Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, óskaði eftir því að eiga orðastað við Brynjar Níelsson, þingmann Sjálfstæðisflokksins, um bann við því að afneita helförinni undir liðnum störf þingsins á Alþingi í dag.
„Eins og þingmenn og þjóð þekkja eflaust hefur slíkt mál verið lagt fram á þingi, bann og refsing við að segja heimskulega og jafnvel skaðlega hluti. Liggur ekki hundurinn þar grafinn að slík tjáning sé mögulega skaðleg? Það finnst sumum greinilega, en ég er hins vegar á þeim sokkunum að meðalið sé skaðlegra, að bann við slíkri tjáningu sé skaðlegra,“ sagði Björn Leví.
Tilefnið var nýtt frumvarp sem lagt hefur verið fram á Alþingi þar sem segir að hver sá sem opinberlega afneiti, gróflega geri lítið úr, eða reyni að réttlæta eða samþykkja þjóðarmorð sem framin voru á vegum þýska nasistaflokksins í síðari heimsstyrjöldinni skuli sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum.
„Má sem sagt banna afneitun helfararinnar á þingi en ekki annars staðar?“
Vísaði Björn Leví í orð Brynjars þar sem hann sagði að nú hefðu það ekki einungis verið „þjóðernissósíalistar sem stunduðu þjóðarmorð í stríðinu og á árunum fyrir og eftir. Aðrir sósíalistar gáfu þeim ekkert eftir, til að mynda þeir sem stjórnuðu gömlu Sovétríkjunum.“
Sagði Björn Leví Brynjar ýja að því með kaldhæðnislegum tón að frumvarpið ætti kannski að taka einhverjum breytingum þannig að öllum yrði refsað fyrir að fara með augljósa þvælu.
„Ég furða mig á þessu frumvarpi eins og háttvirtur þingmaður Brynjar Níelsson en það vakti með mér enn meiri furðu í gær þegar forsætisnefnd afgreiddi breytingar á reglum um meðferð þingerinda þar sem bannað verður að birta umsagnir sem kunna að vera í andstöðu við lög, góða reglu og velsæmi, en þær reglur voru settar í kjölfar þess að umsögn barst allsherjar- og menntamálanefnd þar sem sagt var að helförin hefði ekki gerst,“ sagði hann.
Sagðist Björn Leví ekki skilja þessa afstöðu vegna þess að Brynjar hefði stutt breytingar á þessum reglum en hefði hins vegar verið andvígur frumvarpi sem var efnislega sambærilegt. „Má sem sagt banna afneitun helfararinnar á þingi en ekki annars staðar? Er það kannski bara umfang refsingarinnar sem er vandamálið? Vill hv. þingmaður sem sagt bara beita ritskoðun til að koma í veg fyrir birtingu slíkra ummæla?“ spurði hann.
Segir þetta ekki sambærilegt
Brynjar tók til máls undir sama lið á þingi í dag og svaraði Birni Leví. „Mér hefði fundist eðlilegra að forseti sjálfur svaraði um þetta. Í mínum huga er þetta ekki alveg sambærilegt. Ég get haft mínar reglur á mínu heimili, hvað er viðhaft þar og hvað er í samræmi við viðmið og reglur. Það er mikill munur í mínum huga þegar ríkisvaldið, sem hefur þvingunarvald, ætlar að beita refsingum til þess hugsanlega að koma í veg fyrir eitthvað sem gæti verið skaðlegt, einhver tjáning. Það er margs konar tjáning skaðleg.“
Hann sagðist enn fremur sjálfur alltaf hafa barist gegn hvers kyns ofstæki og skipti engu máli í hans huga hvort menn kenndu sig við þjóðernissósíalisma eða alþjóðahyggjusósíalisma eða sósíalisma sem er tengdur ákveðnum mönnum í fortíðinni, og ef menn gera lítið úr voðaverkum þeirra, sem margir gerðu í dag.
„Þá er lausnin ekki sú að beita þvingunarvaldi ríkisins og refsingu. Ég vil beita rökum. Hvað við höfum hér í þinginu, hvað við ætlum að birta, er í mínum huga gjörólíkt mál. Ég er ekki að mæla með því almennt að við beitum miklum þrýstingi eða ritskoðunum en við getum samt ákveðið í okkar félagi, í okkar hópi, hvernig við höfum slíka hluti.
En auðvitað má alveg gagnrýna þetta. Ég held að forseti sjálfur gæti miklu betur svarað um þetta. En ég get alveg tekið undir það að við þurfum að hafa einhverjar siðlegar viðmiðanir um það hvað við birtum hér á þinginu í þessum efnum sem öllum öðrum. Ég ætla ekki að fara að beita refsingum. Ég vil beita rökum almennt og þess vegna er ég í pólitík, ég er að berjast við öfganna alla daga, meira að segja hér á þinginu,“ sagði hann að lokum.