Smit af kórónuveirunni eru nú mun útbreiddara í Ísrael en áður en bólusetningar hófust í landinu fyrir fimm vikum. Viku eftir að bólusetningarherferðin hófst voru samkomu- og ferðatakmarkanir hertar. Staðan í Ísrael er til marks um þá löngu og ströngu vegferð sem heimsbyggðin á fyrir höndum áður en hjarðónæmi næst og hægt verður að láta af þeim fjölþættu aðgerðum sem gripið hefur verið til vegna faraldursins.
Allra augu beinast nú að Ísrael því vegna sérstaks samnings við lyfjaframleiðandann Pfizer hafa þegar yfir þrjátíu prósent þjóðarinnar fengið fyrri skammt bóluefnis fyrirtækisins gegn COVID-19 og meira en 15 prósent báða skammtana.
Heilbrigðisráðherra landsins greindi fyrr í vikunni frá innihaldi samningsins sem felur í grunninn í sér bóluefni í skiptum fyrir rannsóknargögn. Kostir þess að framkvæma rannsókn sem þessa í Ísrael eru m.a. sagðir þeir að heilbrigðiskerfið er háþróað, þjóðin nokkuð fámenn og skipulag bólusetninga, með aðstoð hersins, ítarlegt.
Greint var frá fyrstu niðurstöðum úr forrannsóknum tengdum bólusetningum í Ísrael á mánudag og samkvæmt þeim minnkar hættan af sýkingu af völdum kórónuveirunnar mikið þegar eftir fyrri skammt bóluefnisins og báðir skammtarnir, þ.e. full bólusetning, veitir betri vörn en búist hafði verið við. Af þeim 428 þúsund manns sem fengið höfðu báða skammtana höfðu 63 sýkst af veirunni viku síðar eða 0,014 prósent af heildarfjöldanum.
En þrátt fyrir yfirburðastöðu Ísraela í bólusetningum á heimsvísu hefur þriðja bylgja faraldursins skollið á af krafti. 8. janúar, aðeins viku eftir að herferðin hófst, voru því settar á harðar takmarkanir á ferðalög og samkomur fólks.
„Ofurvopnið“ í baráttunni við COVID-19, eins og hin umfangsmikla bólusetningaherferð Ísraela hefur verið kölluð, á að tryggja hjarðónæmið eftirsótta á mettíma og vonast stjórnvöld til að jákvæð áhrif á efnahagslífið verði farin að sýna sig þegar í byrjun mars.
Fleiri alvarlega veikir
Enn sem komið er hafa þó ofurvopnin tvö, bóluefni og harðar aðgerðir, ekki dugað til að sveigja þriðju bylgjuna niður og staðan á faraldrinum er verri en stjórnvöld höfðu vonast til. Í fyrradag greindust tæplega 8.000 manns með veiruna, um 9,6 prósent allra sem fóru í sýnatöku þann daginn. Margir mánuðir eru síðan slíkur fjöldi smita greindist daglega í landinu. Fólki með virkt smit hefur því haldið áfram að fjölga síðustu daga og álagið á sjúkrahús er einnig mjög mikið. Fjöldi alvarlega veikra er að nálgast 1.200 og deildir á sumum sjúkrahúsum orðnar fullar.
Í gær voru 393 á gjörgæslu með COVID-19, þar af 311 í öndunarvél. Rúmlega 4.500 manns hafa látist vegna sjúkdómsins í Ísrael frá upphafi faraldursins og hefur fjórðungur dauðsfalla verið nú í janúar.
Hinar hörðu takmarkanir í landinu sem felast m.a. í lokun allra skóla og verslunar- og þjónustu sem ekki er talin nauðsynleg, áttu að vera í gildi fram á sunnudag. Stjórnvöld vilja nú hins vegar framlengja þeim og segja ísraelskir fjölmiðlar að enginn hafi átt von á því að staða faraldursins væri jafn slæm á þessum tímapunkti og hún er.
Er hinar hörðu aðgerðir voru kynntar á fyrstu dögum janúar var talað um að þær væru „brúin“ inn í framtíðina – þær síðustu sem þyrfti að fara í til að hafa betur gegn kórónuveirunni. En svo kom breska afbrigðið. Afbrigði veirunnar sem er meira smitandi en önnur og er þegar orðið það sem oftast greinist í Ísrael þessa dagana.
Farsóttarþreyta í bland við bjartsýni?
En skýringarnar á uppsveiflunni í faraldrinum eru fleiri. Talið er að hin svokallaða farsóttarþreyta sem margir jarðarbúar finna fyrir hafi orðið til þess að Ísraelar fylgja ekki sóttvarnareglum jafn ítarlega og áður. Aðrir þættir gætu einnig spilað inn í, svo sem mikil bjartsýni í tengslum við bólusetningaherferðina miklu. Enn fleira gæti mögulega skýrt hina snörpu þriðju bylgju í Ísrael, atriði sem spálíkön tóku ekki tillit til.
Líklegt er talið að faraldurinn væri á enn verri stað í landinu ef bólusetning væri ekki hafin af krafti. Sömuleiðis má leiða líkum að því að bylgjan væri enn svæsnari ef ekki hefði verið gripið til hinna hörðu aðgerða í byrjun janúar.