„Það er höggvið ansi nærri manni þegar heimilið er annars vegar, því þar býr ekki bara ég heldur fjölskylda mín og krakkarnir,“ sagði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í viðtali við Ríkisútvarpið í dag. Eins og greint var frá í morgun var skotið með byssu á bíl Dags, einhverntímann í síðustu viku.
Borgarstjóri segist í viðtalinu hafa tekið eftir skotgötum á fjölskyldubifreiðinni síðasta laugardag, er hann var að ganga inn í bílinn. Lögregla hafi síðan fengið bílinn í hendur, tekið hann til rannsóknar og fundið kúlur inni í hurðinni. Dagur segir í viðtalinu að ekki liggi nákvæmlega ljóst fyrir hvenær skotið var á bílinn eða hvort bíllinn hafi þá staðið fyrir utan heimili hans. Þessir hlutir séu á meðal þess sem lögregla rannsakar nú.
Í viðtalinu við RÚV staðfestir Dagur að gripið hafi verið til ráðstafana fyrir utan heimili hans í kjölfar þess að skotgötin uppgötvuðust. „Við erum bara þakklát fyrir það,“ sagði Dagur.
Hann segir að fjölskyldan hafi reynt að halda sjó síðustu daga, en þetta hafi verið mikið áfall. „Þetta auðvitað tekur svolítið yfir lífið, ég neita því ekki, en um leið og við gefum lögreglu núna bara færi á að vinna málið þá vil ég bara slá skjóli um fjölskylduna og hafa það bara út af fyrir okkur,“ sagði Dagur.
Tilefni til umræðna um hörkuna í umræðunni
Hann sagði aðspurður að hann vonaði að þetta mál væri ekki til marks um að við værum að ganga inn í nýja tíma í pólitík á Íslandi, þar sem opinberar persónur gætu átt von á svona löguðu. Þetta ætti þó að verða tilefni til umræðna um hvernig við viljum hafa umræðuna, samfélagið.
„Það taka allir eftir þeirri hörku sem er hlaupin í ýmis samskipti, það eru stór orð sem eru notuð og þar berum við öll sem samfélag ábyrgð. Hvar við drögum mörkin. Hættan er alltaf sú að línan færi alltaf aðeins lengra … og í mínu hjarta þá er komið hingað og ekki lengra,” sagði Dagur sem hálfpartinn komst við á þessum tímapunkti í viðtalinu.
Dagur tjáði sig sömuleiðis um myndband á vegum pólitískra andstæðinga hans sem birtist skömmu fyrir jól, en þar sást heimili hans glögglega undir orðum Vigdísar Hauksdóttur borgarfulltrúa, sem sakaði Dag um spillingu. Í dag hefur þetta myndband verið sett í samhengi við skotárásina á bifreið Dags og fjölskyldu, meðal annars af hálfu borgarfulltrúa meirihlutans.
„Ég lá ekkert á því á sínum tíma að það vakti með mér óhug og mér fannst þarna verið að fara í einhverja nýja átt sem við höfum ekki séð áður í íslenskri pólitík eða samfélagsumræðu - að birta auglýsingar sem beinast að heimili fólks. Og ég stend við það. Við vitum hins vegar ekkert um þetta atvik sem getur fengið mig til að fullyrða um einhver orsakatengsl. Þetta er bara hluti af þessu umhverfi sem við hljótum öll að vera hugsi yfir. Og þurfum að spyrna fótum við. Mér fannst það þá og ekki síður í dag,” sagði borgarstjóri við RÚV.