Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, hefur lagt fram breytingartillögu við stjórnarskrárfrumvarp Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra sem í felst að ákvæði frumvarpsins um náttúruauðlindir er breytt.
Þetta er önnur breytingartillagan sem lögð er fram vegna þessa ákvæðis en þingmenn Pírata, Samfylkingar og Flokks fólksins auk eins þingmanns utan flokka hafa einnig gert slíkt.
Heimildir Kjarnans herma að Þorgerður Katrín hafi átt í viðræðum við forsætisráðherra á síðasta ári um að gerast meðflutningsmaður á stjórnarskrárfrumvarpi hennar ef litlar, en afdrifaríkar, breytingar yrðu gerðar á auðlindaákvæði þess. Þær breytingar, sem eru þær sömu og settar eru fram í breytingartillögu hennar nú, voru þess eðlis að forsætisráðherra var ekki tilbúin að ganga að þeim.
Tillaga Þorgerðar Katrínar gengur annars vegar út á að orðinu „varanlega“ verði breytt í „ótímabundna“ í öðrum málslið annar málsgreinar frumvarps Katrínar. Sá liður myndi í kjölfarið hljóma svona: „Náttúruauðlindir og landsréttindi sem ekki eru háð einkaeignarrétti eru þjóðareign. Enginn getur fengið þessi gæði eða réttindi tengd þeim til eignar eða ótímabundinna afnota.“
Hins vegar vill Þorgerður Katrín að í stað þess að síðasti málsliður þriðju málsgreinar ákvæðisins orðist svona: „Með lögum skal kveða á um gjaldtöku fyrir heimildir til nýtingar í ábataskyni“ segi í honum: „Með lögum skal kveða á um eðlilegt endurgjald fyrir tímabundnar heimildir til nýtingar í ábataskyni.“
Víðfeðmari breytingartillaga
Í frumvarpi Katrínar segir að auðlindir náttúru Íslands tilheyri íslensku þjóðinni. Náttúruauðlindir og landsréttindi sem ekki séu háð einkaeignarrétti séu þjóðareign og að enginn geti fengið þau gæði eða réttindi til eignar eða varanlegra afnota. þá eigi að kveða á um gjaldtöku fyrir heimildir til nýtingar í ábataskyni með lögum, ekki í stjórnarskrá.
Breytingartillaga stjórnarandstöðuflokkanna þriggja, sem minnst var á hér að ofan, er mun víðfeðmari en tillaga Þorgerðar Katrínar. Hún felur meðal annars í sér að bannað yrði að veðsetja auðlindir sem séu sameiginleg og ævivarandi eign þjóðarinnar. Það gæti haft mikil áhrif á stöðu mála innan sjávarútvegsins ef veiðiheimildir yrðu innkallaðar með einhverjum hætti og leigðar út að nýju, þar sem stór hluti úthlutaðs kvóta hefur verið veðsettur til að kaupa upp veiðiheimildir annarra eftir að slíkt var leyft með lögum árið 1997. Afleiðing þessa hefur verið mikið samþjöppun í sjávarútvegi, en samkvæmt nýjustu tölum halda tíu útgerðir á um helming alls úthlutaðs kvóta og fjórar blokkir innan geirans halda á tæplega 43 prósent hans.
Tillagan felur líka í sér að fest yrði í stjórnarskrá að stjórnvöld geti leyft afnot eða hagnýtingu auðlinda „gegn eðlilegu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn.“
Fyrsti flutningsmaður tillögunnar er Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata. Aðrir flutningsmenn eru allir aðrir þingmenn Pírata, Samfylkingar og Flokks fólksins auk Andrésar Inga Jónssonar, þingmanns utan flokka.