Friðjón R. Friðjónsson, einn eiganda og framkvæmdastjóri KOM ráðgjafar, segir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi nú á sér það yfirbragð að hann vilji ekki að íslenskt samfélag breytist í takt við tímann eða umheiminn. „Ef Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að skilgreina sig sem flokk sem er á móti breytingum á efnahagslífinu, sjávarútveginum, landbúnaðarkerfinu, orkumálum, stjórnarskránni og samfélaginu sjálfu – þá mun hann daga uppi og verða að steini, eins og tröll í dagrenningu. Aðrir stjórnmálaflokkar taka sér þá forystuhlutverk og færa sínar hugmyndir og sitt stjórnlyndi í lög og reglur.“
Þetta kemur fram í grein sem Friðjón skrifar í Morgunblaðið í dag.
Friðjón starfaði um tíma sem aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, eftir að hafa verið ráðinn í það starf árið 2010. Hann hefur auk þess tekið virkan þátt í kosningastarfi flokksins árum saman, situr í miðstjórn hans og er formaður upplýsinga- og fræðslunefndar Sjálfstæðisflokksins.
Hvað hefur gerst síðastliðinn 15 ár?
Grein Friðjóns ber yfirskriftina: „Hvenær hætti Sjálfstæðisflokkurinn að vera flokkur breytinga?“ Þar rekur hann hvað það var sem dró hann að flokknum á tímum sem hann kennir við „Sovét-Íslands“.
Hann spyr svo hvað hafi verið gert síðastliðin 15 ár, en nú er rétt rúmlega sá tími liðinn síðan að Davíð Oddsson hætti sem formaður Sjálfstæðisflokksins. Auk Bjarna hefur Geir H. Haarde leitt flokkinn á þeim tíma. Friðjón rekur að afleiðingar hrunsins og ætlaðir afleikir vinstristjórnar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna hafi vegið þungt á verkefnalistanum. Svo hafi tekið við barátta vegna krónueigna kröfuhafa og gjaldeyrishafta. „Það er erfitt að áfellast forystu flokksins fyrir að vera upptekin af þessum mikilvægu verkefnum og öðrum til að laga ríkisreksturinn. En kannski höfum við hin ekki verið nógu vakandi. Afleiðingin er sú að Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú á sér það yfirbragð að hann vilji ekki að íslenskt samfélag breytist í takt við tímann eða umheiminn.“
Óhrædd viðað vera frjálsari, opnari og betri
Friðjón skrifar að stjórnmál séu samkeppni líkt og viðskipti þjóða og í raun samfélagið allt. „Löndin í kringum okkur eru á fleygiferð, þau munu sigra okkur í samkeppni þjóðanna um fólk, hugvit, framkvæmdagleði, vöxt og velferð ef við fylgjum ekki með. Við þurfum að vera í sterkum og nánum tengslum við nágranna- og viðskiptaþjóðir okkar, tilbúin til að þróast og vera sveigjanleg í viðskiptum, án þess að gangast undir erlent yfirvald.
Sjálfstæðisflokkurinn leiddi íslenskt samfélag á tuttugustu öldinni frá örbirgð til auðlegðar. Ef við sjálfstæðisfólk höfum trú á Íslandi á tuttugustu og fyrstu öldinni þá þurfum við að vera óhrædd. Óhrædd við að taka forystu í að leiða Ísland til að vera frjálsara, opnara og betra.“
Hann nefnir svo þær breytingar sem hann telur að Íslendingar verði að vera óhræddir við að gera. Það þyrfti að gera „breytingar á landbúnaði svo hann líkist öðrum vestrænum löndum, færa mennta- og heilbrigðiskerfin nær því sem gerist annars staðar á Norðurlöndum, haga orkumálum eins og Norðmenn og Danir, horfa til nýrra leiða í samgöngum, taka erlendri fjárfestingu opnum örmum, jafna atkvæðisrétt, einfalda rekstrarumhverfi lítilla fyrirtækja með afnámi regluverks og vera óhrædd við að taka forystu í loftslagsmálum með raunverulegum lausnum. Og óhrædd við að velta öllum steinum úr vegi sem óvart lentu í sólinni í dagrenningu.“