Bolli Kristinsson, athafnamaður sem oft er kenndur við Sautján, hefur beðist afsökunar á einni rangfærslu í myndbandi sem bar heitið „Björgum miðbænum“ og birt var í síðasta mánuði. Hann ætlar að biðja um að myndbandið verði fjarlægt. Það hefur enn ekki verið gert.
Bolli er á meðal þeirra sem stóðu að gerð myndbandsins, en hann hefur leitt hóp sem barist hefur af mikilli hörku gegn götulokunum á Laugavegi og Skólavörðustíg og öðrum breytingum sem borgarstjórnarmeirihlutinn, undir forystu Dags B. Eggertssonar borgarstjóra, hafa beitt sér fyrir.
Í myndbandinu, sem horft hefur verið á í yfir 30 þúsund skipti, var því haldið fram að Dagur hefði keypt þrjú bílastæði við heimili sitt af Reykjavíkurborg án útboðs og að kostnaður við gerð Óðinstorgs, sem stendur í námunda við heimili Dags, hafi verið á 657 milljónir króna. Hið rétta er að Dagur og fjölskylda hans keyptu tvö stæði fyrir áratug síðan af nágrönnum, enda stæðin í einkaeigu. Raunverulegur kostnaður við gerð Óðinstorgs var 60,6 milljónir króna samkvæmt tilkynningu frá Reykjavíkurborg sem send var út á föstudag.
Í stöðuuppfærslu sem Bolli setti inn á Facebook-síðu aðgerðahópsins „Opnum Laugaveg og Skólavörðustíg“ í gærkvöldi gengst hann einungis við einni rangfærslu, þeirra em snýr að bílastæðum við heimili borgarstjóra. „„Ég hef aldrei verið ósannindamaður og var mér sagt að allt sem þarna er sagt væri eftir áreiðanlegum heimildarmönnum,“ skrifaði Bolli.
Segir heimili sitt hafa verið gert að skotskífu
Í umræddu myndbandi var heimili borgarstjóra sýnt og sömuleiðis áðurnefnd bílastæði hans. Borgarstjóri var í sama mund sakaður um spillingu.
Myndbandið hefur verið sett í nýtt samhengi eftir að byssukúlur fundust í bifreið Dags fyrir rúmri viku. Talið er að skotið hafi verið á bifreiðina þar sem hún stóð fyrir utan heimili borgarstjóra. Skömmu áður hafði verið skotið á skrifstofu Samfylkingarinnar.
Dagur sagði í Silfri Egils í gær að hann gæti ekki fullyrt um orsakasamhengi milli myndbandsins og skotárásarinnar. „Hinsvegar sagði ég strax þegar farið var að keyra þetta á stærstu netmiðlum landsins að þetta ylli mér óhug. Ég var ekkert einn í fjölskyldunni um það. Okkur fannst þetta mjög óhugnanlegt. Mér fannst þarna verið að fara inn á alveg nýjar brautir í íslenskri pólitík, færa mörkin og gera heimili mitt að skotskífu. Þá grunaði mig ekki það sem núna gerðist.“
Vigdís skýtur til baka
Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, kom einnig að gerð myndbandsins með því að lesa yfir það. Í stöðuuppfærslu á Facebook í morgun segist hún að fjölmiðlar hafi reglulega upplýst um búsetu kjörinna fulltrúa, og hlekkjar því til stuðnings í frétt mbl.is um búsetu borgarfulltrúa frá byrjun árs 2018.
Vigdís segist ekki fylgjandi slíku. „Þá er einnig rétt að upplýsa um að borgarstjóri gerði heimili mitt að umtalsefni í ræðu sinni á borgarstjórnarfundi á síðasta ári þegar skipulagsmál voru til umræðu Góð þróun? Nei líklega ekki.“
Í athugasemd við eigin færslu bætir Vigdiís svo við að Dagur hafi opnað heimili sitt fyrir gestum og gangandi á hverju ári, og vísar þar í vöflukaffi sem borgarstjórinn og fjölskylda hans hafa staðið fyrir á Menningarnótt.