Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra þykir það ekki líklegt að Bankasýsla ríkisins leggi til að Íslandsbanki greiði út arð áður en 25 til 35 prósenta eignarhlutur hans verði skráður á hlutabréfamarkað. Hann vill líka losa enn frekar um eignarhald bankans á næsta ári, gangi þessi sala vel.
Þetta sagði Bjarni á opnum hádegisfundi á vegum efnahags- og viðskiptanefndar Sjálfstæðisflokksins í gær, þar sem hann fór yfir fyrirhugaða sölu ríkisins á hluta eignar í Íslandsbanka og svaraði spurningum fundargesta.
Vill losa enn frekar um eignarhald á næsta ári
Á fundinum sagðist Bjarni meta það svo að ríkið ætti jafnt og þétt að losa um eignarhlut sinn í Íslandsbanka og benti á að stefnt væri að fullri einkavæðingu bankans til langs tíma í eigendastefnu ríkisstjórnarinnar. Þó segir hann að frekari ákvarðanir um sölu eignarhluta verði ekki teknar af þessari ríkisstjórn, þar sem eitt ár þurfi að líða eftir að salan eigi sér stað þangað til enn frekari sala geti hafist.
Þó segir Bjarni að það ætti strax að koma til skoðunar á næsta ári að losa enn frekar um eignarhald ríkisins á bankanum, gangi fyrirhuguð sala upp í ár.
Sterk eiginfjárstaða álitlegri í augum fjárfesta
Bjarni minntist einnig á mögulega arðgreiðslu Íslandsbanka til ríkisins fyrir skráningu á markað, þar sem mörgum þyki mikið umfram eigið fé vera í bönkunum. Samkvæmt þaki sem Fjármálaeftirlit Seðlabankans hefur sett á arðgreiðslur bankanna fram á haustið vegna óvissunnar í efnahagslífinu væri í mesta lagi möguleiki á arðgreiðslu upp á 3 til fjóra milljarða króna fram í haust.
Bjarni taldi það ekki líklegt að Bankasýsla ríkisins myndi leggja til að slíkar arðgreiðslur myndu eiga sér stað fyrir skráningu bankans á hlutabréfamarkaði. „Ég held að við megum frekar gera ráð fyrir því að vel fjármagnaður banki með sterka lausafjárstöðu sé líklegri til að laða að sér fjárfesta heldur en banki sem hefur tæmt úr sjóðum sínum,“ bætti Bjarni við á fundinum.