Stefnt er að því að frumdragaskýrsla um fyrsta áfanga Borgarlínu verði gefin út á allra næstu dögum, en útgáfan hefur dregist töluvert frá því sem áætlað var. Efni skýrslunnar var kynnt fyrir öllum kjörnum fulltrúum á höfuðborgarsvæðinu á fundi 18. desember síðastliðinn.
Í viðtali við Kjarnann í lok ágúst sögðu fulltrúar Verkefnastofu Borgarlínu, sem heldur utan um verkefnið, að það styttist í útgáfuna. Mögulega yrði skýrslan kynnt eftir um það bil mánuð, eða í september. Síðan hefur tíminn liðið.
Hrafnkell Á. Proppé hjá Verkefnastofu Borgarlínu segir nú við Kjarnann í skriflegu svari við fyrirspurn að ekki sé hægt að neita því að dregist hafi að koma skýrslunni út, en að stefnt sé að útgáfu innan skamms og að félagið Betri samgöngur ohf. sé að undirbúa viðburð í tengslum við útgáfuna. Hrafnkell segir janúarmánuð hafa farið í snurfus og undirbúning fyrir prentun skýrslunnar.
Hvað verður í þessari skýrslu?
Frumdragaskýrslunni hafa margir beðið eftir, en hún mun í reynd veita fyrstu heildstæðu myndina af því hvernig fyrsta lota Borgarlínu á liggja um höfuðborgarsvæðið, nánar tiltekið frá Ártúnhöfða að Hlemmi og frá Hlemmi í gegnum miðborgina, út í Vatnsmýri, yfir væntanlega Fossvogsbrú og upp Kársnesið að Hamraborg.
Fjallað var um væntanlega skýrslu í ritinu Borgarsýn, sem Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar gaf út í desembermánuði. Í grein Birkis Ingibjartssonar og Eddu Ívarsdóttur var boðað að skýrslan kæmi út í byrjun janúar, eftir árslanga vinnu hóps verkfræðinga, arkitekta og borgarhönnuða á vegum Vegagerðarinnar, Reykjavíkurborgar og Kópavogsbæjar.
Fram kemur í greininni að skýrslan verði tvískipt. Fyrri hlutinn mun fjalla í víðu samhengi um þær forsendur sem liggja til grundvallar áætlana um áherslur á eflingu almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu undir nafni Borgarlínunnar, þar á meðal hvernig samþætt leiðakerfi Strætó og Borgarlínu muni vinna saman og hvaða hönnunarforsendur sé mikilvægt að hafa í huga þegar göturými Borgarlínunnar er hannað.
Í síðari hluta skýrslunnar er síðan rýnt með nánari hætti en hingað til hefur verið gert í einstök atriði sem snúa að Borgarlínunni og væntanlegum framkvæmdum henni tengdum, samkvæmt þeim Birki og Eddu.
Verður meðal annars fjallað um val á staðsetningum stöðva og uppbyggingar- og þróunarmöguleikar í grennd við þær skýrðir betur. Auk þess verður farið yfir uppskiptingu göturýmisins og lagðar til útfærslur sem henta eiga umhverfi og breidd þeirra gatna sem Borgarlínan fer um hverju sinni.
Frumdragaskýrslan á að draga fram heildstæða mynd af fyrstu lotu Borgarlínu og um leið leggja grunn að frekari hönnun innan hvers hluta hennar, en þau Birkir og Edda skrifa að lega fyrstu lotunnar sé um mjög fjölbreytt umhverfi og því margar ólíkar áskoranir sem takast þarf á við milli ólíkra hluta borgarinnar.
„Engin endanleg hönnun liggur þó fyrir enda er nauðsynlegt að fá álit og athugasemdir frá hagsmunaaðilum og íbúum um efni frumdragaskýrslunnar áður en eiginlegt hönnunarferli Borgarlínunnar byrjar og á meðan á því stendur,“ segir í greininni.