögin. Jafnframt er lagt til að vindorkukostir sæti vegna séreðlis vindorkunnar annarri málsmeðferð en virkjunarkostir í vatnsafli og jarðvarma. Þannig er jafnframt lögð til flokkun virkjunarkosta til vindorkunýtingar með tilliti til staðsetningar í landslagi og náttúru Íslands og sé fyrirhugað vindorkuver utan ákveðinna svæða sæti það ekki takmörkunum rammaáætlunar.
Markmið lagabreytinganna eru að gera leyfisveitingarferli vegna nýtingar vindorku skilvirkara og að forgangsraða landsvæðum svo að ná megi fram jafnvægi milli mikilvægra umhverfis-, samfélags- og efnahagslegra þátta.
Slíkt verði í meginatriðum gert með skýrri opinberri stefnumörkun um nýtingu vindorku og staðsetningu vindorkuvera með tilliti til flokkunar lands . Gert er ráð fyrir að sú stefnumörkun komi til umfjöllunar og samþykktar Alþingis samhliða frumvarpinu en í formi tillögu til þingsályktunar. „Með aðlögun gildandi laga að vindorku sem orkukosts er reynt að stuðla að því að vindorkuver byggist síður upp á viðkvæmustu svæðum landsins auk þess sem reynt hefur verið að koma til móts við hið sérstaka eðli vindorkunnar með þeim hætti að aukin skilvirkni, einföldun og fyrirsjáanleiki verði í regluverki við undirbúning slíkra verkefna,“ segir í greinargerð frumvarpsdraganna sem nú hafa verið lögð fram til kynningar.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að „setja þurfi lög um vindorkuver ásamt því að vinna með sveitarfélögum leiðbeiningar um skipulagsákvarðanir og leyfisveitingar“. Í lok árs 2019 var skipaður starfshópur þriggja ráðuneyta til að vinna að tillögum um hvernig best væri að haga málefnum vindorku sem orkunýtingarkosts hér á landi og byggir frumvarpið á niðurstöðum hans auk sjónarmiða ýmissa hagaðila.
Í skýrslu starfshópsins er lagt til að landssvæði verði flokkuð í þrjá flokka með tilliti til hagnýtingar vindorku:
Flokkur 1.
Mælt yrði fyrir um að ekki yrðu byggð vindorkuver á landssvæðum í þessum flokki og að stjórnvöldum væri óheimilt að veita leyfi fyrir slíkum virkjunarkostum eða taka þá til meðferðar.
Flokkur 2.
Þar féllu undir svæði sem gætu í eðli sínu almennt verið viðkvæm fyrir uppbyggingu vindorkuvera eða annarri mannvirkjagerð, en virkjunarkostir í vindorku innan slíkra svæða gætu þó komið til greina að uppfylltum tilteknum skilyrðum, meginreglum og viðmiðum og að undangengnu mati verkefnisstjórnar rammaáætlunar.
Flokkur 3.
Þar yrðu um að ræða landsvæði sem hvorki teldust falla í flokk 1 né í flokk 2. Ákvörðunarvald um framhald virkjunarkosta á svæði í flokki 3 yrði þá hjá sveitarfélagi og öðrum stjórnvöldum að uppfylltum almennum reglum og skipulagsgerð einstakra sveitarfélaga, lögbundnu umhverfismati o.s.frv.
Í greinargerð frumvarpsdraganna kemur fram að nágrannalönd okkar hafa farið ýmsar leiðir við meðhöndlun vindorku. Í meginatriðum hefur verið um tvær leiðir að ræða; annars vegar hin svonefnda norska leið og hins vegar skoska leiðin.
Norska leiðin umdeild
Norska leiðin byggðist á greiningu og kortlagningu á stærstum hluta Noregs með tilliti til vindorkunýtingar. Áhersla var í fyrstu lögð á að greina þau landssvæði sem útilokuð voru frá vindorkunýtingu. Síðan var unnið að því að greina þau landssvæði sem hugsanlega gætu hentað fyrir slíka uppbyggingu. Þau landsvæði voru að lokum skoðuð enn frekar með tilliti til þess hvaða svæði innan þeirra gætu hentað vel fyrir uppbyggingu vindorkuvera. Það vindorkukort sem varð til eftir þessa vinnu var í framhaldinu kynnt í Noregi og var ekki óumdeilt, sérstaklega meðal sveitarfélaga. Hafa norsk stjórnvöld því hafið endurskoðun á aðferðarfræðinni.
Flokkun skosku leiðarinnar
Sú leið sem Skotar fóru byggðist á þeirri leið að flokka landssvæði í þrjá flokka: 1) svæði þar sem vindorkuver eru ekki talin ásættanleg, 2) svæði með verulega vernd eða sérstöðu þar sem skoða þarf einstök tilvik með ítarlegum hætti áður en vindorkuver geta komið til álita og 3) svæði með möguleika á vindorkuverum en þó alltaf háð mati með tilliti til skilgreindra viðmiða.
Í skýrslu starfshópsins er lagt til að við breytingar á lögum um rammaáætlun verði í grundvallaratriðum horft til skosku leiðarinnar og hún aðlöguð að íslenskum aðstæðum.
Lög um rammaáætlun áttu upphaflega eingöngu að ná til virkjunarkosta í vatnsafli og jarðhita en við meðferð frumvarpsins á Alþingi var heiti laganna, gildissviði og nokkrum greinum frumvarpsins breytt þannig að þau yrðu ekki einungis bundin við vatnsafl og jarðhita. Hins vegar hafa komið fram sjónarmið um að lögin gildi ekki um vindorku og að fjalla þyrfti með skýrari hætti um þennan virkjunarkost í þeim.
Rammaáætlun föst í þinginu
Vindorkunýting fellur að mati umhverfis- og auðlindaráðuneytisins undir rammaáætlun. Verkefnisstjórn rammaáætlunar hefur á grundvelli laganna fjallað um tvo virkjanakosti í vindorku í þriðja áfanga rammaáætlunar; Búrfellslund (200 MW) og Blöndulund (100 MW). Niðurstaða verkefnisstjórnar var á þá leið að Búrfellslundur færi í biðflokk en Blöndulundur í orkunýtingarflokk. Þingsályktunartillaga sem byggir á niðurstöðum verkefnisstjórnar í 3. áfanga rammaáætlunar hefur hins vegar enn sem komið er ekki hlotið endanlega umfjöllun Alþingis. Í 4. áfanga rammaáætlunar, sem nú er í vinnslu, hafa um 34 virkjunarkostir í vindorku komið til meðferðar hjá verkefnisstjórn.
Óþrjótandi auðlind
Sérstaða vindorkunnar sem virkjunarkosts er nokkur. Sem auðlind er hann nokkurn veginn óþrjótandi og að sama skapi ekki jafn staðbundinn og aðrir og hefðbundnari virkjanakostir. Þá krefjast vindorkuver almennt minni undirbúningstíma, mun fljótlegra er að reisa slík mannvirki, auk þess sem hægt er að reisa þau í skilgreindum áföngum í samræmi við eftirspurn.
„Telja verður að vindorkuver geti í mörgum tilvikum haft í för með sér minna óafturkræft rask en hefðbundnari orkukostir, ef rétt er að staðið, enda er auðveldara að fjarlægja slík mannvirki að stærstum hluta ásamt flestum öðrum ummerkjum af virkjunarstað, sé tekin ákvörðun um að hætta starfsemi,“ segir í greinargerð frumvarpsdraganna. „Segja má því að nýting vindorku á tilteknu landssvæði bindi ekki hendur framtíðarkynslóða með jafn afgerandi hætti og oft er þegar um er að ræða nýtingu á hinum hefðbundnari orkukostum.“
Ákjósanlegt að nýta á Íslandi
Hagkvæmni vindorku er að aukast hratt og áhugi á hagnýtingu hennar fer vaxandi. Rekstur einstakra vindorkustöðva á Íslandi í tilraunaskyni hefur verið umfram væntingar og land- og veðurfræðilegar aðstæður ákjósanlegar til nýtingar vindorku á Íslandi.
Þar sem virkjunarkostir í vindorku eru ekki jafn bundnir við ákveðna staðsetningu eins og hinir hefðbundnu virkjunarkostir gefur það stjórnvöldum mikilvægt tækifæri til að móta opinbera stefnu um það hvar helst eigi að staðsetja slíka starfsemi og hvar ekki, til að reyna eins og kostur er að lágmarka neikvæð umhverfisleg áhrif af henni, segir í greinargerðinni.
Hlutverk verkefnisstjórnar
Verkefnisstjórn rammaáætlunar gerir tillögu að flokkun framkominna virkjunarkosta hverju sinni í verndarflokk, biðflokk og orkunýtingarflokk. Með lagabreytingunni yrði hlutverk verkefnisstjórnar hvað vindorkukosti varðar í fyrsta lagi að yfirfara alla slíka virkjunarkosti eftir að Orkustofnun hefur farið yfir þá og greina landssvæði sem áhugi er að reisa þá á. Ef staðsetningin er innan svæða í flokki 1 þá vísar verkefnisstjórn slíkum virkjunarkostum frá. Sé staðsetningin hvorki á svæði í flokki 1 né í flokki 3, þá tekur verkefnisstjórn slíka kosti til skoðunar og mats út frá meginreglum og viðmiðum sem koma fram í þingsályktun um stefnu stjórnvalda um nýtingu vindorku. Telji verkefnisstjórn hins vegar eftir skoðun sína að virkjunarkostur falli hvorki undir flokk 1 né flokk 2, þá tilkynnir hún ráðherra um þá niðurstöðu sína og gert er ráð fyrir að slíkir virkjunarkostir sæti ekki frekari málsmeðferð samkvæmt lögum um rammaáætlun og geti farið áfram í hefðbundið leyfisveitingarferli.
Eins og verið hefur mun hlutaðeigandi virkjanakostur þurfa að fara í gegnum hefðbundna opinbera leyfisveitingarferla og mæta þeim kröfum sem þar er að finna, t.d. í lögum um mat á umhverfisáhrifum, raforkulögum, skipulagslögum og mannvirkjalögum. Hlutaðeigandi sveitarfélag þarf einnig að gera ráð fyrir slíkum virkjunarkosti og tilheyrandi mannvirkjum í skipulagi sínu því frumvarpið gerir ekki ráð fyrir því að sveitarfélögum beri sjálfstæð skylda til að aðlaga skipulagsáætlanir sínar að virkjanakostum í vindorku eins og gildir um hina hefðbundnu orkukosti, vatnsafl og jarðhita, jafnvel þó slík verkefni hljóti framgang samkvæmt lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun.
Frumvarpsdrögin má nálgast hér og umsagnarfrestur er til 5. febrúar.