Ólafur Guðmundsson varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sem í gærkvöldi lét þau orð falla í athugasemdakerfi Vísis um skotárás á bíl borgarstjóra að borgarstjóri ætti að byrja á sjálfum sér, byltingin væri „komin heim“ og því ætti borgarstjórinn bara að taka, mun víkja úr þremur ráðum borgarinnar vegna orða sinna.
Þetta kom fyrst fram á Vísi og var haft eftir oddvita Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, Eyþóri Arnalds. Ólafur mun ekki lengur vera varamaður í skipulags- og samgönguráði, öldungaráði og innkaupa- og framkvæmdaráði Reykjavíkurborgar. Þrátt fyrir það verður hann áfram varaborgarfulltrúi, en það segir hann sjálfur í samtali við RÚV.
„Bríerí“ og „eðli Facebook“
Ólafur hefur eytt athugasemd sinni í dag, en þurft að svara fyrir orð sín, sem víða hafa verið harðlega gagnrýnd. Hann sagði við Mannlíf í morgun að hann hefði látið orð sín falla „í bríeríi rétt fyrir svefninn“, þau hefðu verið mistök og að umræða um afsögn hans sem varaborgarfulltrúa ætti ekki rétt á sér.
Við RÚV sagði Ólafur fyrir að orð sín hefðu verið óheppileg mistök. „Þetta var í gærkvöldi rétt áður en ég fór að sofa. Þetta er auðvitað eðli Facebook og maður getur gert mistök,“ sagði Ólafur. Hann hefur sent borgarstjóra afsökunarbeiðni, að eigin sögn.
Ummælin fordæmd
Fjölmargir, kjörnir fulltrúar og aðrir, hafa fordæmt orð Ólafs í dag, en með þeim virtist hann réttlæta skotárás á einkabíl borgarstjóra.
„Hafi það verið einhverjum vafa undirorpið, þá fordæmi ég þessi dapurlegu ummæli Ólafs. Það hlýtur að vera algjört grundvallaratriði í lýðræðissamfélagi að fólk geti tekið þátt í pólitískri umræðu án þess að öryggi þess sé ógnað eða friðhelgi heimilis og fjölskyldu rofin,“ sagði Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks á Twitter í dag.
Forsætisnefnd fordæmir nýlegar árásir
Forsætisnefnd Reykjavíkurborgar kom saman í dag og ræddi um nýlegar árásir á höfuðstöðvar stjórnmálaflokka og bifreið borgarstjóra. Þær eru fordæmdar, í bókun sem forsætisnefnd samþykkti á fundi sínum og litnar mjög alvarlegum augum.
„Því miður hafa margir kjörnir fulltrúar áður fengið hótanir vegna starfa sinna. Allt slíkt ofbeldi er aðför að okkar frjálsa, lýðræðislega samfélagi og með öllu óásættanlegt. Forseta er falið að ræða við borgarritara og lögregluyfirvöld og grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að tryggja öryggi kjörinna fulltrúa. Gæta verður hófs í umræðu um kjörna fulltrúa og friðhelgi einkalífs þeirra virt. Við viljum ekki samfélag þar sem fólk sem helgar sig samfélagsmálum þurfi að óttast um öryggi sitt,“ segir í bókun forsætisnefndar.