Byssukúlur fundust í hurðinni á bíl í eigu fjölskyldu Dags B. Eggertssonar borgarstjóra í síðustu viku, samkvæmt heimildum Kjarnans. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu neitar að staðfesta þetta og segist ekki ætla að veita frekari upplýsingar en komu fram um málið í tilkynningu í morgun, að svo stöddu.
Í tilkynningu lögreglu sagði að verið væri að rannsaka hvort skotvopni hefði verið beitt er skemmdir voru unnar á bílnum og að einnig væri rannsakað hvort málið tengdist árás sem gerð var á skrifstofur Samfylkingarinnar í Sóltúni í síðustu viku. Málið væri litið mjög alvarlegum augum.
Kjarninn spurði lögreglu meðal annars að því hvort kúlurnar sem fundust í bílhurð borgarstjóra hefðu verið af sömu gerð og fundust á skrifstofum Samfylkingarinnar, en fram hefur komið að þar hafi fundist tvær útflattar blýkúlur, að líkindum 22 kalíbera byssukúlu.
„Það fannst útflatt blý og menn frá tæknideild lögreglu reiknuðu með því að að þetta væru 22 kalíbera kúlur,“ segir Karen Kjartansdóttir framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar við mbl.is, en fram kom í sömu frétt að talið væri að loft- eða gasbyssa hefði verið notuð við verknaðinn, en í slíkar byssur er hægt að setja smærri byssukúlur.
Myndband sem borgarfulltrúi kom að fordæmt
Á vef Ríkisútvarpsins segir að lögregla hafi vaktað heimili borgarstjóra um helgina, en borgarstjóri býr í miðborg Reykjavíkur.
Í ljósi atburðanna sem lögregla greindi frá í dag hefur myndband sem birt var á YouTube í desembermánuði, en í myndbandinu var heimili borgarstjóra sýnt og sömuleiðis bílastæði hans. Borgarstjóri var í sama mund sakaður um spillingu. Vigdís Hauksdóttir borgarfulltrúi Miðflokksins las inn á myndbandið, sem var á vegum hóps sem kallar sig Björgum miðbænum. Bolli Kristinsson athafnamaður, oft kenndur við Sautján, hefur verið í forsvari fyrir hópinn.
Borgarstjóri sagði sjálfur að honum hefði verið verulega brugðið vegna myndbandsins og að það væri alveg nýtt í íslenskri pólitík að heimili fólks væri gert að skotmarki. „Mér sýnist vera brotið í blað í þessari auglýsingu sem Bolli Kristinsson, fyrrverandi kaupmaður, ber ábyrgð á. Í fyrsta lagi að auðmaður fjármagni rógsherferð í krafti auðs til að sannfæra almenning um hluti sem eru rangir og hafa verið hraktir í öllum fréttum. Og hins vegar að Bolli skuli hafa geð í sér til að gera myndir af heimili mínu að aðalatriði á meðan dylgjur og rakalausar ásakanir eru lesnar yfir. Þetta er mínu mati ömurlegt og nýtt á Íslandi,“ var haft eftir borgarstjóra í Fréttablaðinu.
„Þetta myndband er svo mikill viðbjóður. Svo andstyggilegt, ómálefnalegt og siðlaust. Fyrir utan afleiðingarnar sem það gæti haft í för með sér þegar kjörinn fulltrúi hegðar sér með þesssum óábyrga og ósvífna hætti; marklaust og siðspillt. Ég fordæmi þetta,“ skrifar Líf Magneudóttir borgarfulltrúi Vinstri grænna á Twitter í dag.
Pawel Bartoszek borgarfulltrúi Viðreisnar hafði áður gagnrýnt myndbandið harðlega, skömmu eftir að það birtist rétt fyrir jól. „Ekki fallegt að sjá sponsaðar auglýsingar þar sem keyrt er framhjá heimili borgarstjóra og það sýnt frá ólíkum sjónarhornum í dumbungsbirtu. Við getum verið ósammála um margt pólitík, til þess er hún, en að nota "drive-by" sem taktík finnst mér heldur óframbærilegt,“ skrifaði Pawel þá. „Mánuður síðan mér ofbauð þetta. Fólk sem tekur þátt opinberri umræðu þarf að sýna ábyrgð,“ segir Pawel nú.
Mánuður síðan mér ofbauð þetta. Fólk sem tekur þátt opinberri umræðu þarf að sýna ábyrgð.
— Pawel Bartoszek (@pawelbartoszek) January 28, 2021
Skotið á höfuðstöðvar flokka og Samtaka atvinnulífsins
Eftir að skotið var á skrifstofu Samfylkingarinnar í síðustu viku spurðist það út að á síðustu misserum hefði endurtekið verið skotið á rúður í höfuðstöðvum íslenskra stjórnmálasamtaka. Lögregla sagði frá því að skotið hefði verið á skrifstofur Viðreisnar, Sjálfstæðisflokksins og Samtaka atvinnulífsins á undanförnu ári og einnig voru sagðar fréttir af sambærilegum skemmdarverkum eða árásum á skrifstofur Pírata árin 2018 og 2019.
Ekkert þessara mála hafði ratað í fjölmiðla.
Kjarninn spurði lögreglu að því hvort sérstakar áhyggjur væru af því að árásin beindist að einum tilteknum nafngreindum stjórnmálamanni, á meðan að fyrri skotárásir hefðu beinst gegn samtökum. Lögregla sagðist í svari til Kjarnans ekki ætla að veita neinar frekari upplýsingar að svo stöddu, eins og áður hefur komið fram.
Stundin sagði frá því eftir árásina á húsnæði Samfylkingarinnar að stjórnmálafólki hefði verið uppálagt að hafa varann á. Þau skilaboð munu hafa komið frá lögreglunni, samkvæmt frétt blaðsins.